Umferðarlög

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 16:32:45 (5119)

1998-03-24 16:32:45# 122. lþ. 93.13 fundur 443. mál: #A umferðarlög# (öndunarsýni) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[16:32]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er í sjálfu sér tilgangslaust að karpa um þetta mál áfram. Við í minni hlutanum höfum komið því skýrt á framfæri sem við teljum mjög ósanngjarna gagnrýni af hálfu meiri hlutans á störf minni hlutans í allshn. Við höfum mætt á ýmsa aukafundi sem haldnir hafa verið á þessu þingi sem boðað hefur verið til af hálfu meiri hlutans og ekkert skorast þar undan. En meiri hlutinn verður líka að átta sig á því að það stendur líka upp á hann í þinginu og stjórnarliða og ríkisstjórnina að koma sér saman um hvaða mál eigi að afgreiða í þinginu áður en því lýkur kannski á næstu vikum. Það er auðvitað í samræmi við eðlileg og skynsamleg vinnubrögð, ekki síst þegar formaður allshn. upplýsir að 34 mál séu óafgreidd í allshn. og ljóst að við komumst ekki yfir öll þessi mál á stuttum tíma, að minni hlutinn í allshn. fái vitneskju um hvaða stjórnarfrv. það eru sem hæstv. dómsmrh. og ríkisstjórnin leggja áherslu á.

Það er ekkert skrýtið þó að stjórnarandstaðan hafi verið að mótmæla aukafundum sem bæði hafa stangast á við störf í öðrum nefndum og ekki síst þegar hún fær ekki að vita hvernig lyktir á þessu þinghaldi eigi að vera og hvernig allshn. t.d. á að ganga til verka varðandi þau 34 mál sem enn eru óafgreidd og hvað við eigum að setja í forgang þar. Kannski erum við að afgreiða og fara yfir einhver mál og eyða dýrmætum fundartíma nefndarinnar í að fara yfir stjórnarfrv. sem ekki liggur nokkurn skapaðan hlut á að afgreiða. Ég tel því að sú gagnrýni sem hefur komið fram af hálfu meiri hlutans sé mjög ósanngjörn og ég vil leyfa mér að vona, þó að ég vilji ekkert fullyrða um það, að þessi gagnrýni sem hér hefur komið fram geti haft áhrif á störf allshn. það sem eftir lifir þingsins.