Samábyrgð Íslands á fiskiskipum

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 18:50:22 (5051)

1998-03-23 18:50:22# 122. lþ. 92.20 fundur 557. mál: #A Samábyrgð Íslands á fiskiskipum# frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[18:50]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Umræðan um frv. um að gera Samábyrgð Íslands á fiskiskipum að hlutafélagi hefur farið svolítið út um víðan völl. Frv. snýst ekki um sölu Samábyrgðarinnar. Frv. snýst um að gera Samábyrgð Íslands á fiskiskipum að hlutafélagi en af því að það lá fyrir samkomulag við ríkisstjórnina og þá tilboðsgjafa sem þarna koma fram þótti okkur rétt að prenta tilboðið með þannig að ljóst væri að það stæði til að selja tryggingafélagið ef það yrði gert að hlutafélagi hér á þinginu. Um það snýst málið. Það er að því leyti til allt öðruvísi en það frv. sem kom inn í tíð fyrri ríkisstjórnar því að þá voru einfaldlega tvær eða þrjár greinar sem fjölluðu um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum sem gerðu ráð fyrir því að það félag yrði selt án þess að breyta því í hlutafélag og fyrir það kæmu 150 millj. kr.

Þá snerist deilan um það, og það er ekki rétt hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, einfaldlega um það hver ætti Samábyrgð Íslands á fiskiskipum. Hér er ég með alla þá umræðu sem fram fór um þessar tvær greinar sem voru í því frv. Öll umræðan snerist þá um það hverjir ættu og m.a. sá sem hér stendur tók virkan þátt í þeirri umræðu og vil ég nefna hv. þm. Svavar Gestsson sem tekið hefur þátt í umræðunni líka. Niðurstaðan þá varð sú að menn hættu við að selja Samábyrgðina á þeim forsendum sem þarna var gefið. (ÖS: Hver var afstaða ráðherrans þá?) Afstaða ráðherrans var þá sú að það væri ekki hægt og það er skjalfest í þingtíðindunum að það væri ekki hægt nema að ná samkomulagi við Samábyrgðina um að selja, þ.e. bátaábyrgðarfélögin, og eftir því hef ég unnið sem viðskrh. að leita leiða til þess að ná þessu samkomulagi. Ég kem kannski aðeins inn á það hér á eftir um nefndarstarfið.

Ég hef staðið í þeirri trú að þeir ágætu menn sem gera þetta tilboð fyrir hönd tilboðsgjafa eins og það er orðað hefðu að baki sér alla þá aðila sem þeir voru að gera tilboðið fyrir og ég kem kannski örlítið inn á það hér á eftir. Það er misskilningur hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að fyrst og fremst sé verið að víkja frá verklagsreglum ríkisstjórnarinnar í einkavæðingarmálum vegna þess að verið sé að gera samning við starfsmennina. Það er ekki. Við töldum að þeir væru hluti af þessu samkomulagi sem bátaábyrgðafélögin, viðskiptamenn Samábyrgðinnar og starfsmenn hefðu gert sín á milli og ætla aðeins að rekja það betur á eftir.

Deilan um frv. snýst að einhverju leyti um það hversu hátt verðið á að vera. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson segir að verðið sem hér sé búið að staðfesta, 190 millj. kr., sé allt og hátt. Viðskrh. verður þá varla sakaður um það á sama tíma í þessari umræðu að hann hafi selt Samábyrgðina á of lágu verði. Hins vegar var sú upphæð sem þarna varð samkomulag um lendingu og við byggðum það á úttekt sem við fengum Kaupþing til að gera á virði Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum. Þetta mál hefur því að öllu leyti verið ágætlega undirbúið af okkur og þykir mér leitt ef einhverjir aðrir en viðskrn. eru núna á síðustu metrunum að klikka í því að hafa nægilega undirbúið heimavinnu sína í því að samkomulag gæti tekist um málið. Í greinargerðinni frá Samábyrgð Íslands á fiskiskipum segir:

,,Lágmarks ásættanlegt verð er samkvæmt okkar útreikningum því nálægt 200 millj. kr. og raunar má e.t.v. færa rök fyrir því að þessi tala sé nær 253 millj. kr. sem er bókfært verð eigið fé stofnunarinnar.``

Þetta er niðurstaðan. Við semjum hins vegar um 190 millj. og það byggist á því að við viljum láta bátaábyrgðarfélögin njóta viðskiptavildarinnar sem við teljum að hún hafi verið búin að byggja upp. (Gripið fram í.) Þetta er niðurstaða Kaupþings. Hins vegar er gert ráð fyrir því að lífeyrisskuldbindingarnar séu 90--100 millj. kr. og það er einhver reginmisskilningur, bara bókhaldsmisskilningur, ef menn halda að ekki sé gert ráð fyrir því að þessar skuldbindingar séu færðar upp í reikningum fyrirtækisins. Það er gert. Þær eru færðar skuldamegin í reikningum fyrirtækisins og auðvitað er gert ráð fyrir því að þær komi fram í ársreikningum þannig að ekki er verið að taka þær sérstaklega út og segja: Þær eru bara einhver partur af þessu. Þær eru bara hluti af þessu máli öllu saman og eru í ársreikningnum þannig að engum þarf að koma það á óvart.

