Framleiðsla og sala á búvörum

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 17:35:21 (5125)

1998-03-24 17:35:21# 122. lþ. 93.16 fundur 559. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (mjólkurframleiðsla) frv., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[17:35]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég þakka þeim tveimur ágætu hv. þingmönnum sem hafa tekið til máls í þessum umræðum fyrir framsetningu þeirra og athugasemdir. Það er sjálfsagt og eðlilegt að menn komi fram með athugasemdir sínar við 1. umr. þótt landbn. eigi auðvitað eftir að fjalla ítarlega um málið og skoða einstaka þætti frv. og þá auðvitað kannski ekki síður þann bakgrunn sem frv. hefur og ég veit að hv. þm. bæði þeim sem hér hafa talað og öllum öðrum er ljóst hvað á bak við frv. stendur. Það er löng samningagerð, fyrst í svokallaðri sjö manna nefnd, sem þó er rétt hjá hv. þm. Ágústi Einarssyni að er kannski ekki alveg réttnefni því að Alþýðusambandið dró sinn fulltrúa út úr nefndinni, en áfram áttu þó launþegar í gegnum BSRB aðild að þessari svokölluðu sjö manna nefnd. Þar höfðu menn fyrst unnið ítarlega vinnu sem tók langan tíma og fóru yfir málin, settu fram hugmyndir sínar og tillögur. Um það varð samstaða sem ég tel að hafi verið afar mikilvægt að ná. Í öðru lagi er síðan næsta skref, sá grunnur sem er á bak við frv., sjálf samningagerðin milli ríkisstjórnarinnar og Bændasamtakanna sem byggir auðvitað á fyrra nál. Hér hefur því farið fram mikil og vönduð undirbúningsvinna sem ég bið hv. nefndarmenn að hafa í huga þegar þeir hefja vinnu sína við málið að ítarlegt samningaferli hefur þegar átt sér stað.

Fyrst ég er að tala um það má síðan nefna þá atkvæðagreiðslu sem hv. þm. Hjálmar Jónsson nefndi í máli sínu sem fór fram meðal kúabænda um samninginn. Það er vissulega rétt hjá hv. þm. að það var ekki nema ofurlítill meiri hluti bænda með atkvæðisrétt sem tók þátt í atkvæðagreiðslunni. Kosningaþátttakan var 56,3% sem er þó auðvitað afgerandi meiri hluti og sá meiri hluti sem þarna greiddi atkvæði samþykkti síðan samninginn nánast 100%, nær 90% svo nákvæmlega sé farið með. Það virðist því vera allbærileg samstaða um málið. Auðvitað kann að vera að þar kunni að ríkja skiptar skoðanir um einstök atriði eins og hlýtur alltaf að vera í samningaferli eins og þessu þar sem svo mjög er fjallað um hagsmuni einstaklinga og afkomumöguleika og þá stefnu sem verið er að móta í atvinnugreininni. Það er því ekki óeðlilegt að það séu eitthvað skiptar skoðanir um einstök atriði.

Hv. þm. spurði um einn þátt sem hann lýsti efasemdum og fyrirvara um, þ.e. ákvæðinu í 14. gr. frv. þar sem gert er ráð fyrir einum svokölluðum kvótamarkaði og hv. þm. Ágúst Einarsson talaði einnig um og lýsti þeirri skoðun að nokkuð væri þrengt það frelsi sem hefur þó ríkt um kvótaviðskipti almennt í þessari grein. Ég undirstrika að ég er ekki sammála hv. þm. Hjálmari Jónssyni þegar hann segir að frjáls viðskipti hafi verið afnumin. Ég held að hér sé æði djúpt í árina tekið en vissulega hlýtur að fara dálítið eftir því hvernig til tekst með þennan markað hvernig hann virkar, hversu opið og frjálst viðskiptaumhverfi greinarinnar er í þessu efni. Ég lýsi þeirri skoðun minni afdráttarlaust að ég tel mjög mikilvægt að þau viðskipti geti gengið frjálst og eðlilega fyrir sig og við útfærslu á því ákvæði sem hv. þm. spurði um sé þess gætt að markaðsverðið geti verið breytilegt frá einum tíma til annars og að þessi viðskipti geti orðið nokkuð stöðug.

