Stjórnarráð Íslands

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 17:47:32 (5037)

1998-03-23 17:47:32# 122. lþ. 92.18 fundur 545. mál: #A stjórnarráð Íslands# (menningarmálaráðuneyti) frv., Flm. ÁE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[17:47]

Flm. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 930 að leggja fram, frv. til laga um breyting á lögum nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands, með síðari breytingum. Frv. felur í sér að sett verði á laggirnar nýtt ráðuneyti, menningarmálaráðuneyti. Gert er ráð fyrir að verkefni á sviði menningarmála, sem vel flest hafa verið í umsjón menntmrn., verði færð til hins nýja ráðuneytis og sérstakur ráðherra muni fara með menningarmál.

Það er ekki á hverjum degi, herra forseti, að lagt er til að setja á laggirnar nýtt ráðuneyti en að mínu mati er brýnt að svo sé gert. Þó að verksvið menntunar og menningar skarist nokkuð er það minna en ætla mætti. Þess má einnig geta að menntmrn. sem skólamálaráðuneyti hefur fullnóg á sinni könnu og yrði þrátt fyrir þessa breytingu eitt af alstærstu ráðuneytunum. Eins og menn vita, herra forseti, er brýnt að taka til hendinni í skólamálum okkar Íslendinga og þá ekki úr vegi að huga að slíkri uppstokkun í ráðuneytunum eins og lagt er til þó að ekki væri annað en að hagsmunir menntamála væru lagðir þar til grundvallar.

Í frv. er það hins vegar fyrst og fremst rökstutt út frá sjónarmiðum menningar en þetta nýja ráðuneyti mundi fara með málefni sem varða Þjóðleikhús, leikfélög og aðra leiklistarstarfsemi. Það mun fara með tónlistarmál, þar á meðal málefni Sinfóníuhljómsveitar Íslands og aðra tónlistarstarfsemi. Það mun hafa umsjón með listkynningu innan lands og utan, annast listamannalaun og Rithöfundasjóð, bókmenntir og útgáfustarfsemi og undir þetta ráðuneyti munu kvikmyndir einnig falla, þar á meðal Kvikmyndasjóður. Allt sem viðkemur listum yrði á verksviði þessa nýja ráðuneytis. Sömuleiðis munu öll söfn, sem hingað til hafa verið í annarri umsjón, falla undir þetta ráðuneyti og þau söfn sem menningarmálaráðuneytið muni sjá um væru m.a. Landsbókasafn Íslands -- Háskólabókasafn og almenningsbókasöfn. Minjar, þar á meðal Þjóðminjasafn muni falla undir þetta, Þjóðskjalasafn, héraðsskjalasöfn, náttúrugripasöfn og byggðasöfn, jafnframt Listasafn Íslands og önnur listasöfn svo og önnur safnastarfsemi.

Það er ljóst af þessu að þetta eru umfangsmiklir og veigamiklir málaflokkar sem hinu nýja ráðuneyti er falið að annast.

Eitt af ákvæðum í frv. er að gera ráð fyrir því að Ríkisútvarpið, þ.e. hljóðvarp og sjónvarp, verði hluti af menningarmálaráðuneytinu, þ.e. að menningarmálaráðuneytið yrði stjórnsýsluaðili Ríkisútvarpsins í stað menntmrn. eins og nú er.

Önnur ákvæði í frv. gera ráð fyrir því að höfundarlög falli undir þetta, Íslensk málnefnd, manna- og bæjarnöfn og tveir veigamiklir málaflokkar, sem eru íþróttamál og æskulýðsmálefni. Þau mundu vera á verksviði hins nýja ráðuneytis.

Ef skoðuð eru fjárhagsleg umsvif menningarmála hér á landi, þá sést við skoðun á fjárlögum fyrir 1998 að um 17 milljörðum er ráðstafað til menntmrn. og þar af renna tæpir 4 milljarðar til menningarmála. Af þessum tæpum 4 milljörðum eru á annan milljarð, u.þ.b. 1,5 milljarðar sem renna til Ríkisútvarpsins. Umsvif hins nýja ráðuneytis yrðu því um 4 milljarðar en menntmrn. yrði eftir sem áður með veruleg umsvif, eða útgjöld yfir 13 milljarða á ári.

Það er athyglisvert að utanrrn. er með útgjöld upp á 3 milljarða, landbrn. um 8, sjútvrn. 2,5 milljarða, dóms- og kirkjumrn. 8,5, félmrn. 10 milljarða, heilbr.- og trmrn. 59 milljarða, fjmrn. 21 milljarð, samgrn. 10 milljarða, iðn.- og viðskrn. um 2 milljarða og umhvrn. um 1 milljarð. Og til samnburðar yrði hið nýja menningarmálaráðuneyti með umsvif upp á um 4 milljarða.

Þannig væri hið nýja menningarmálaráðuneyti stærra að fjárhagslegu umfangi en utanrrn., sjútvrn., iðnrn., viðskrn. og umhvrn. Önnur ráðuneyti væru stærri. Það er ljóst af þessu, herra forseti, að hið nýja ráðuneyti yrði miðlungsstórt ráðuneyti og út frá því sjónarmiði, þ.e. fjárhagslegu, er hægt að færa fyrir því sterk rök að skynsamlegt væri að hafa menningarmál í sérstöku ráðuneyti.

