Stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 15:35:10 (5007)

1998-03-23 15:35:10# 122. lþ. 92.1 fundur 270#B stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga# (óundirbúin fsp.), KH
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[15:35]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Mikil er nú ánægjan þarna uppi í Hvalfirði. Ég hef svolítið aðrar upplýsingar en hæstv. ráðherra þar sem hann vitnaði til mikillar ánægju meðal umhverfisverndarsinna, að því er mér best skildist, þarna í Hvalfirðinum. Hann vill þá kannski lýsa nákvæmlega í hverju samstarf við þetta fólk er fólgið um það hvað er að gerast í Hvalfirði. Mér kom raunar ekkert sérstaklega á óvart í svörum hæstv. iðnrh. Þau voru á þann veg sem vænta mátti. Hann telur auðvitað allt gulltryggt í bak og fyrir en það vakti athygli mína að hann minntist ekki á hina miklu auknu losun koltvíoxíðs um 160 þús. tonn á einu bretti. Og ég spyr: Hvarflar yfirleitt ekkert að hæstv. ráðherrum þessarar ríkisstjórnar að reyna að uppfylla þau markmið sem sett voru á fundinum í Kyoto á síðasta ári? Var það bara allt í plati? Eða er það einlægur ásetningur manna, ef betlistafurinn dugar ekki, þ.e. betlið um að fá að menga talsvert meira en aðrir, að þá verði samkomulagið bara hunsað og brotið? Veldur þetta hæstv. ráðherra engum áhyggjum?