Ég ætla þá að víkja að nefndarstarfinu. Það er rétt sem hefur komið fram hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að viðskrh. skipaði nefnd til þess að fara ofan í það hvernig ætti að standa að formbreytingu Samábyrgðarinnar og óskaði eftir tilnefningu frá bátaábyrgðarfélögunum og Samábyrgðinni í þeim efnum. Þær tilnefningar sem bárust frá þessum aðilum voru um nefndarmennina Svein H. Hjartarson, Hjálmar Styrkársson og Einar Odd Kristjánsson.

Þetta hafa verið langar og erfiðar viðræður sem embættismenn ráðuneytisins sem sitja í nefndinni hafa átt við þessa ágætu viðskiptamenn Samábyrgðarinnar. Síðasta sumar gekk það svo langt, og ég veit að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson man það, að það var niðurstaðan að nú væri best að hætta þessu nefndarstarfi og það var tilkynnt á nefndarfundi að best væri að hætta nefndarstarfinu, menn næðu ekki saman og viðskrn. þyrfti að taka ákvarðanir um það hvernig það skyldi standa að þessari breytingu. (Gripið fram í: Enginn rekinn?) Enginn rekinn. Á þessum tíma óskuðu nefndarmenn eftir því að menn fengju aðeins meiri tíma til þess að skoða málið. Sá tími var veittur. Síðan hafa menn verið í óformlegum samtölum þannig að menn haldi öllu til skila í umræðunni um það hvernig að þessu skuli staðið og það endar með því að menn ná samkomulagi sem liggur á borðinu um að bátaábyrgðarfélögin kaupi, um að breyta Samábyrgðinni í hlutafélag og andvirði þessa kaupverðs renni í ríkissjóð til að byggja varðskip og tryggja þannig öryggismál sjómanna m.a. Þetta fannst mér vera hin besta og ásættanlegasta lending og var ánægður með hvað það verð var sem menn voru tilbúnir til þess að borga.

Hins vegar þegar málið kemur inn á Alþingi og það á að taka til 1. umr. fyrir fáum dögum heyri ég að einhver bölvaður draugagangur sé í málinu, aðallega fyrir utan þingið vegna þess að þá eru einstakir menn farnir að hafa samband við þingmenn hér um að það sé engin sátt um málið. Það kom mér á óvart vegna þess að starfsmenn ráðuneytisins hafa allan tímann staðið í þeirri meiningu og þeirri trú og margítrekað það við þá menn sem undirrita tilboðið að að baki þeim sé öll hjörðin sem þeir séu að gera þetta tilboð fyrir. Til þess að ganga alveg úr skugga um að svo væri óskaði ég eftir því að þetta mál yrði ekki á dagskrá fyrir fáum dögum. Haldinn var fundur með tilboðsgjöfunum í viðskrn. og við vildum fá skýrt og skortinort úr því skorið hvort stuðningur væri við málið af hálfu þeirra aðila sem gerðu tilboðin.

Síðan kemur til mín minnisblað frá tilboðsgjöfunum frá 19. mars sl. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Að loknum fundi er við áttum þann 17. mars í viðskrn. með Halldóri Kristjánssyni ráðuneytisstjóra og Benedikt Árnasyni, starfsmanni ráðuneytisins, hefur þetta helst gerst:

Fundur með Einari Oddi Kristjánssyni. Við áttum fund með Einari Oddi Kristjánssyni alþingismanni um stöðu málsins strax um kvöldið og ræddum þær breytingar sem voru frá sameiginlegu nefndaráliti okkar dagsettu 2. október 1997. Í máli Einars kom fram að sökum anna hafi hann ekki verið viðstaddur á þingflokksfundi þegar frv. er tekið fyrir í endanlegri mynd. Jafnframt hafi okkur ekki tekist að gera honum grein fyrir hvernig málalyktir hefðu orðið á síðasta nefndarfundi`` --- sem hann gat ekki sótt. Það er kannski ástæða fyrir því að þetta mál hefur farið svona að hv. þm. eins og ég sagði áðan hefur ekki getað sótt þá nefndarfundi sem boðaðir hafa verið. (EOK: Þetta er frásögn þeirra.) Þetta er frásögn þeirra og ég treysti þeirri frásögn sem er send til mín í viðskrn. eftir að hafa átt fund með þessum ágætu mönnum sem eru í forsvari fyrir þetta félag og eru í stjórnum þessara félaga.

