Framleiðsla og sala á búvörum

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 17:50:15 (5126)

1998-03-24 17:50:15# 122. lþ. 93.16 fundur 559. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (mjólkurframleiðsla) frv., HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[17:50]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að koma upp aftur og þakka hæstv. landbrh. fyrir ágæta málsmeðferð. (ÖS: Hvaða sleikjugangur er þetta.) Ég er sammála því og ánægður að heyra hann segja það að ekki megi þrengja að í því kerfi sem við búum við varðandi viðskipti með mjólkurkvótann. Það er einmitt það sem ég óttast svolítið að þessi samningur og lögin sem eiga að staðfesta hann geri eins og þau eru núna úr garði gerð og því vil ég árétta að við þurfum að taka það mál til sérstakrar athugunar í hv. landbn. Það er nefnilega óþarfi að gera við kerfi sem er í raun og veru ekki bilað. En ef mönnum finnst þetta kerfi á viðskiptum með mjólkurkvóta bilað, þá er nauðsynlegt að það komi fram hvaða atriði eru í ólagi með viðskiptin við mjólkurkvótann. Ég verð ekki var við það í umræðum manna á meðal og heldur ekki hér að menn (GÁ: Verðið er hátt.) finni svo mikið að mjólkurkvótaviðskiptunum. Verðið er hátt segir hv. formaður landbn. Það var vegna þess að bændur voru að fylla á hjá sér og nýta ónýtt rými í fjósum og það var reyndar á síðasta ári. Nú hefur kvótaverðið lækkað verulega og það er að mínum dómi langeðlilegast að markaðurinn stýri þessu sjálfur.