Umferðarlög

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 15:04:17 (5073)

1998-03-24 15:04:17# 122. lþ. 93.13 fundur 443. mál: #A umferðarlög# (öndunarsýni) frv., HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[15:04]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Það er greinilega eitthvað óljóst í málinu. Heimildum ber ekki saman eins og hv. þm. sem var í andsvari gat um. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur eina heimild, hv. þm. Sólveig Pétursdóttir hefur aðra um sama málið. Sagt er að upplýsingar séu ekki réttar frá Noregi sem við erum hér með. Er þá ekki augljóst að skoða þarf málið betur? Ég hefði talið það áður en við hlaupum til að samþykkja brtt. þar sem heimildir eru út og suður.

Það er líka annað, herra forseti, að venjan er að skoða mál í nefnd, leita umsagna um mál þegar þingnefnd er með þau í meðferð. Þessi brtt. um lækkað leyfilegt vínandamagn í blóði var ekki í frv. heldur kemur fram sem brtt. Því hefur ekki verið óskað eftir umsögn nokkurs aðila um þetta atriði. Þá væri mikilvægt í haust að geta sent það út til að fá einnig umræðu um það hvað umsagnaraðilum finnst sem fá yfirleitt mál um umferðina til umsagnar, og eftir stendur að við þroskum málið, leitum umsagna og fáum réttar heimildir og upplýsingar og tökum síðan ákvörðun með löggjöf.