Umferðarlög

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 14:20:50 (5067)

1998-03-24 14:20:50# 122. lþ. 93.13 fundur 443. mál: #A umferðarlög# (öndunarsýni) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[14:20]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hér er á ferðinni gott og þarft mál sem ég styð. Ég hef þó skrifað undir nefndarálitið með fyrirvara og áskilið mér rétt til að flytja og fylgja brtt. sem fram kunna að koma. Fyrirvari minn er til kominn vegna þess að ákvæði er ekki í frv. sem raunverulega ætti að vera þar. Frv. lýtur að tveimur meginbreytingum, þ.e. gjaldtökuheimild vegna töku og rannsóknar öndunarsýna til könnunar á ölvunarástandi ökumanns og hin snýr að rannsókn vegna ölvunaraksturs. Með þessum breytingum ásamt brtt. sem ég flyt ásamt hv. þingmönnum Margréti Frímannsdóttur, Kristínu Halldórsdóttur, Ástu R. Jóhannesdóttur og Lúðvíki Bergvinssyni, tel ég að stigin séu mikilvæg skref til að sporna gegn ölvunarakstri. Brtt. okkar fimmmenninga felur í sér að lækka leyfilegt vínandamagn í blóði ökumanns úr 0,5 prómillum í 0,0 með öryggismörk að 0,2 prómillum.

Ég tel að þessi tillaga sé í fullu samræmi við aðalmarkmið umferðaröryggisáætlunar fram til ársins 2001 og verði tillagan samþykkt mun hún örugglega eins og í Svíþjóð eiga stóran þátt í því að draga úr ölvunarakstri. En í umferðaröryggisáætlun sem var samþykkt í febrúar 1996 segir, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að á næstu sex árum, eða fyrir lok ársins 2000, skuli stefnt að fækkun alvarlegra umferðarslysa um 20% miðað við meðaltal áranna 1982--92.``

Þar kemur einnig fram að á árinu 1998 verði meginviðfangsefnin eftirfarandi: Bílbelti og öryggisbúnaður fyrir börn í bílum, ölvunarakstur, ökuhraði og ungir ökumenn.

Í skýrslu dómsmrh. um stöðu umferðaröryggismála sem nýlega var lögð fyrir þingið kemur fram að athygli veki að slysum vegna ölvunaraksturs hefur fjölgað hér á landi meðan veruleg fækkun hefur orðið annars staðar á Norðurlöndum. Þetta er áhyggjuefni, segir í skýrslunni. Í könnun sem Gallup gerði fyrir Sjóvá-Almennar tryggingar hf. og Vátryggingafélag Íslands hf. kemur fram að 35% fólks segjast hafa verið farþegar með ökumanni sem hafði neytt áfengis. Hlutfallstalan er mismunandi eftir aldursflokkum, hæst meðal þeirra sem eru á aldrinum 17--34 ára. Ég tel ekki ástæðu til að fara nánar ofan í þessa umferðaröryggisáætlun eða skýrsluna, en tel að það sem ég hef vitnað til sé í fullu samræmi við þær brtt. sem hér eru lagðar fram og mælt fyrir.

Herra forseti. Allir eru sammála um að ölvunarakstur er alvarlegasti þátturinn í okkar umferðaröryggismálum. Krafan hefur verið hávær undanfarnar vikur um aðgerðir gegn ölvunarakstri og hefur t.d. Læknafélagið krafist aðgerða og bent á þá leið að lækka leyfilegt áfengismagn í blóði ökumanna. Læknafélagið hefur m.a. bent á að Svíar hafi lækkað leyfilegt áfengismagn í blóði ökumanna fyrir nokkrum árum og slysum þar sem ölvun er talin helsti orsakavaldurinn hafi fækkað verulega í kjölfarið, eða um 30%. Einnig hefur verið bent á að árið 1995 hafi 58 ölvaðir ökumenn átt aðild að umferðarslysum hér á landi. Einnig er bent á að á tímabilinu 1986--1995 létu 32 lífið hérlendis vegna umferðarslysa sem ölvaðir ökumenn áttu aðild að, en það samsvarar 14% allra banaslysa á tímabilinu. Skemmst er einnig að minnast að fyrir um hálfum mánuði síðan voru 30 ökumenn á einni helgi teknir ölvaðir við akstur.

