Umferðarlög

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 15:16:27 (5076)

1998-03-24 15:16:27# 122. lþ. 93.13 fundur 443. mál: #A umferðarlög# (öndunarsýni) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[15:16]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. misminni það að allir gestir sem komu á fund allshn. hafi tjáð þá skoðun sína að það ætti að fresta þessu máli og skoða það betur. Ég spyr hvort hv. þm. geti haldið því fram að fulltrúi Sjóvár-Almennra, Einar Guðmundsson fræðslufulltrúi, hafi haldið því fram að það bæri að skoða þetta mál betur. Þeir lýstu því allir yfir að það bæri að lækka vínandamagn í blóði. Ég gat ekki heyrt að t.d. sá maður hefði nefnt að rétt væri að setja þetta mál í einhverja nefnd.

Að því er varðar það að þessi brtt. hafi ekki verið send til umsagnar, þá vil ég spyrja hv. þm. að því hvort hún sé tilbúin til þess að beita sér fyrir því við forseta að fresta afgreiðslu þessa frv. og þá atkvæðagreiðslu um frv. og brtt., til að hægt verði að taka málið á nýjan leik inn í nefndina og skoðað það þar, senda það til umsagnar og að hálfur mánuður verði gefinn til umsagnar um brtt. og síðan verði málið afgreitt fyrir þinglok? Ef hv. þm. ber þau rök fyrir sig að það þurfi að senda málið út í þjóðfélagið þá er ég alveg tilbúin til að skoða það ef hv. þm. er þá tilbúinn að beita sér fyrir frestun á málinu hér. Við tökum það þá hér út af dagskrá og þannig að það fari ekki í atkvæðagreiðslu og þá heldur ekki brtt. Tökum málið aftur inn í nefndina og sendum brtt. út til umsagnar og gefum viku eða hálfan mánuð. Það þarf varla lengri tíma. Við erum með stórt húsnæðisfrv. þar sem umsagnaraðilar hafa einungis hálfan mánuð til að fara yfir hundrað síðna bók þannig að það ætti ekki að vefjast fyrir þeim sem um þessa litlu brtt. fjalla að fara yfir hana á nokkrum dögum og senda nefndinni umsögn sína. Ég spyr hv. þm.: Er hún tilbúin til málamiðlunar að fallast á að við málsmeðferðin verði þessi? Mér finnst hv. þm. bjóða upp á það, herra forseti.