Umferðarlög

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 15:42:04 (5088)

1998-03-24 15:42:04# 122. lþ. 93.13 fundur 443. mál: #A umferðarlög# (öndunarsýni) frv., KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[15:42]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég get ómögulega komið aftur og aftur og farið að svara fyrir stjórnarandstöðuna og hvað þá stjórnarsinna í hv. allshn. Það er mér alveg ómögulegt að gera. En hv. þm. hélt áfram að ræða um að þetta væri til umræðu í ráðuneytinu og það væru margar stofnanir sem kæmu þar að verki, Umferðarráð o.s.frv. Ég efast ekkert um það en ég vil bara minna á að það hefur margsinnis komið fram að ölvunarakstur er stórhættulegur og ég efast reyndar ekkert um að þeim mun hærra sem mörkin fara í blóði viðkomandi yfir þau mörk sem eru nú á áfengismagni í blóði, þeim mun hættara er við því að það valdi slysum. En aðalatriðið er að einstaklingarnir séu ekki settir í þá stöðu að vera að velta því fyrir sér hvort þeir séu að nálgast þessi mörk eða ekki. Það er miklu einfaldara og alveg sjálfsagt, og það getur brjóstvitið sagt okkur, að ekki sé leyfilegt að neyta áfengis og aka svo.