Að meðaltali slasast um 60 til 90 manns í umferðinni vegna ölvunar. Allt að fimmta hvert banaslys má rekja til ölvunar og árlega eru 2.000 til 2.500 manns teknir vegna gruns um ölvun. Athyglisvert er einnig að í könnun sem gerð var í lok nóvember 1997 kemur fram að þeir sem oftast hafa ekið undir áhrifum áfengis eru ökumenn á aldrinum 25--34 ára. Þegar aldurshópurinn 17--20 ára er spurður í þessari könnun sem Sjóvá-Almennar og VÍS létu gera kemur fram að tæplega 52% ökumanna á aldrinum 17--20 ára hafa ekið undir áhrifum áfengis eftir að þeir tóku próf.

Í norskri rannsókn sem gerð hefur verið kemur fram sláandi niðurstaða. Gerð var rannsókn hjá tilteknu norsku knattspyrnufélagi. Knattspyrnumenn voru látnir gera þrjár mismunandi æfingar, fyrst alsgáðir og síðan með 0,3 til 0,4 prómill vínanda í blóði og loks með 0,7 til 0,8 prómill í blóði. En þar kemur fram eftirfarandi: Við 0,3 til 0,4 prómill jukust mistök um 25% og við 0,7 til 0,8 prómill jukust mistök um 47,5%. Fram kom einnig í norskri rannsókn að vínandamagn innan við 0,5 prómill, sem er leyfilegt í umferðinni í dag, dregur verulega úr hæfni ökumanna við akstur. Þannig er fullyrt í þessari norsku könnun að slíkt vínandamagn í blóði lengi viðbragð um 35%, minnki sjón í myrkri um 30%, auki möguleika á mistökum um 25%, nákvæmni í akstri minnki um 20%, möguleikar á að meta aðstæður rétt minnki um 20% og tekin er meiri áhætta við akstur. Þetta er niðurstaðan varðandi vínandamagn í blóði innan við 0,5 prómill sem er leyfilegt hér á landi í umferðinni í dag. Þannig sýna rannsóknir svo ekki verður um villst að strax við 0,2 prómill hafi vínandi áhrif á hæfni ökumanns til að aka og fullyrt er að við 0,2 prómill skerðist dómgreindin um 25%.

Í þeirri tillögu sem ég hér mæli fyrir eru sett ákveðin öryggismörk sem verða að vera til staðar, eða frá 0 til 0,2 prómill til að taka af allan vafa um hina minnstu neyslu vínanda í gegnum fæðu, sælgæti, meðul eða neyslu pilsners og léttöls. Þannig er sett ákveðið svigrúm eða öryggismörk sem rúma slíka neyslu. Óeðlilegt verður líka að teljast að setja inn refsingu fyrir neðan 0,2 prómill þar sem ekki hefur verið sannað að slíkt magn vínanda hafi afgerandi áhrif á aksturshæfni ökumanna. Ástæða er einnig til að fara yfir þetta því ýmsir fullyrða að með þeirri tillögu sem hér er mælt fyrir sé ekki einu sinni leyfilegt að drekka pilsner. Það er auðvitað alrangt. Rannsóknir voru gerðar í Svíþjóð á hvaða áfengismagn mældist í blóði eftir neyslu pilsners og léttöls, sterks bjórs og léttvíns. Mæling á áfengismagni í blóði fer að miklu leyti eftir stærð og líkamsbyggingu, hvort áfengis er neytt á fastandi maga eða með mat.

