Stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 15:30:20 (5005)

1998-03-23 15:30:20# 122. lþ. 92.1 fundur 270#B stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga# (óundirbúin fsp.), KH
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[15:30]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Fyrir helgina bárust fréttir af ákvörðunum um stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga. Ákvörðunin tekur til stækkunar um einn ofn, þ.e. þriðja ofninn í verksmiðjunni, og fyrirheit eru raunar gefin um að stefnan verði sett á fjórða og jafnvel fimmta ofninn. Fréttaflutningur hefur verið fremur einhliða. Ekkert skorti á upplýsingar um fjármálahlið þessa máls, um afkomu fyrirtækisins, um veltu þess og hagnað og hver búhnykkur yrði af nýjum ofni. Hann yrði einn sá stærsti í heiminum, verksmiðjan yrði sú stærsta sinnar tegundar, þriðji ofninn yrði sá afkastamesti í heiminum og fullyrt er að framkvæmdir hefjist á næstu vikum og helstu byggingarframkvæmdum ljúki fyrir árslok. Þessu á auðvitað að fylgja mikil hagsæld og störf til langframa fyrir 25 manns. En það vantar ýmislegt í þessa merkilegu frétt sem ég hef hvergi séð né heyrt. Það er t.d. hvergi minnst á að þessi framleiðsluaukning muni leiða til aukins útstreymis koltvíoxíðs um 160 þús. tonn og ekki verður það til að auðvelda okkur að undirrita samning þjóða heims um að draga úr mengun andrúmsloftsins.

Ég spyr hæstv. iðnrh.: Hvað með umhverfismat vegna þessarar miklu stækkunar og framleiðsluaukningar? Það var fullyrt í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins að ekki þyrfti neitt umhverfismat, vegna þess að ákvörðun um þriðja ofninn byggðist á lögum frá 1977. Ég finn ekkert slíkt í þeim lögum. Það er aðeins kveðið á um byggingu tveggja ofna en hæstv. ráðherra getur kannski bent mér á þetta ákvæði. En þó svo væri, á að trúa því að menn ætli ekki að taka tillit til gjörbreyttra viðhorfa frá þeim tíma og stóraukinna krafna um umhverfisvernd? Á hverju ætla menn þá að byggja starfsleyfið vegna þessarar stækkunar og hvar er það á vegi statt? Hvar er byggingarleyfið á vegi statt? Er það fengið? Hvað með samráð við nágranna verksmiðjunnar og þá á ég ekkert síður við þá sem búa andspænis verksmiðjunni og hafa hana daglega fyrir augum? Hvað finnst þeim? Og hvað með samráð eða álit samstarfsnefndar sem nýlega var sett á stofn til að fylgjast með áhrifum á umhverfið vegna stóriðju í Hvalfirði?