Umferðarlög

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 16:01:37 (5102)

1998-03-24 16:01:37# 122. lþ. 93.13 fundur 443. mál: #A umferðarlög# (öndunarsýni) frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[16:01]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég sagði ekkert um það að minni hlutinn hefði ekki starfað af heilindum í nefndinni þegar nefndarfundir stæðu yfir heldur það að minni hlutinn hefur komið í veg fyrir að allshn. héldi aukafundi þannig að hægt væri að afgreiða mál úr þeirri nefnd sem er sennilega með langflest mál sem koma fyrir eina nefnd í þinginu. Það hefur verið sýnt á skjali sem er gefið út af þinginu reglulega. Ég þarf ekkert að telja það upp, en mig minnir að það hafi komið fram að sá málafjöldi sem allshn. þyrfti að afgreiða frá sér næði yfir tvær og hálfa blaðsíðu. Það var upplýst í nefndinni fyrir ekkert löngu síðan þegar verið var að reyna að skipuleggja aukafundi nefndarinnar.

Þá aftur á móti virðist minni hlutinn hafa tekið þessa sérstöku nefnd í gíslingu, eins og ég sagði áðan, til þess að reyna að fá fram frá ríkisstjórninni einhverjar línur í því hvaða mál ætti að afgreiða á þessu þingi. Ég held því að þau ummæli sem falla á minni hlutann fyrir að hafa tafið störf þessarar nefndar séu ekki ómakleg og séu í rauninni rétt. Ég þarf ekki að draga neitt af því til baka. Ég held einmitt að málið sem sérstaklega hefur verið til umræðu hér sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur fylgt eftir og allir hafa í rauninni viljað ræða, líði að sjálfsögðu fyrir það að tími nefndarinnar verður sífellt skemmri til að geta afgreitt það sem og önnur.

Ég hef ekki orðið var við neina sérstaka færibandavinnu í þessari nefnd. Þar hefur verið farið mjög ítarlega yfir öll mál. Þau hafa verið grandskoðuð og kallaður til fjöldi aðila þannig að ekki hefur verið um neina færibandavinnu að ræða heldur mjög nákvæma vinnu og, ég held, nefndinni allri til sóma. Ég get ekki sagt annað um minni hlutann en að sú vinna sem fer fram með minni hlutanum er til mikillar prýði og mikils sóma þannig að ég er ekkert að gera lítið úr þeirri vinnu, síður en svo.