Samábyrgð Íslands á fiskiskipum

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 18:30:52 (5044)

1998-03-23 18:30:52# 122. lþ. 92.20 fundur 557. mál: #A Samábyrgð Íslands á fiskiskipum# frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[18:30]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Mér finnst sem hæstv. viðskrh. eigi eftir að skýra hér nokkra hluti. Þetta mál hefur satt að segja þróast með ólíkindum á allra síðustu mínútum. Við, nokkrir þingmenn, hófum umræðu til að fá upplýsingar um atriði sem voru óglögg, en mér sýnist umræðan hafa snúist á þann veg, að það sem hæstv. ráðherra sagði áðan fellur hreint eins og keilur fyrir hríðskotabyssu.

Hæstv. ráðherra byrjaði á að upplýsa það að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hafi því miður ekki getað tekið þátt í störfum nefndar sem vélaði um þetta mál. Þetta kom mér mjög á óvart. Ég hafði hlaupið á greinargerðinni og þar er hvergi talað um neina nefnd og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hvergi nefndur þar á nafn. En hæstv. ráðherra upplýsir þingmenn um það að sökum mikilla anna hafi hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson ekki verið rekinn úr nefndinni, eins og hæstv. ráðherra sagði, en horfið þaðan sjálfviljugur.

Síðan kemur hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson og upplýsir þingheim um það að hann viti ekki betur en að hann sé enn þá að störfum í þessari nefnd sem sé að undirbúa það mál sem hér liggur fyrir. Og hann hafi af tilviljun heyrt af málinu í útvarpi. Hann lýsir því yfir að þó að hann sé störfum hlaðinn, þá sé það ekki vegna anna sem hv. þm. hafi ekki getað tekið þátt í störfum nefndarinnar. Ég hlýt því að spyrja hæstv. ráðherra: Rak hann hv. þm. Einar Odd Kristjánsson úr þessari nefnd? Ef hann gerði það, hvers vegna? Ef hann gerði það ekki, hvernig stendur þá á því að hann upplýsir að hv. þm. starfi ekki lengur í nefndinni, en hv. þm. kemur hins vegar og heldur því fram að það sé rangt hjá hæstv. ráðherra?

Þessi skrípaleikur heldur svo áfram, herra forseti, vegna þess að það er upplýst að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson er líka stjórnarformaður í Bátaábyrgðarfélagi Ísfirðinga. Það kemur hér fram, herra forseti, að tilboðið, sem hæstv. viðskrh. hefur undirritað, berst honum af hálfu tveggja aðila sem eru Sveinn Hjörtur Hjartarson og Hjálmar Styrkársson, og þeir gera honum tilboðið, m.a. fyrir hönd bátaábyrgðarfélaganna. Ég spyr, herra forseti: Eru þessir menn umboðslausir? Gera þeir tilboð án umboðs?

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson lýsti því skorinort yfir að það félag sem hann veitir forstöðu vissi ekki af þessu. Hann heyrir þetta fyrst í fjölmiðlunum. Hann upplýsir líka að stjórn vátryggingafélagsins Varðar hafi á laugardaginn í hádeginu haldið fund og að þeim fundi loknum hafi komið fram að það er alls ekkert víst að það félag ætli sér að verða þátttakandi í þessu tilboði. Það virðist því að þeir menn sem gerður hefur verið samningur við hafi a.m.k. haft mjög takmarkað umboð. Það umboð skerðist enn frekar þegar lesið er í fylgiskjali I þar sem segir að umræddir aðilar geri tilboðið, ekki bara fyrir hönd bátaábyrgðarfélaganna og viðskiptaaðila við Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, heldur líka starfsmanna sem standa að tilboði þessu. Það segir líka í greinargerðinni, á bls. 2, með leyfi forseta: ,,Meginástæða þess að farið er út í stofnun hlutafélags um reksturinn er að þannig er ríkisstjórninni gert kleift að mæta tilboði sem bátaábyrgðarfélögin, viðskiptaaðilar Samábyrgðarinnar og starfsmenn hafa gert í hlut ríkissjóðs í félaginu.`` En hæstv. ráðherra upplýsti það í svari sínu til mín áðan að enn hafa engir starfsmenn gerst aðilar að tilboðinu. Það er von að hæstv. ráðherra brosi hjárænulega í sæti sínu því að þetta er satt að segja orðið heldur farsakennt.