Helstu niðurstöður voru þessar: Ef pilsners er neytt með hádegisverði nær líkaminn að brjóta vínandann jafnóðum niður. Það sama á við um léttan bjór að 2,8% styrkleika. Þar mælist aðeins útslag hjá léttustu konum, konu sem var 50 kíló. Hún var með 0,07 prómill, þ.e. innan við 0,1 prómill, en stuttu seinna var hún komin niður í 0,0. Þegar sterks bjórs var neytt með hádegisverði mældist enginn af þátttakendum með yfir 0,2 prómill vínanda í blóði. Þegar eins glass af léttvíni var neytt með hádegisverði mældust allir undir 0,2 prómill strax að lokinni máltíð, nema léttasta konan. Hún var með 0,22 prómill og það tók hana 90 mínútur að komast niður 0,0 prómill.

[14:30]

Herra forseti. Ég er að vitna í sænska rannsókn sem hefur verið gerð á þessu. Ef eitt glas af léttvíni, 18,75 sentilítrar eða sterkur bjór, 33 sentilítrar, er drukkið með mat á 30 til 45 mínútum nær líkaminn að brjóta vínandann niður að miklu leyti jafnóðum. Heilbrigður líkami brýtur niður 0,10--0,15 prómill af vínanda á klst. Þær vinnureglur sem viðhafðar eru við öndunarsýni hérlendis eru þær að ef vínandi mælist hjá ökumanni skal hann bíða í 15 mínútur og blása aftur til að vínandi í munni trufli ekki mælingu.

Herra forseti. Ég held af því sem ég hef lesið, sem eru mjög ítarlegar niðurstöður af rannsóknum á fjórum síðum og ég hef farið hér yfir meginniðurstöðuna, hafi ég sýnt fram á að það sé rangt sem haldið er fram að ef þessi tillaga verði samþykkt þá sé ekki einu sinni heimilt að drekka pilsner eða að neyta matar þar sem áfengi er í mat eða lyfja eða sælgætis þar sem áfengi er í sælgætinu, og hefur verið sýnt fram á það í sænskri rannsókn, en þeir hafa á umliðnum árum verið með leyfilegt vínandamagn í blóði 0,2 prómill sem gaf mikinn árangur.

Herra forseti. Ég vil líka fara yfir rannsóknir sem hafa verið gerðar í Noregi og Danmörku og líka í Svíþjóð og ekki síst af því tilefni sem fram kom í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi og haft eftir formanni Umferðarráðs að þar sem hann talar um meiri fækkun á ölvunarakstri og banaslysum í Noregi en í Svíþjóð en í Noregi er leyft meira vínandamagn í blóði en í Svíþjóð. Í Noregi er það 0,5 prómill en í Svíþjóð 0,2 prómill. Danir hafa haft mjög háa tíðni ölvunarakstursslysa. Þeir tóku ákvörðun um hert eftirlit lögreglu og fékk lögreglan betri og fullkomnari tækjabúnað til að mæla ölvun ökumanna. Þeir gerðu átak í bættum samgöngum og má nefna næturvagna, bæði strætisvagna og lestir. Áróður var aukinn verulega, bæði á landsvísu og staðbundinn. Áróðursherferð var sett af stað og var stór þáttur tileinkaður ungum ökumönnum. Nú 1. mars 1998 lækkuðu þeir síðan mörkin úr 0,8 prómill í 0,5. Árangurinn hefur verið nokkuð góður að þeirra mati og lækkun ölvunarslysa orðið þó nokkur.

Samkvæmt norskri handbók er vitnað í rannsóknir frá 1989 og 1990 þar sem sýnt er fram á að 18--24 ára ökumenn með meira en 0,5 prómill í blóði séu í 900 sinnum meiri hættu á að deyja í umferðinni en ef þeir væru allsgáðir. Mér finnst þetta nokkuð sláandi niðurstaða. Rannsóknir sýna að við 0,2 prómill er aukin hætta og hún stigvex með auknu áfengismagni.