Ég hef að vísu heyrt því sjónarmiði lýst að þessi markaður væri kannski opinn tvisvar, fjórum, sex sinnum á ári. Mér finnst það vera mál sem þarf að skoða betur. Við höfum ekki átt um það ítarlegar viðræður við Bændasamtökin enn þá þannig að það er ekki tímabært fyrir mig að gefa út, eða ég get raunverulega ekki svarað spurningu hv. þm. um það nákvæmlega hvernig staðið verði að útfærslu þessa ákvæðis en lýsi sjónarmiði mínu að ég tel að hér þurfi að gæta að því að viðskiptin geti verið opin og frjáls þótt þau fari í gegnum einn farveg og viðhorfum þeirra sem hafa gert þessa tillögu hef ég þegar lýst. Þau er bæði að finna í frv. og þeim hef ég lýst í framsöguræðu minni og þarf ekki út af fyrir sig að ítreka en þar er m.a. talað um að viðskiptin séu, ef ég má orða það svo, gagnsærri og augljósari, opnari og menn viti um þau. Aukakostnaði sem þegar er vitað um að fylgir þessum viðskiptum í dag sé haldið í lágmarki, það ætti að vera hægt með því að semja um þetta við einn aðila og ég get út af fyrir sig líka tekið undir það með hv. þm. Ágústi Einarssyni að til er ýmiss konar farvegur fyrir viðskipti af þessu tagi. Ekki er endilega sjálfgefið að það sé gert af hálfu opinberra aðila. Við höfum þegar heyrt um og vitum af þeirri umræðu sem er í gangi um endurskoðun á stofnanaskipulagi landbúnaðarins. Tillaga um það kom fram í skýrslu nefndar sem ég skipaði til að fjalla um þau mál og ég er með það mál þegar í athugun. Þar á meðal er starfsemi Framleiðsluráðsins sem ég veit að sumir hv. þm. hafa lýst þeirri skoðun sinni á að sé nauðsynlegt að taka til athugunar og er ein af þeim stofnunum sem verða teknar til sérstakrar skoðunar í umræðum um endurskipulagningu þessa kerfis. Það er því ekkert sem segir það í dag að það þurfi endilega að vera Framleiðsluráð landbúnaðarins sem fjallar um þetta enda kveðið á um það í greininni að það geti verið einhver annar aðili sem samið er við. Þetta á einnig eftir að skoða nánar.

Hæstv. forseti. Ég vísa aðeins til þess sem áður hefur komið fram um þennan kvótamarkað og hef ekki miklu við það að bæta á þessu stigi. Auðvitað mun nefndin ræða það mál og fjalla um það líka við Bændasamtökin þegar nefndin fer yfir frv. og heyra viðhorf sem eru á bak við þessa hugmynd og auðvitað má í því sambandi kalla til fleiri aðila sem staðið hafa að þessum álitum og komu fram með þessa hugmynd. Þá á ég t.d. við fulltrúa BSRB og fulltrúa vinnuveitenda sem áttu sæti í sjö manna nefndinni svokölluðu.

Ýmislegt af því sem kom fram í ræðu hv. þm. Ágústs Einarssonar áðan eru mál sem við höfum rætt um áður og út af fyrir sig tel ég ekki þörf á að ég fari mörgum orðum um við 1. umr. um frv. því að skoðanir mínar í því efni hafa komið fram áður. Ég hygg að við séum reyndar sammála um ýmislegt í því sem þarf að gera fyrir íslenskan landbúnað. Það þarf að gera þar ýmsar breytingar og ég tel að verið sé að því. Ég tel að það séu reyndar mjög margar breytingar sem hafa átt sér stað í starfsumhverfi landbúnaðarins á þessu kjörtímabili og þeim er ekki lokið. Enn er unnið að þeim á ýmsum sviðum en við erum kannski síst sammála í því hversu stór skref á að stíga í þessu efni og hversu hratt ber að fara. Ég hef verið þeirrar skoðunar að við ættum að fara okkur hægt í þessu efni og huga vel að hverju skrefi sem tekið er þótt ég vilji reyndar fullyrða að hvað varðar þær breytingar sem eru t.d. gerðar á verðlagsmálum, bæði um verðlagningu sauðfjárafurða og nú í þessu frv., ef að lögum verður, varðandi verðlagningu á mjólkurafurðum, sé hægt að tala um miklu meira en hænuskref í því sambandi. Ég tel að um róttækar breytingar sé að ræða sem er reyndar ekki fullséð enn þá hvernig mun reiða af þar sem það hefur ekki enn þá reynt á það. Í haust mun reyna á þetta varðandi sauðfjárafurðirnar og á samningstímabilinu varðandi mjólkurafurðirnar þannig að hér er verið að stíga stór skref.