Við stöndum því frammi fyrir tilboði sem enginn hefur í rauninni gert nema viðskiptamenn Samábyrgðarinnar en bátaábyrgðarfélögin hafa ekki gert það og starfsmennirnir hafa ekki gert það. Þá liggur það auðvitað fyrir að greinargerðin sem hæstv. ráðherra byggir frv. sitt á er röng í veigamiklum atriðum. Ég vek athygli á því, herra forseti, að þær sakleysislegu spurningar sem ég velti fram í upphafi þessarar umræðu í andsvari, af því ég taldi að málið væri svo léttvægt, vörðuðu einungis hlut starfsmanna að þessu tilboði. Það liggur sem sagt fyrir að bátaábyrgðarfélögin eiga ekki hlut að tilboðinu og starfsmennirnir eiga það ekki heldur. Þá spyr ég, herra forseti: Hverjir eru það sem standa að þessu tilboði? Þetta er satt að segja orðið afar merkilegt.

Mér finnst að hæstv. ráðherra þurfi að svara þessu. Þetta er að vísu allt önnur ræða en ég ætlaði að flytja því ég ætlaði einungis að spyrja hæstv. ráðherra út í tiltekin atriði. Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra, ef hann getur gefið sér tóm frá samræðum við samstarfsmenn sína, hvernig verðið á félaginu er fundið. Ég saknaði þess bæði í ræðu hæstv. ráðherra, í greinargerðinni sem ég hef hlaupið á og í andsvörum hans, að hann skýrði það út fyrir okkur hvernig stæði á þessu verði. Í umsögn fjmrn. kemur fram að samkvæmt ársreikningum fyrir 1996 nam eigið fé 253 millj. kr. Hæstv. ráðherra segir að 190 millj. kr. sé ásættanlegt tilboð og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson segir að ekki sé skynsamlegt að gefa meira en 100 millj. kr. fyrir fyrirtækið. Það kom líka fram í máli hæstv. ráðherra að lífeyrisskuldbindingar hvíla á félaginu --- eða það kom fram í umræðum hérna áðan, kannski hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni --- að lífeyrisskuldbindingar hvíla á félaginu. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hvað eru þær miklar og hvað er það sem veldur því að menn festa sig við þetta verð, 190 millj. kr.? Ég held að mikilvægt sé að menn fái upplýsingar um það við 1. umr.

En að lokum þetta, herra forseti: Ég spurði hæstv. ráðherra hvað ylli því að hann telji heppilegt við sölu á þessari eign ríkisins, að víkja frá þeim verklagsreglum sem hæstv. ríkisstjórn hefur fylgt varðandi sölu ríkiseigna, en það eru útboð. Ég er þeirrar skoðunar að sjálfsögðu að viðhafa eigi útboð og það sé besta leiðin til að hámarka eign okkar skattborgaranna. En það sem mér þótti athyglisverðast í svari hæstv. ráðherra var rökstuðningur hans fyrir því að hann féll frá útboðinu. Hann sagði að það hefði verið vegna þess að starfsmenn hefðu komið og gert tilboð í fyrirtækið.

Það finnst mér út af fyrir sig alveg prýðileg regla. Þessi yfirlýsing hæstv. ráðherra gefur auðvitað fordæmi. Hún felur það í sér að hér eftir hljóta starfsmenn ríkisfyrirtækja, sem á að selja, að geta komið til ríkisstjórnarinnar og óskað eftir samningaviðræðum um kaup á þeim. Og þar með að ríkisstjórnin sé reiðubúin til að selja fyrirtækin, semjist um verð við starfsmennina, án þess að fylgja útboðsreglunum sem hin víðfræga nefnd um einkavæðingu hefur sett fram og ríkisstjórnin hefur fylgt.

En það sem er auðvitað merkilegast í málinu er að röksemd ráðherrans fellur algjörlega um sjálfa sig. Það er ekki hægt að koma hingað og upplýsa í fyrsta lagi að hann hverfi frá verklagsreglunum vegna þess að það hafi verið starfsmenn sem gerðu tilboð, og í öðru lagi að staðfesta síðan að engir starfsmenn eru orðnir aðilar að kauptilboðinu. Ég spyr því þennan vaska hæstv. ráðherra, sem yfirleitt kemur hingað með afskaplega vel undirbúin mál: Hvað veldur því að þessi hrákasmíð er lögð fyrir þingheim?