Í Noregi hafa slysin verið eftirfarandi: Banaslys 1993 281, 1994 283, 1995 305, 1996 255 og 1997 305 þannig að banaslysum hefur ekki fækkað þar eins og þessar tölur sýna.

Hlutfall ölvunaraksturs hefur ekkert breyst að því er Noreg varðar. Þannig hefur um þriðjungur banaslysa verið rakinn til ölvunar eða tæp 90 árið 1996 og rúmlega 100 árið 1997 og fjöldi slysa á vélknúnum ökutækjum hefur verið á bilinu 3,5--3,7 á árunum 1987--1996 og var hann 3,6 árið 1996 og 3,5 árið 1994--1995. Norðmenn líta á ölvunarslys sem alvarlegasta einstaka þáttinn í umferðinni. Í nýrri umhverfisöryggisáætlun sem norska samgrn. hefur gert fyrir árið 1998--2007 og norska Stórþingið hefur samþykkt er gert ráð fyrir lækkun prómillmarka niður í 0,2 prómill í Noregi líkt og er í Svíþjóð. Reyndar er það svo í Svíþjóð, sem hefur í nokkur ár haft 0,2 prómill leyfilegt vínandamagn í blóði, að þeir eru núna að undirbúa að fara með prómillmarkið niður í 0 prómill eins og lagt er til í tillögunni.

Undirbúningur að lagabreytingunni í norska Stórþinginu í þessu efni er í gangi og gert er ráð fyrir að Stórþingið taki afstöðu til þeirra mála á þessu ári.

Samkvæmt danska umferðarráðinu hefur slysum almennt farið fækkandi í Danmörku frá því að vera rúm 11 þúsund 1983 niður í um 8 þúsund 1996. Slysum fækkaði um 3% milli áranna 1995 og 1996, hins vegar fækkaði ölvunarslysum ekki nema um 1% meðan slysum almennt fækkaði um 3%, eða úr 1.672 árið 1995 niður í 1.653 árið 1996. Þessi ár, 1995--1996, fjölgaði banaslysum vegna ölvunar úr 123 í 130.

Prómillmörkin hafa verið lækkuð í Svíþjóð eins og ég greindi áður frá og það hefur komið fram í umfjöllun nefndarinnar um þetta mál að Svíþjóð væri eina landið í heiminum sem væri með 0,2 prómill en það er ekki rétt. Þetta er einnig í Vestur-Ástralíu og Viktoríufylki. En ekki er ljóst hvort Ástralir hafi lækkað þau fyrir alla aldurshópa eða bara fyrir unga ökumenn.

Herra forseti. Það er alveg ljóst að í dag er leyfð meiri neysla áfengis við akstur en eðlilegt má teljast ef marka má rannsóknir þessa efnis sem ég hef hér vitnað í. Fólk gerir sér almennt grein fyrir því en það þarf sjálft að meta það og spyrja sjálft sig: Er ég kominn yfir leyfileg mörk eða ekki? þegar fólk hefur áfengi um hönd og ætlar síðan aka bifreið. Það er vandamálið, herra forseti, að leggja það í mat einstaklingsins því að hann er oft ófær um að meta það sjálfur. Þar sem áfengismagn er mælt sem hlutfall af blóði líkamans fást afar mismunandi svör við því og mjög erfitt að segja til um það. Einstaklingur sem vegur kannski 55--60 kíló er kominn yfir mörkin eftir einn sterkan 0,5 lítra bjór meðan einstaklingur sem vegur kannski 100 kíló getur drukkið tvo bjóra án þess að fara yfir mörkin. Síðan fer það eftir því hvort bjórinn er drukkinn með mat o.s.frv. Eftir að einstaklingar hafa drukkið einn eða tvo bjóra eða eitt eða tvö léttvínsglös getur verið stutt í að ýmsir telji í lagi að drekka þriðja bjórinn eða þriðja léttvínsglasið og þurfa þeir síðan að meta það sjálfir hvort það sé í lagi að setjast undir stýri. Þeir þurfa sem sagt sjálfir að meta það hvort einn bjór, tveir bjórar eða eitt eða tvö léttvínsglös séu í lagi og þeir séu innan 0,5 prómillmarkanna sem leyfileg eru. Þetta er einmitt kjarni málsins, herra forseti, þau skilaboð sem við sendum út í þjóðfélagið með þessu. Það er í lagi að smakka áfengi, bara ekki of mikið, og eftir að hafa innbyrt það þurfa þessir einstaklingar, sem eru með slævða dómgreind eftir einhverja áfengisneyslu að meta sjálfir hvort þeir séu færir um að aka. Skilaboðin sem við eigum að gefa út í þjóðfélagið eiga að vera afdráttarlaus: Eftir einn aki ei neinn.

