Umferðarlög

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 16:15:03 (5109)

1998-03-24 16:15:03# 122. lþ. 93.13 fundur 443. mál: #A umferðarlög# (öndunarsýni) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[16:15]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hv. þm. tala þannig eins og við í minni hluta allshn. séum með eitthvert samsæri gagnvart meiri hlutanum. Ég veit ekki í hverju það felst, herra forseti. Ég kannast ekki við það. Þvert á móti höfum við unnið mjög kappsamlega að framgangi mála í nefndinni, kannski um of. Ég hef stundum haft það á orði í nefndinni að málin fari of hratt í gegn og fá ekki nægilega skoðun. Ég spyr hv. þm. um það hver réttur minni hlutans er raunverulega í nefndum þingsins. Hver er réttur minni hlutans? Það á ekki að vera hlutverk minni hlutans í nefndum að afgreiða mál bara á færibandi fyrir ríkisstjórn án skoðunar, jafnvel þó að meiri hlutinn og stjórnarliðar fallist á slík vinnubrögð. Þegar við erum að tala um að samið sé um forgangsröðun mála í þessari nefnd sem og öðrum hvaða mál eigi að afgreiða er það til þess að þau fái eðlilega og faglega umfjöllun í nefndinni. Við erum kannski að afgreiða mál sem gerir svo sem ekkert til þó að liggi fram á næsta haust núna þegar stutt lifir af þinginu. Við viljum því fá að vita hvaða mál það eru sem dómsmrh. og ríkisstjórn vill setja í algjöran forgang og sem þarf nauðsynlega að afgreiða á þinginu en það fáum við bara enga vitneskju um af hálfu meiri hlutans heldur standa þeir bara í ræðustól og tala um samsæri minni hlutans. Við erum einu sinni á löggjafarsamkundunni og hv. þm. verður að gera sér grein fyrir því að þó að stjórnarliðarnir séu í meiri hluta á minni hlutinn ákveðinn rétt bæði í þinginu og í þingnefndum.