Ritun sögu heimastjórnartímabilsins 1904-18

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 17:30:35 (5035)

1998-03-23 17:30:35# 122. lþ. 92.16 fundur 453. mál: #A ritun sögu heimastjórnartímabilsins 1904-18# þál., Flm. KÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[17:30]

Flm. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Það gengur ýmislegt á þessa dagana. Ég hefði óskað þess að hæstv. forsrh. væri viðstaddur umræðuna líka en ég ætla að láta mig hafa það að mæla fyrir málinu því að mér finnst mikilvægara að koma því til nefndar.

Sú till. til þál. sem ég mæli fyrir gengur út á það að fela forsrh. að láta rita sögu heimastjórnartímabilsins 1904--1918. Hér er nánar skilgreint hvernig verkið skuli unnið, það skuli fjallað um aðdraganda þess að Íslendingar fengu heimastjórn, hugmyndir sem að baki lágu, helstu forvígismenn sjálfstæðisbaráttunnar um aldamótin, bæði karla og konur --- það er rétt að taka það fram --- aðgerðir stjórnvalda á tímabilinu og umræður og átök sem þá urðu. Einnig verði fjallað um þau áhrif sem atburðir úti í heimi höfðu á líf landsmanna og loks þróun samfélagsins á þessum tíma sem lagði að stórum hluta grunn að því atvinnulífi, stjórnkerfi og mannlífi sem hér þrífst nú. Hér er lagt til að stefnt verði að því að ritið verði tilbúið til útgáfu á 100 ára afmæli heimastjórnarinnar árið 2004.

Hæstv. forseti. Það tímabil sem hér um ræðir í sögu okkar lands er afar spennandi. Eins og ég nefni í tillögugreininni gekk mikið á í íslenskum stjórnmálum. Á þessu tímabili voru stjórnmálaflokkarnir að verða til, verkalýðshreyfingin var að verða til, samvinnuhreyfingin tók gríðarlegum framförum og óx mjög þó hún hefði hafið sitt skeið nokkru fyrr. Á þessum tíma voru margir mjög aðsópsmiklir og merkilegir stjórnmálamenn sem réðu hinni pólitísku umræðu og hér voru átök um ýmis stórmál eins og lagningu síma, um ný fræðslulög og fleira og fleira sem reyndust deilumál á sínum tíma en síðar þjóðinni til mikilla heilla.

Þótt undarlegt megi virðast hafa þessu tímabili ekki verið gerð ítarleg skil í neinum yfirlitsritum. Til eru ævisögur einstakra stjórnmálamanna eins og ævisaga Hannesar Hafsteins. Núna er verið að rita ævisögu Einars Benediktssonar skálds, sem kom mikið við sögu þessa tímabils, og fleiri mætti nefna en það eru líka margir af þeim stjórnmálamönnum, körlum og konum, sem mest bar á á þessu tímabili sem hefur ekki verið gerð skil og má þar t.d. nefna Valtý Guðmundsson, Þorbjörgu Sveinsdóttur, sem lést reyndar áður en heimastjórnartímabilið gekk í garð en hafði mikil áhrif í aðdragandanum, og fleiri. Að mínum dómi gefst nú mjög gott tækifæri til þess að fara ofan í þetta merka tímabil og væri afar skemmtilegt ef tækist að ljúka þessu verki fyrir árið 2004.

Það fólk sem barðist fyrir sjálfstæði Íslands og lagði sitt af mörkum til þess að þróa samfélag okkar í átt til nútímans, í átt til aukinna mannréttinda og aukins jafnaðar, allt þetta fólk á það svo sannarlega skilið að þessi saga sé skráð og það er líka nauðsynlegt að skoða hana upp á nýtt út frá nýjum sjónarmiðum því að sannleikurinn er sá að lengi vel eimdi eftir af þessum miklu átökum. Menn eins og Valtýr Guðmundsson voru kallaðir landráðamenn og var illa talað um þá en ég hygg að við mundum sjá ýmsar hugmyndir hans í nýju ljósi núna þannig að þarna er mjög margt að skoða og þarna er um mjög spennandi verkefni fyrir sagnfræðinga að ræða.

Yfirlitssögur þeirra hreyfinga sem urðu til á þessum tíma eru ekki til. Saga verkalýðshreyfingarinnar hefur reyndar lengi verið í bígerð og lengi verið unnið að henni en því verki er ekki lokið. Sögu samvinnuhreyfingarinnar var stungið ofan í skúffu af einhverjum ástæðum sem mér vitanlega hafa ekki verið upplýstar en tengjast eflaust túlkunum og deilum á sögu þeirrar hreyfingar og stjórnmálahugmyndum á eftir að gera miklu ítarlegri skil.

Þá má nefna áhrif heimsstyrjaldarinnar fyrri á íslenskt samfélag, hagkerfið, atvinnulífið o.s.frv. Eins og ég nefndi áðan er það afar merkilegt tímabil sem hér um ræðir og kjörið tækifæri til að minnast þess með því að skrifa sérstakt rit. Ég skilgreini ekki nánar hvernig það á að vera. Menn verða að hafa nokkuð frjálsar hendur til að átta sig á því hvernig á að byggja upp slíkt rit, það gæti jafnvel verið í fleiri bindum, á að blanda sögu einstaklinganna inn í sjálfa söguna eða á að taka þá út úr eða hvernig vilja menn gera þetta.

Í nútímasagnfræði hafa áherslur aftur beinst að einstaklingum og menn eru að skoða þá á nýjan hátt í samhengi við söguna og við þurfum einmitt að skoða marga þessa einstaklinga, mann eins og Hannes Hafstein, upp á nýtt því að um hann var rituð mikil hetjusaga sem var skrifuð í ljósi þeirrar dýrkunar sem ríkti á honum. Það þarf auðvitað að skoða hann og hugmyndir hans upp á nýtt eins og svo marga aðra. Ég held að það sé rétt að mikill áhugi er á þessu tímabili og það hefur m.a. komið í ljós við útgáfu fyrsta bindis ævisögu Einars Benediktssonar.

Þá vil ég ekki síst nefna þróun mannréttinda og lýðræðishugmynda sem var mikil á þessum tíma, ekki síst í tengslum við kvenréttindahreyfinguna. Ég vona að því tillagan fái góðar undirtektir og að lokinni þessari umræðu legg ég til að tillögunni verði vísað til hv. allshn.