Framleiðsla og sala á búvörum

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 17:54:02 (5128)

1998-03-24 17:54:02# 122. lþ. 93.16 fundur 559. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (mjólkurframleiðsla) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[17:54]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við sjáum nú til hvernig næstu kosningar fara. Það er eftir að kveða upp þann dóm og um hvað gerist síðan í kjölfar þeirra kosninga. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. að við erum kannski ekki alveg sammála um það og raunar ekki um alla þætti landbúnaðarmálanna, að ég leyfði mér að segja áðan að ég teldi að samsvörun mætti finna í ýmsu í málflutningi okkar þó að ágreiningur væri kannski fyrst og fremst um það hversu hratt á að fara og hversu stórstígar breytingarnar eiga að vera. En áherslurnar geta verið og eru sjálfsagt að ýmsu leyti nokkuð breytilegar.

Það er rétt hjá hv. þm. að ekki eru mjög miklar breytingar í þessum samningi á ýmsum efnisatriðum, t.d. eins og hinum almenna stuðningi. Hann er lítt breyttur. Hann er nánast eins og er í gildandi samningi og margt er mjög svipað. En mér finnst þó að ekki megi gera lítið úr því --- hv. þm. er mér kannski ekki alveg sammála um það --- að róttækar breytingar eru boðaðar eða fyrirhugaðar í verðlagsmálunum og það hlýtur að skipta miklu máli. Þar er svigrúmið í raun til þess að gera ákveðnar breytingar, ná fram ákveðinni hagræðingu, hugsanlega og vonandi auknum tekjum inn í atvinnugreinina og stuðla að bættri afkomu hjá bændum. Staðreyndin er sú að þó það komi ekki fram í töflum sjö manna nefndarinnar sem tilgreindar eru í frv. og ná aðeins til ársins 1996 þá breyttust þó tekjur bænda nokkuð á seinasta ári þannig að þær fara núna batnandi. Ég leyfi mér líka að fullyrða að það sé fullur vilji til sátta --- og í raun megi alls ekki gera mikið úr því að ekki ríki sátt milli bændastéttarinnar og almennings í landinu. Ég leyfi mér að fullyrða að þar sé ekki sá ágreiningur fyrir hendi sem hv. þm. vill reyna að draga fram, t.d. í sambandi við umhverfismálin.