Hvalveiðar

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 15:18:24 (4995)

1998-03-23 15:18:24# 122. lþ. 92.1 fundur 268#B hvalveiðar# (óundirbúin fsp.), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[15:18]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Fyrir tæplega ári voru kynntar niðurstöður starfshóps um hvalveiðar. Sjútvrh. taldi að málið væri komið í ákveðinn farveg. Ríkisstjórnin hefði fallist á meginatriði skýrslunnar, í tillögum nefndarinnar væri beinlínis lagt til að hvalveiðar yrðu teknar upp að nýju en það skref yrði þó ekki stigið fyrr en að höfðu víðtækara samráði. Fram kom hjá ráðherra að leitað yrði eftir formlegu samstarfi við stjórnarandstöðuna og þannig reynt að ná pólitískri samstöðu um að afgreiða á Alþingi ályktun um að hefja nýtingu hvalastofna hér við land.

Einnig kom fram hjá ráðherra að öðrum ríkjum yrði kynntur málstaður Íslands og samkomulags leitað um framkvæmd þeirrar stefnu að hefja hvalveiðar á ný. Lykilorðin voru kynning og samráð. Þetta var fyrir u.þ.b. ári.

Áhugi ríkisstjórnarinnar og sjútvrh. á hvalveiðum kemur skýrast fram í því hve rösklega er gengið til verka. Því vil ég spyrja hæstv. sjútvrh. eftirtalinna spurninga:

1. Hvaða kynningarstarf hefur farið fram gagnvart erlendum ríkjum síðan tillögur starfshópsins voru kynntar fyrir u.þ.b. ári og hverjir hafa staðið að þeirri kynningu?

2. Hvenær kemur að samráðinu við stjórnarandstöðuna til að byggja upp hina pólitísku samstöðu?

Síðast þegar ég spurðist fyrir um þetta hafði enn ekki verið boðað til fundar þeirra sem tilnefndir voru í fyrra af hálfu þingflokkanna.