Með því segjum við skýrt að akstur og áfengi fari ekki saman. Vínmagn í blóði sem heimilað er nú, eða 0,5 prómill, sendir aftur á móti þau skilaboð út í þjóðfélagið að það sé allt í lagi að smakka áfengi og aka, bara að drekka ekki of mikið. Það eru raunverulega skilaboðin sem við gefum út í þjóðfélagið og það er raunverulega megintilgangurinn með flutningi okkar fimmmenninganna á tillögunni að gefa önnur skilaboð en við gerum í dag, nefnilega að segja skýrt að áfengi og akstur fer ekki saman þannig að enginn velkist í vafa um það. Það liggur hætta í því með 0,5 prómill, að senda þessi skilaboð út í þjóðfélagið að það sé í lagi að smakka áfengi og aka, bara að drekka ekki of mikið. Þess vegna viljum við, sem flytjum þessa breytingu, gefa skýr skilaboð: Áfengisneysla og akstur fer ekki saman. Slíkar auglýsingar nú um að akstur og áfengi fari ekki saman hafa takmarkað gildi, herra forseti, meðan áfengi og akstur getur farið saman svo fremi að áfengið fari ekki yfir ákveðin mörk.

Full ástæða er til að nefna í þessu sambandi þegar við erum að tala um verulegar breytingar að því er þetta varðar með það markmið sem ég er alveg sannfærð um að náist að við munum ná því að fækka verulega ölvunarakstri, að mikil andstaða var á sínum tíma innan þings og utan um bílbelti. Menn töldu að verið væri að skerða frelsi einstaklinganna. Sömu rök heyrir maður nú að verið sé að skerða frelsi einstaklinganna til þess að drekka einn eða tvo bjóra áður en þeir fara að keyra og meta það síðan sjálfir hvort þeir séu hæfir til þess að keyra. En ég spái því að ef tillagan verður samþykkt muni ekki líða margir mánuðir eða ár þangað til við munum ekki heyra þau rök að verið sé að takmarka frelsi einhverra til þess að fá sér einn eða tvo bjóra ef þeir ætla síðan að keyra á eftir. Vegna þess að við spyrjum auðvitað: Frelsi á kostnað hverra? Það er það sem við verðum að hafa í huga.

Nú síðan heyri ég þau rök líka að með þessari tillögu séum við að gera einhverjar miklar breytingar varðandi hestamenn, að þeir megi nú ekkert fá sér þegar þeir fara á hestbak, hvorki bjór eða annað. Auðvitað er þetta rangt og þeir sem halda slíku fram hafa ekki kynnt sér efni þessarar brtt. eða efni núgildandi laga. Ákvæði í núgildandi lögum um hestamenn hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Enginn má hjóla eða reyna að hjóla eða stjórna eða reyna að stjórna hesti, ef hann er undir svo miklum áhrifum áfengis eða annarra örvandi eða deyfandi efna, að hann geti eigi stjórnað hjólinu eða hestinum örugglega.``