Það hins vegar ekki svo, herra forseti, að meginþátturinn í röksemdum mínum fyrir nýju ráðuneyti sé að gæta fjárhagslegra hagsmuna, þ.e. hins fjárhagslega umfangs heldur miklu frekar að með þessu er markaður skýr farvegur fyrir menningu hérlendis. Brýnt er að efla hana og styðja og það verður m.a. gert með því að hafa um hana sérstaka stjórnsýsluumgjörð. Við vitum að mikil gróska er í menningu hérlendis. Við sjáum margvíslega útgáfustarfsemi, listsýningar og frjóa menningarmálaumræðu. Við vitum einnig, herra forseti, að það að setja á laggirnar nýtt ráðuneyti getur endurspeglað nýjar áherslur stjórnvalda. Skýrasta dæmið um þetta er þegar umhvrn. var sett á stofn, en það er yngst af ráðuneytunum. Stofnun þess sýndi á sínum tíma aukna áherslu stjórnvalda á umhverfismál. Viðhorf og vinna í sambandi við umhverfismál hafa gjörbreyst, m.a. við það að núna er sérstakt ráðuneyti umhverfismála. Ef þetta frv. yrði lögfest, þá væri um að ræða mjög mikilvæga stefnumörkun af hálfu Alþingis um að gera menningarmálum hærra undir höfði.

Rök hafa heyrst gegn hugmynd um sérstakt menningarmálaráðuneyti. Með því væri verið að auka á umsvif stjórnsýslunnar hér á landi. Þetta er ekki rétt einfaldlega vegna þess að ekki er um að ræða aukningu heldur markvissari stjórnun á menningar- og menntamálum. Ég er þess fullviss að betri stýring yrði á menntamálum hérlendis ef menningarmálin væru tekin út úr menntmrn. alveg eins og ég er fullviss um að menningarmálin fengju betri stjórnun ef þau væru í sérstöku ráðuneyti. Þvert á móti, herra forseti, tel ég að þessi aðferð muni spara hinu opinbera verulegt fé í bættri stjórnsýslu auk þess að styrkja mikilvæga málaflokka sem eru öllu mannlífi til bóta.

Reyndar er hægt að vekja athygli á hugmyndum um að breyta ráðuneytisskipan hér á landi og ég sé sérstaka ástæðu til að gera að umtalsefni sameiningu sjútvrn.-, iðnrn.-, viðskrn. og landbrn. í eitt ráðuneyti. Þar með værum við komin með eitt atvinnuvegaráðuneyti en slík ráðuneyti eru algeng í nágrannalöndunum. Ef menn vilja uppstokkun á ráðuneytunum, þá væri það aðgerð sem væri nokkuð augljós fyrir utan reyndar að setja á laggirnar sérstakt menningarmálaráðuneyti.

Nú er það ekki svo, herra forseti, að verið sé að koma fram með glænýja hugmynd. Þessu hefur verið varpað fram áður. En það sem meira er um vert er að útfærsla á menningarmálaráðuneytum er mjög þekkt erlendis og hefur reynst þar vel. Í Frakklandi til að mynda er starfrækt öflugt menningarmálaráðuneyti og í sumum Norðurlandanna er þessi skipan einnig viðhöfð. Það er því frekar í þá áttina erlendis að menn sjá fyrir sér að menningarmálin fái sérstaka stjórnsýslulega umgjörð.

Einnig þarf að hafa í huga, herra forseti, að menning gerir ekki einungis það að bæta mannlíf og bæta samskipti einstaklinga heldur er hún efnahagslega mikilvæg. Menningarstarfsemi skilar miklu framlagi til landsframleiðslunnar, hlutur hennar fer vaxandi, t.d. í kvikmyndaiðnaði. Þar eru verulega sóknarfæri hvað varðar atvinnu og útflutningsframleiðslu og allt þetta mun hjálpa til við að skapa menningunni þá umgjörð sem henni hæfir. Þess má geta, herra forseti, að í félögum Bandalags ísl. listamanna, sem er hluti af menningarmálastarfsemi, eru vel á annað þúsund og sennilega nær tvö þúsund einstaklingar félagsmenn. Við sjáum því að mikill fjöldi Íslendinga hefur að hluta til eða alla atvinnu sína af starfsemi tengdum menningarmálum. Og menningarmál í þeim skilningi sem átt er við í frv. eru listastarfsemi, safnastarfsemi, íþróttir og æskulýðsstarfsemi auk annarra þátta sem ég gat um í upphafi.

Það er því von mín, herra forseti, að um þetta frv. megi skapast samstaða. Sú leið hefur verið farin að tekið er úr reglugerð Stjórnarráðs Íslands ákvæði þar sem verksvið ráðuneyta eru betur skýrð. Í frv. er gerð tillaga um lögfestingu meginþátta í ákvæðum reglugerðarinnar sem snúa að menningarmálum. Það er sömuleiðis gert ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. jan. 1999, þannig að ráðrúm gefst til að vinna að stofnun þessa nýja ráðuneytis. En vitaskuld er ætlunin einnig með frv. að hveta til umræðu um menningarmál, um stjórnsýslu menningarmála, þannig að sú umræða geti skilað okkur fram á við. Úr því að við viljum hlúa að þessari starfsemi er einnig mikilvægt að það sé gert með markvissum aðgerðum, þar á meðal lagabreytingum eins og hér er lagt til en ekki látið við það sitja að fara um menningarmál fallegum orðum.

[18:00]

Herra forseti. Hér er lögð til skynsamleg útfærsla á nýju ráðuneyti, talin upp þau verkefni sem ættu að vera í því ráðuneyti. Vitnað er til fjárhagslegs umfangs þessa ráðuneytis sem styður þetta skref og jafnframt er vitnað til góðrar reynslu nágrannalandanna af einmitt slíku ráðuneyti eins og hér er lagt til.

Herra forseti. Að svo mæltu óska ég þess að frv. fái víðtæka umfjöllun bæði í þingnefnd og í þjóðfélaginu öllu og að það mundi geta skapast út frá því umræða sem yrði menningu og menningarmálum til framdráttar hér á landi. Ég legg til að að lokinni umræðunni verði málinu vísað til hv. menntmn.