Umferðarlög

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 16:07:56 (5105)

1998-03-24 16:07:56# 122. lþ. 93.13 fundur 443. mál: #A umferðarlög# (öndunarsýni) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[16:07]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Það var reyndar það eina rétta hjá hv. þm. að ég á ekki sæti í allshn. Hins vegar bar hv. þm. minni hluta allshn. það á brýn að hann væri að vinna óeðlilega í nefndinni til að knýja ríkisstjórnina til að leggja fram sinn málalista. Hann gaf í skyn og sagði að hér væri um að ræða óeðlileg vinnubrögð af hálfu nefndarmanna. Þeim ummælum er ég að mótmæla. Þau eru ósönn.

Hvað varðar aukafundi í nefndum þá eru þeir venjulega haldnir í samkomulagi annaðhvort innan nefndarinnar eða, sem er algengara, í samkomulagi við forseta þingsins og þingflokksformenn þegar dregur að lokum eðlilegs þingstarfs. Þetta eru vinnubrögð sem við þekkjum öll. Það er ekki venja að halda aukafundi, hvorki í allshn. eða annarri nefnd, nema við mjög sérstakar aðstæður og um það ríki samkomulag. Ég veit ekki til þess --- svo mikið þekki ég til vinnubragða í allshn. --- að neitt hafi hallað á vinnubrögð í þeirri nefnd, hvorki af hálfu minni hluta né meiri hluta. Ég hef ekki heyrt neitt um og mun ekki gagnrýna neitt t.d. vinnubrögð forustu allshn. Ég veit ekki betur en að þau séu öll eins og þau eigi að vera samkvæmt þingsköpum og um það snýst málið. Enginn í allshn. né í þinginu hefur misbeitt á nokkurn hátt stöðu sinni í þingnefnd eða annars staðar. Það er það sem hv. þm. er að gefa í skyn með ummælum sínum um störf minni hluta allshn. og því er ég að mótmæla.