Umferðarlög

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 15:02:24 (5072)

1998-03-24 15:02:24# 122. lþ. 93.13 fundur 443. mál: #A umferðarlög# (öndunarsýni) frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[15:02]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það kom skýrt fram í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur áðan að þær upplýsingar sem komið hafa fram um breytingar á slysum í Noregi eru ekki réttar. Að minnsta kosti komu aðrar upplýsingar fram í máli hv. þm. en þær sem hv. þm. Hjálmar Jónsson minntist á.

Hv. þm. talar um að það breyti engu þó við bíðum í nokkra mánuði með að taka afstöðu til þess hvort við eigum að breyta leyfilegu prósentumagni af áfengi í blóðinu við akstur. Ég sé enga ástæðu til þess að bíða, enda verður tekin afstaða til málsins þegar greidd verða atkvæði í þinginu um brtt. sem hér er verið að ræða um. Þá þurfa þingmenn að taka afstöðu til þessa máls hvort við eigum að lækka prósentuna. Ég kalla það undanslátt þegar menn eru að leyfa 0,5 prómill áfengismagn í blóðinu þegar í lögum stendur að eigi sé heimilt að aka undir áhrifum áfengis. Það er auðvitað verið að leggja það undir dómgreind hvers og eins hvenær hann er hæfur til að aka og jafnvel þarf hann að fara að meta það þegar hann er búinn að missa dómgreindina vegna áfengisneyslu. Það er auðvitað afleitt og kom reyndar fram í máli hv. þm. Hjálmars Jónssonar áðan. Eins og komið hefur fram erum við sammála, en við erum ekki sammála um að það eigi að bíða með þetta fram á haust, enda verðum við að taka afstöðu til málsins strax í vor.