Hrognkelsaveiðar

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 15:26:29 (5002)

1998-03-23 15:26:29# 122. lþ. 92.1 fundur 269#B hrognkelsaveiðar# (óundirbúin fsp.), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[15:26]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að það virðist vera fyrirsjáanleg veruleg verðlækkun á afurðunum og það geti komið af þeim sökum til tekjutaps. Ég sé hins vegar ekki að það sé hægt að bregðast við því með breytingum á veiði eða veiðireglum. Því miður er það þannig að það gerist á mörkuðum fyrir sjávarafurðir að verð breytist, það hækkar og það lækkar. Þetta er það sem atvinnugreinin þarf að búa við og laga sig að. Ég sé ekki að með stjórnvaldsaðgerðum verði verðþróun á erlendum mörkuðum breytt. Ákvarðanir um veiðitíma eru teknar út frá almennum líffræðilegum forsendum en ekki markaðsaðstæðum. Það á jafnt við um ákvarðanir um grásleppuveiðar og aðrar veiðar.

Varðandi síðara atriðið sem hv. þm. spurðist fyrir um er mér ekki kunnugt um að ákveðin hafi verið nein breytt framkvæmd í þeim efnum. Tilteknir bátar hafa grásleppuleyfi og aðrir ekki og ég þekki ekki neitt breytta framkvæmd af hálfu Fiskistofu í þeim efnum en er fús til að kanna það ef einhverjar breytingar hafa verið gerðar á framkvæmd mála af hálfu Fiskistofu varðandi þau dæmi sem hv. þm. nefndi þar um varðandi stærri báta sem hafa ekki grásleppuleyfi.