Ég held áfram, með leyfi forseta: ,,Við ræddum við Einar Odd Kristjánsson um væntanlega skiptingu og kaup bátaábyrgðarfélaganna á eignarhluta ríkissjóðs í Samábyrgð Íslands á fiskiskipum. Niðurstaða þeirrar umræðu var að við vorum nokkuð ásáttir um að miða ætti við að hvert ábyrgðarfélag fengi að kaupa 20% eignarhlut í félaginu. Það er Vélbátaábyrgðarfélagið Grótta, Vélbátaábyrgðarfélag Ísfirðinga og Vörður, áður Vélbátafélag Eyjafjarðar. Hlutur Bátaábyrgðartryggingar Breiðafjarðar yrði minni enda er það félag töluvert minna og fjárhagsleg staða þess veikari en hinna þriggja. Síðan yrði selt sem dreifðast tiltölulega lítill hluti til útgerðarmanna sem eru í viðskiptum eða vildu koma í viðskipti svo og til starfsmanna sem óska eftir að eignast hlut.``

Svo segja þeir varðandi kynningu málsins: ,,Í undirbúningi þessa máls hafa bátaábyrgðarfélögin fylgst með gangi þess og okkur virðist áhugi á að þetta nái fram að ganga. Hjálmar Styrkársson er framkvæmdastjóri Gróttu og hefur hann séð um að halda stjórn félagsins upplýstri. Sveinn Hjörtur Hjartarson hefur verið í sambandi við Hermann Guðmundsson, útgerðarmann og stjórnarmann í Verði. Framkvæmdastjóri Bátaábyrgðatryggingar Breiðafjarðar hefur verið upplýstur um málið og einstakir stjórnarmenn.

Þá er þess að geta að Einar Oddur Kristjánsson er stjórnarformaður Vélbátaábyrgðarfélags Ísfirðinga. Samband hefur verið haft við ýmsa af þeim aðilum sem tryggja beint hjá Samábyrgð Íslands á fiskiskipum og hefur Bragi Bjarnason útgerðarmaður í Höfn á Hornafirði sem er með þrjú skip í tryggingu hjá Samábyrgðinni þegar lýst yfir áhuga á að gerast hluthafi í hinu nýja félagi. Starfsfólk Samábyrgðarinnar og stjórn hafa fylgst með framgangi málsins.``

Svona gæti ég haldið áfram. Ef sú yfirlýsing á ekki við rök að styðjast, sem hér kemur frá þeim ágætu mönnum sem sitja í þeirri nefnd sem margoft hefur verið til umfjöllunar og ítrekað óskað eftir því að haft verði samráð við alla aðila og til þess að undirstrika það allrækilega, þá krafðist ég þess að fá yfirlýsingu frá þeim um það hvernig áð málinu hefði verið staðið. Hvað á að gera betur í að tryggja að baklandið sé tryggt? Þess vegna kemur mér mjög á óvart þegar hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson stendur upp og segir að ekkert hafi verið rætt um málið. Menn verða að gera greinarmun á því hvort málið hafi verið rætt eða hvort samkomulag sé um málið eða ekki. Mér sýnist að það sem skilur á milli í þeim efnum sé það að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson er ekki ánægður með það verð sem tilboðsgjafarnir voru tilbúnir til að borga fyrir fyrirtækið. Þar er mikill munur á eða hvernig undirbúningi málsins líður og hvað snýr að því í þessum efnum.

Þess vegna segi ég: Við getum deilt um verðið. Það er allt í ágætis lagi og ég tel að við höfum náð ásættanlegri niðurstöðu hvað verðið snertir á grundvelli þess mats sem búið var að fara fram á því hvers virði fyrirtækið væri þannig að uppákoman hér er mér alveg óskiljanleg. Í ljósi þess að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur verið í nefndinni sem undirbjó málið, sem við héldum um mitt síðasta sumar að næði ekki niðurstöðu vegna þess að það væri svo mikill ágreiningur og við höfum síðan verið í óformlegum viðræðum við þá aðila sem sendu síðan inn tilboðið, þá Svein Hjört og hinn nefndarmanninn sem var með honum í þessu starfi, og við trúðum því og treystum eftir margítrekaðar óskir okkar og spurningar um það hvort ekki séu allir með. Til þess að ganga algerlega úr skugga um það voru þeir kallaðir til fundar í ráðuneytinu og látnir senda okkur inn skriflegar skýrslur um það hver staða málsins væri. Ég trúi því ekki að menn sem eru fengnir til starfa með þessum hætti sendi frá sér slíkt og það sé tilbúningur, það segir mér það ekki nokkur maður.