[17:45]

Eins og fram kom í máli hv. þm. Hjálmars Jónssonar og ég get gert að mínum orðum þá hafa orðið miklar breytingar á undanförnum árum varðandi verðlagsmál, opinberan stuðning og verðlagningu innlendrar matvælaframleiðslu í samanburði við önnur lönd og ég tel að við höfum framkvæmt GATT-samninginn svokallaða með svipuðum hætti og gerist í nágrannalöndunum. Menn geta haft misjafnar væntingar og misjafnar skoðanir á því hvernig það á að vera en hér hafa verið stigin stór skref og breytingarnar orðið miklar. Það hefur reyndar sýnt sig líka í afkomu bænda á undanförnum árum að þeir hafa tekið mikið á sig og hafa gengið í gegnum miklar þrengingar vegna þess að markaðurinn hefur á sama tíma stöðugt dregist saman, að vísu ekki mjög í mjólkinni en alvarlega í sambandi við sauðfjárframleiðsluna. Þetta þekkjum við og ekki þarf eyða mörgum orðum í það.

Hæstv. forseti. Mig langar að ljúka þessum orðum mínum nú --- ég sé að tími minn er senn á enda -- og greina frá því að ég sat nýlega fund landbúnaðarráðherra OECD-ríkja sem haldinn var í París og þar komu fram hjá, að ég hygg, flestöllum ráðherrum Evrópuþjóða mjög svipuð viðhorf til landbúnaðar, til mikilvægis hans og til hlutverks hans og við höfum haft í hávegum á Íslandi, þ.e. talið að hann væri í raun miklu meira en spurningin um að framleiða mat og verðlagning á þeirri matvælaframleiðslu. Hann er spurning um ákveðna atvinnuhætti. Hann er spurning um ákveðið lífsmunstur. Hann er spurning um menningu, líf og búsetu til sveita. Hann er spurning um búsetu í landinu í heild og fjölmargt fleira slíkt mætti taka til. Ég held að um þetta ríki nokkur sátt með þjóðinni og þó hv. þm. gæti þess í sínu máli áðan að nota ætti það tækifæri sem nú væri til þess að ná betri sátt milli landbúnaðarins og almennings, þá held ég að sáttin sé í raun nokkuð víðtæk og Íslendingar viðurkenni almennt að við viljum hafa landbúnað í landinu. Við viljum að okkar matvælaframleiðsla sé þannig að við getum treyst því að þau matvæli sem við neytum séu góð og holl afurð, framleidd mengunarlaust án óþarfra lyfja og án vaxtarhvetjandi efna. Allt þetta setur landbúnaðarframleiðslu okkar í nokkuð annað far en gerist í nágrannalöndunum þar sem þetta er talsvert öðruvísi hvað þetta varðar.

Ég leyfi mér einnig að fullyrða að viðhorf landbúnaðarins og bændastéttarinnar til umhverfismála sé mjög í samræmi við það sem almennt gerist meðal íbúa landsins. Ég held að bændur hafi ekki neinar sérskoðanir eða aðrar skoðanir á því. Umræðan um beitarmál hefur verið mikil að undanförnu og ég hygg að hægt sé að finna fjölmörg dæmi þess að bændur hafa tekið á þeim málum af miklum trúverðugleika og myndugleika og sýnt í verki að e.t.v. eru þeir þrátt fyrir allt bestu vörslumenn landsins.

Hæstv. forseti. Ég held að ekki hafi verið beint til mín formlega öðrum spurningum en þessari um kvótamarkaðinn sem ég hef aðeins farið yfir og ég lýsti þeim skoðunum mínum að ég tel að það þurfi að gæta sín í því að þær breytingar sem hér eru lagðar til þrengi ekki það að við getum kallað frjáls viðskipti í þessu sambandi. En auðvitað er gert ráð fyrir því að þær fari um einn farveg og það er gert til þess, eins og fram hefur komið, að gera þennan markað skýrari á allan hátt og augljósari í þeirri trú líka að hægt sé að halda verði og kostnaði niðri.