Staðan í kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 16:04:59 (5019)

1998-03-23 16:04:59# 122. lþ. 92.93 fundur 277#B staðan í kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna# (umræður utan dagskrár), Flm. SighB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[16:04]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Fyrir aðeins um það bil tveimur klukkustundum var sáttafundi sjómanna og útvegsmanna slitið í húsakynnum sáttasemjara. Samningsslitin urðu með þeim hætti að útgerðarmenn gerðu kröfu um það að sjómenn féllust á tiltekin skilyrði og tilkynntu þeim að ef þeir ekki féllust á þá skilmála væri tilgangslaust að halda samningaviðræðum áfram.

Áður höfðu sjómenn samþykkt miðlunartillögu sáttasemjara þar sem hugmyndir þriggja ráðuneytisstjóra um breytt lagaumhverfi til að tryggja sjómönnum umsamin hlutaskiptakjör voru kjarni. Útvegsmenn felldu hins vegar málamiðlunartillöguna fyrst og fremst vegna þess að þeir vildu koma í veg fyrir framgang frumvarpanna eins og kemur glögglega fram í viðtali við formann Landssambands ísl. útvegsmanna í Degi nú um helgina. Staðan í málinu nú er því sú að engar viðræður fara fram, enn stendur verkfall sem alfarið er á ábyrgð útgerðarmanna vegna þess að þeir vilja koma í veg fyrir að þau frv. sem hæstv. ríkisstjórn lét vinna fái framgang hér á Alþingi og telja sig geta stöðvað málið þannig. Ég spyr hæstv. forsrh.: Hvað hyggst ríkisstjórnin gera?

Í viðtali við Morgunblaðið föstudaginn 20. mars sl. sagði hæstv. utanrrh. orðrétt, með leyfi forseta:

,,Ég held hins vegar að það liggi alveg ljóst fyrir að forsenda þess að deilan fái farsæla lausn sé að þau frumvörp sem hafa verið samin á vegum þriggja manna nefndar ríkisstjórnarinnar verði flutt á Alþingi. Ég sé í sjálfu sér ekki að það sé eftir neinu að bíða með að þau séu lögð þar fram.``

Daginn eftir, á laugardegi, 21. mars kom hins vegar annað viðtal við hæstv. utanrrh. í Morgunblaðinu og af því viðtali er ekki annað að skilja en að hæstv. sjútvrh. hafi upplýst hann um að hæstv. sjútvrh. hafi lofað forsvarsmönnum LÍÚ því að frumvörp þau sem um ræðir yrðu ekki lögð fram á Alþingi nema verkfalli yrði aflýst eða að samkomulag tækist um lausn sjómannadeilunnar.

Mér er forvitni á að vita, hæstv. forsrh.: Er þetta rétt? Hefur hæstv. ríkisstjórn gefið LÍÚ-forustunni, og þá áður en atkvæðagreiðslan um málamiðlunartillögu sáttasemjara hófst, til kynna að ef samningar ekki næðust mættu forsvarsmenn LÍÚ ganga út frá því sem gefnu að frv. yrðu ekki lögð fram á Alþingi og þannig hafi ríkisstjórnin fengið forsvarsmönnum LÍÚ í hendur fullan og óskoraðan stöðvunarrétt á því að ríkisstjórnin legði frumvörpin fram á Alþingi? Er það rétt skilið að svona hafi verið gengið frá málum?

Í öðru lagi spyr ég hæstv. forsrh.: Hvaða boðskap hefur ríkisstjórnin nú að flytja deilendum í sjómannadeilunni eftir að ljóst er að sjómenn hafa fallist á málamiðlunartillögu sáttasemjara og lýst fylgi sínu við frumvarpsbúning hæstv. sjútvrh. og annarra ráðherra sem að málinu koma? Hvað hyggst ríkisstjórnin gera til þess að greiða fyrir lausn þeirrar alvarlegu deilu sem nú er komin upp og alfarið er á ábyrgð annars viðsemjanda, þ.e. LÍÚ? Hvaða boðskap hefur hæstv. ríkisstjórnin að flytja sjómönnum sem fyrir sitt leyti hafa gengist inn á þær lausnir sem sáttasemjari og ríkisstjórnin hafa boðið á þessari deilu?