Þetta er auðvitað sjálfsagt ákvæði, ef hann er undir svo miklum áhrifum áfengis eða annarra örvandi eða deyfandi efna að hann geti ekki stjórnað hjólinu eða hestinum örugglega. En vínandamagn í blóði, sem er núna 0,5 prómill, á bara alls ekkert við um hestamennina. Það er sett í þeirra eigið sjálfdæmi að meta það að þeir séu ekki undir svo miklum áhrifum áfengis að þeir geti stjórnað hestinum örugglega. Það er ekki verið að breyta því varðandi hestamennina þó við förum með vínandamagnið í blóði úr 0,5 niður í 0,2 prómill. En kannski væri einhver ástæða til þess að skoða það --- ef hann er undir svo miklum áhrifum áfengis að hann geti ekki stjórnað hestinum örugglega. Það er auðvitað sjálfsagt að þeir séu ekki undir svo miklum áhrifum áfengis að þeir geti ekki stjórnað hestinum örugglega. En þetta sýnir auðvitað að þeir sem halda því fram að verið sé að breyta einhverju í sambandi við það hafa ekki kynnt sér málið.

Herra forseti. Ég tel að tillagan, sú leið sem hér er lögð til, sé einn stærsti þátturinn í að efla forvarnir og tryggja eins og kostur er að ekki sé farið undir stýri eftir neyslu áfengis enda er þessi tillaga í samræmi við áætlun um umferðaröryggi eins og ég hef sýnt fram á. Fræðsla og forvarnir, eins og tillagan felur í sér, eru sterkasta vörnin gegn ölvunaraksti. Ég geri lítið með rökin um að aðrar þjóðir hafi ekki gengið svona langt enda gætum við orðið öðrum þjóðum til fyrirmyndar í þessu efni ef við fyrst þjóða tækjum þetta skref, að fara með leyfilegt vínandamagn í blóði úr 0,5 niður í 0 með öryggismörk upp að 0,2. Ég held að það væri til fyrirmyndar fyrir þjóðina sem hefur sett sér mjög metnaðarfulla áætlun í umferðaröryggismálum, m.a. að fækka verulega ölvunarakstri. (MF: Og vímuefnalaust Ísland.) Já, vímuefnalaust Ísland, ég tala nú ekki um það.

Ég held að við séum að fjalla um eina áhrifaríkustu forvörnina til þess að sporna gegn ölvunarakstri ásamt því sem frv. felur í sér. Síðan þurfum við að tryggja aukið eftirlit og við þurfum einnig að skoða að herða refsingar.

[14:45]

Ég vil líka nefna, ef menn telja að ekki sé skynsamlegt að Ísland ríði á vaðið fyrst allra þjóða heims og fari með áfengismagn í blóði niður í 0,0 prómill, að Svíar sem hafa haft mjög góða reynslu af því að færa vínandamagn í blóði úr 0,5 niður í 0,2 prómill, sem m.a. leiddi til þess að ölvunarakstur minnkaði um þriðjung, eru nú með hugmyndir uppi um að fara sömu leið og þessi tillaga gerir ráð fyrir, eða í 0,0 prómill með öryggismörk að 0,2 prómillum. Það er einnig athyglisvert að nú er komin tillaga frá bresku ríkisstjórninni --- í Bretlandi hefur 0,8 prómill af vínanda verið leyfður í blóði --- um að færa þessi 0,8 prómill niður í 0,5 prómill og í 0,2 prómill fyrir unglinga. Þar er stökkið fyrir unglinga úr 0,8 prómillum niður í 0,2 prómill. Af hverju fara þeir ekki úr 0,8 prómillum niður í 0,2 prómill fyrir fullorðna í stað einungis 0,5? Þessum upplýsingum fylgir að þeir treysti sér ekki með vínandamagnið hjá fullorðnum niður fyrir 0,5 prómill. Líta má til þess að vínmenning er allt önnur í Bretlandi en hér, oft og iðulega er drukkinn bjór með mat í hádegi eða að degi til og þeir telja þetta of mikið stökk í einu. Þeir hafa verið í 0,8 prómillum og eru þarna að færa sig niður og alveg niður í 0,2 prómill fyrir unglinga.

