Umferðarlög

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 15:31:38 (5084)

1998-03-24 15:31:38# 122. lþ. 93.13 fundur 443. mál: #A umferðarlög# (öndunarsýni) frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[15:31]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég get eiginlega ekki orða bundist því að það hefur verið lengi umræða um þá brtt. sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir er 1. flm. að og ég er meðflm. að. Mér finnst brtt. vera mjög mikilvæg og mér finnst miður að hér hafa verið mjög fáir þingmenn viðstaddir. Ég geri mér mætavel grein fyrir því að miklir atburðir liggja í loftinu og þingmenn eru sjálfsagt bundnir á fundum og við umræðu um þá atburði hér og þar en þetta er mál sem mér finnst að hv. þingmenn eigi að geta tekið afstöðu til. Þetta er mjög einföld tillaga sem ég skil raunar ekki að þurfi að fara aftur í nefndina. Þetta er svo einfalt mál. Mér finnst þetta ekki þurfa neina geysilega umfjöllun í þjóðfélaginu vegna þess að það er bara spurning um að fólk viðurkenni það og taki á því að áfengi og akstur fara ekki saman. Það á ekki að gera einstaklingunum það að þurfa að meta það hver fyrir sig hvort þeir megi drekka einn bjór eða tvo, eitt glas af rauðvíni eða tvö eða hvað það nú er, bara að drekka ekki áfengi ef þeir ætla að aka eða öllu heldur að aka ekki ef þeir hafa drukkið áfengi, í hvaða röð sem við viljum taka það.

Ég skil ekki hvað er verið að verja í málinu. Hvaða hagsmuni er verið að verja? Hv. þingmenn Sjálfstfl. Sólveig Pétursdóttir og Hjálmar Jónsson hafa varið þá niðurstöðu allshn. að þessu beri að vísa í einhverja sérstaka nefnd og stuðning við það mál sem hæstv. dómsmrh. hefur gefið út um þetta að það þurfi að ræða þetta í sérstakri nefnd embættismanna eða sérstakra sérfræðinga. Út af fyrir sig er allt í lagi að ræða málin fram og aftur en flóknari mál en þetta hafa verið sett á borð þingmanna og þeim ætlað að taka afstöðu til þeirra án þess að embættismenn þvæli með það fram og aftur. Ég skil ekki rökin fyrir því að halda þessum mörkum. Hver eru rökin? Þau hafa ekki komið fram. Hverra hagsmuni er verið að verja? Það eru miklir hagsmunir, þetta snertir hagsmuni margra, sagði hv. þm. Sólveig Pétursdóttir áðan. Hverra hagsmuni snertir þetta? Ég hafði haldið að það væru hagsmunir almennings að reyna að fækka umferðarslysum. Það eru komnar fram tölur um slys sem hafa orðið einmitt vegna þess að fólk hefur ekið drukkið. Hvað er þá einfaldara en að segja þessu fólki: Þegar áfengi hefur verið drukkið er bíllinn ekki snertur, hvorki bíll, bifhjól né þess vegna reiðhjól eða hvað sem er, þess vegna hesturinn, hv. þm. Hjálmar Jónsson. Ég er innilega sammála því að fólk á ekki að fara drukkið á hestbak. Það er engin spurning að þetta fer ekki saman og þess vegna er langeinfaldast að setja mörkin við núllið.

Þá er þetta með rökin. Mér heyrist að hv. þingmenn ætli að koma í andsvar eða flytja ræður um þetta mál og þá er ágætt að fá að vita hvers vegna þau telja að það þurfi að skoða þetta svona mikið. Telja þau líklegt að slysum fjölgi við að færa mörkin niður? Eða telja þau allsendis óvíst að þeim muni fækka við að færa mörkin niður?

Það er ekki aðeins að verið sé að senda skýr skilaboð til almennings eins og við höldum fram með því að segja að ekki verði leyfilegt að drekka áfengi af einu eða neinu tagi og enga áhættu að taka heldur getum við líka spurt okkur að því: Mundi það ekki hafa í för með sér sparnað í tíma og fyrirhöfn ef það er einfaldlega bannað að innbyrða áfengi af nokkru tagi áður en menn aka? Það er þá væntanlega ekki þörf á miklum rannsóknum á blóðsýnum. Það er einfalt að blása í blöðru og sé ástandið ekki þeim mun alvarlegra eða um slys að ræða ætti ekki að þurfa að mæla blóðsýni eða annað af því tagi, þá er nóg að blása í blöðru.

Ég hef svo sem ekki meira um þetta að segja. Mér blöskrar hvernig umræðan hefur þróast og þau rök sem hafa komið fram ef rök skyldi kalla fyrir því að það þurfi að skoða þetta á svona geysilega vandaðan hátt eða á svona löngum tíma og í nefnd og fá umsagnir héðan og þaðan. Mér finnst satt að segja að brjóstvitið ætti að duga í þessu efni. Og ég spyr: Hvaða hagsmuni er verið að verja í þessu máli?