Samábyrgð Íslands á fiskiskipum

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 19:18:38 (5059)

1998-03-23 19:18:38# 122. lþ. 92.20 fundur 557. mál: #A Samábyrgð Íslands á fiskiskipum# frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[19:18]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson fullyrðir að tilboðsgjafarnir hafi ekki haft umboð til þess að gera þetta tilboð. Ég ætla ekkert að fullyrða í þeim efnum en segi ekki annað eftir ítrekaðar viðræður ráðuneytisins við þessa ágætu menn að ráðuneytið stóð í þeirri trú að þeir hefðu fullt umboð. Þetta verður hv. þm. að eiga við þá sem rita undir tilboðið. En það er auðvitað grafalvarlegt ef þeir hafa verið umboðslausir. Það er mjög alvarlegt vegna þess að tilboðið hljóðar svona:

,,Við undirritaðir, Sveinn Hjörtur Hjartarson og Hjálmar Styrkársson f.h. bátaábyrgðarfélaganna og viðskiptaaðila við Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, svo og starfsmenn sem standa að tilboði þessu, kallaðir tilboðsgjafar í tilboði þessu, gera iðnaðar- og viðskiptarháðherra eftirfarandi kauptilboð`` og það er prentað í þingskjalið.

Síðan undirrita þeir þetta, Reykjavík, 5. febrúar 1998, fyrir hönd tilboðsgjafa án nokkurs fyrirvara. Ég hefði haft fullan skilning á því að ef það væri fyrirvari í kauptilboðinu en það er ekki aldeilis. Þeir undirrita þetta algerlega fyrirvaralaust þannig að hverju á ég að trúa öðru en því að þessir menn hafi fullt umboð?