Herra forseti. Það er gott og blessað að dómsmrh. hefur skipað nefnd til að skoða þessi mál, þ.e. um lækkun vínandamagns í blóði ökumanna, en mér skilst að nefndin hafi einnig það verkefni að athuga hvernig auka megi eftirlit og hugsanlega refsingar vegna ölvunaraksturs. En ég sé enga ástæðu til þess varðandi þennan þátt að Alþingi bíði með að taka afstöðu til þess hvort lækka eigi vínandamagn í blóði því reynslan talar þar skýrustu máli. Ég tel mig hafa fært alveg skýr rök fyrir því. Ég hef vitnað í rannsóknir, innlendar og erlendar, máli mínu til stuðnings og það er engin ástæða til að Alþingi bíði eftir að fá einhverja blessun eða grænt ljós frá framkvæmdarvaldinu í þessu efni. Það er kannski hægt að draga verulega úr ölvunarakstri og slysum ef við samþykkjum þetta nú fremur en að bíða eftir því að framkvæmdarvaldinu þóknist að koma með málið inn í þingið eða leggja blessun sína yfir það. Alþingi á að geta haft sjálfstæða skoðun á málum án leiðbeininga frá framkvæmdarvaldinu og það er afar hvimleitt, svo ekki sé meira sagt, að Alþingi sé boðið upp á það oft í hverju málinu á fætur öðru, að geta ekki tekið afstöðu í málum nema málin hafi fyrst verið skoðuð og blessuð af framkvæmdarvaldinu. Þetta er auðvitað enn eitt sem við stöndum frammi fyrir, herra forseti, varðandi virðingu þingsins, að ekkert megi samþykkja á hv. Alþingi nema embættismenn og framkvæmdarvaldið hafi blessað það og sagt að þetta sé í lagi. Herra forseti. Alþingi má orðið ekki hafa neina sjálfstæða hugsun eða skoðun í neinu máli. Ég held að svo miklar rannsóknir og samanburður í þessum málum liggi fyrir, ekki síst í Svíþjóð þar sem þeir hafa lækkað leyfilegt vínandamagn í blóði, að við höfum nægjanlegar forsendur til að taka ákvörðun nú en þurfum ekki að bíða eftir einhverju nefndarstarfi á vegum framkvæmdarvaldsins.

Við flm. þessarar tillögu gerum líka ráð fyrir góðum tíma til að kynna þessa breytingu og hún á ekki að koma til framkvæmda fyrr en 1. október næstkomandi. Við ætlumst til að sá tími verði notaður til öflugs fræðslu- og forvarnastarfs til að kynna þessa breytingu þannig að þegar hún tekur gildi séu allir meðvitaðir um að skilaboð löggjafans eru skýr: Áfengi og akstur fer ekki saman og við ítrekum það með því að færa vínandamagn í blóði úr 0,5 prómillum niður í 0,0 prómill. Það er ekki einstaklingsins að meta hvort hann sé fær um að aka eftir að hafa neytt áfengis, heldur á hann ekki að aka eftir að hafa neytt áfengis. Rökin um frelsi einstaklingsins til að meta sjálfur hvort hann sé innan leyfilegra marka við neyslu áfengis eru ekki haldbær, herra forseti, því þá spyr ég um leið: Frelsi á kostnað hverra? Það er auðvitað kjarnaatriðið í þessu máli.

Að lokum, herra forseti, er það skoðun okkar flutningsmanna þessarar tillögu að með því að samþykkja þessa brtt. við þetta ágæta frv. séum við að stíga mjög stórt skref til þess að draga verulega úr ölvunarakstri á Íslandi. Því hvet ég eindregið til þess, herra forseti, að brtt. okkar fimmmenninganna verði samþykkt.