Samábyrgð Íslands á fiskiskipum

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 18:11:25 (5039)

1998-03-23 18:11:25# 122. lþ. 92.20 fundur 557. mál: #A Samábyrgð Íslands á fiskiskipum# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[18:11]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta er vafalaust hið besta mál sem hæstv. iðn.- og viðskrh. hefur flutt hér. Þó langar mig í stuttu andsvari að spyrja hann svolítið út í örfá atriði. Í frv. kemur fram að tilboðið sem honum er gert er m.a. gert fyrir hönd starfsmanna félagsins. Mig langaði að spyrja, vegna þess að það kemur ekki fram í greinargerð eða máli hæstv. ráðherra, hversu margir starfsmenn eiga aðild að tilboðinu og hvað það er hátt hlutfall af starfsmönnum þeirra félaga sem hér greinir um. Í öðru lagi fannst mér hæstv. ráðherra ekki gera nægilega skýra grein fyrir því hvernig verðið, 190 millj., er fundið. Þarna er um að ræða fyrirtæki eða samsteypu sem hefur eigið fé upp á 250 millj. og það er verið að selja á 190 millj. Mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra vildi skýra það ögn. Vel má vera að hann þurfi meira en andsvar til þess og ég er reiðubúinn að hlýða á mál hans í langri ræðu á eftir. Í þriðja lagi langar mig líka að spyrja hæstv. ráðherra hvernig á því standi, fyrst ljóst er að ríkið á þetta, að félagið er ekki boðið út. Er það vegna þess ágreinings sem hann rakti í nokkuð ítarlegu máli að hefur staðið um eignarhald á félaginu? Er það ástæðan fyrir því að ákveðið er að víkja frá þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur fylgt varðandi útboð þegar um er að ræða sölu á eignum ríkisins?