Lax- og silungsveiði

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 17:56:48 (5129)

1998-03-24 17:56:48# 122. lþ. 93.17 fundur 578. mál: #A lax- og silungsveiði# (stjórnsýsluverkefni, Fiskræktarsjóður o.fl.) frv., landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[17:56]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 76/1970, með síðari breytingum, sem flutt er á þskj. 983 og er 578. mál þingsins.

Á síðasta þingi var gerð sú breyting með lögum nr. 24/1997 að stjórnsýsluverkefni veiðimálastjóra voru aðskilin frá rannsóknum í veiðimálum. Á grundvelli þeirra laga var sérstakur framkvæmdastjóri skipaður fyrir Veiðimálastofnun en áður hafði veiðimálastjóri veitt stofnuninni forstöðu.

Frv. er m.a. samið af nefnd sem ég skipaði til þess að endurskoða nokkur ákvæði í lögum um lax- og silungsveiði, m.a. vegna áðurnefnds aðskilnaðar á rannsóknum og stjórnsýsluverkefnum. Breytingarnar sem lagðar eru til með frv. eru þríþættar.

Í fyrsta lagi að færa stjórnsýsluverkefni frá landbrh. til veiðimálastjóra. Í öðru lagi að treysta lagaákvæði er varða verndun og viðhald náttúrulegra stofna laxfiska og í þriðja lagi að efla Fiskræktarsjóð.

Í núgildandi lögum um lax- og silungsveiði er landbrh. ætlað að veita ýmis leyfi og undanþágur langoftast að fenginni umsögn eða eftir atvikum tillögum veiðimálanefndar og veiðimálastjóra. Yfirstjórn lax- og silungsveiðimála er í höndum landbrh. og fer hann því með æðsta stjórnsýsluvald samkvæmt lögunum. Óeðlilegt verður að telja að æðsta stigi stjórnsýslu sé að lögum falin svo víðtæk lagaframkvæmd eins og dæmi eru um í lax- og silungsveiðilögunum. Slík tilhögun leiðir til þess að ekki er til eðlileg málskotsleið innan stjórnsýslunnar vilji aðili stjórnsýslumáls ekki sætta sig við málsmeðferð og ákvörðun ráðherra í tilteknu máli.

Með frv. þessu er lagt til að afgreiðsla stjórnsýslumála verði flutt frá landbrh. til veiðimálastjóra. Allar greinar frv. hafa að geyma ákvæði er varðar þennan tilflutning á stjórnsýsluverkefnum. Aðeins þrjár greinarnar, 11., 21. og 27., hafa síðan að geyma ákvæði er varða verndun og viðhald náttúrulegra stofna laxfiska og um Fiskræktarsjóðinn.

Á undanförnum árum hafa komið upp vandkvæði við framkvæmd reglugerðar nr. 401/1988, um flutning og sleppingu laxfiska og varnir gegn fisksjúkdómum og blöndun laxastofna. Við setningu reglugerðarinnar á sínum tíma var haft samráð við hagsmunaaðila en á þeim tíma voru nokkrar líkur á umtalsverðri hafbeit og fiskeldi í kvíum með ströndum landsins. Óumdeilanlegt er að flutningur á lifandi fiski til endurveiði eykur hættu á útbreiðslu fisksjúkdóma. Eftir að kýlaveiki fannst í laxi í Elliðaánum og í hafbeitarstöðinni í Kollafirði árið 1995 var árið 1996 hvergi á landinu veitt undanþága fyrir flutningi á hafbeitarfiski milli vatnasvæða til endurveiði. Undanþágur höfðu verið gefnar undangengin ár. Ráðherra að fengnum tillögum fisksjúkdómanefndar hefur samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði heimildir til þess að banna þess konar flutning sem hér um getur og vísast þar til 79. gr. laganna.

Ekki fékkst samþykki hjá fisksjúkdómanefnd fyrir undanþágu árið 1996 eins og áður segir en samþykki fékkst aftur árið 1997 með ströngum skilyrðum. Ráðherra gaf undanþágur í kjölfar þess með þeim skilyrðum sem fisksjúkdómanefndin setti.

[18:00]

Ekki er deilt um það hlutverk sem fisksjúkdómanefnd er fengið með þessu ákvæði reglugerðarinnar heldur það að telji ráðherra sig ekki geta veitt undanþáguna, t.d. vegna erfðablöndunarhættu eða óæskilegra vistfræðilegra áhrifa, hefur hann ekki til þess nægilega trygga lagaheimild. Um fiskrækt, sbr. 23. gr. laganna, segir einungis til um hvernig bera skuli sig að við samþykkt áætlunarinnar en hvergi er þess getið að einungis skuli nota viðkomandi stofn árinnar eða vatnsins eins og segir í reglugerðinni. Það er viðurkennt meðal erfða- og vistfræðinga, er stunda rannsóknir á laxfiskum, að eitt það mikilvægasta fyrir sjálfbæra nýtingu náttúrulegs stofns sé að varðveita sérkenni sem stofninn hefur og er niðurstaða aðlögunar í þúsundir ára.

Atlantshafslax á mjög undir högg að sækja. Útbreiðsla tegundarinnar og stærð stofna hennar hafa minnkað mjög á þessari öld og einkum síðustu árin eins og gögn Alþjóðahafrannsóknaráðsins sýna og ítrekað hefur verið bent á, t.d. af Alþjóðalaxakvótasjóðnum. Ástæðnanna er bæði að leita í náttúrulegum breytingum á umhverfi en ekki síður vegna aðgerða mannsins. Svo er komið að lax er horfinn af stórum svæðum og honum hefur fækkað mjög á öðrum þar sem bæði búsvæðum laxins og laxastofnum hefur verið spillt. Því er afar brýnt að vel sé á málum haldið hér á landi svo að þessi mikilvæga auðlind spillist ekki eða tapist.

Af því sem hér að framan greinir má ljóst vera að illframkvæmanlegt er að notast við þau ákvæði sem eru í núgildandi lögum og reglugerðum sem varða verndun og viðhald þeirrar auðlindar sem hér um ræðir. Enn fremur má benda á Ríó-sáttmálann um viðhald líffræðilegs fjölbreytileika og sjálfbæra þróun, en með frumvarpinu, ef að lögum verður, er stuðlað að því að ekki sé stefnt í óþarfa hættu þeim fjölbreytileika sem er enn þá í stofnum íslenskra laxfiska.

Með frv. er gert ráð fyrir að með fiskrækt í ám og vötnum skuli einungis nota stofn úr viðkomandi veiðivatni og hvers konar flutningur á laxfiskum úr náttúrulegu veiðivatni, hafbeitar- eða eldistöð, í annað náttúrulegt veiðivatn til stangveiða sé óheimilt. Frá þessum ákvæðum getur veiðimálastjóri síðan veitt undanþágu að fengnu sérstöku mati af áhrifum þess á lífríki veiðivatnsins og aðliggjandi veiðivatna. Með þessu verða lögfestar ótvíræðari lagaheimildir fyrir þeim ákvæðum reglugerðarinnar sem setja takmarkanir og skorður við starfsemi fiskeldisfyrirtækja og veiðifélaga sem sátt hefur verið um. Þá eru lögð til ný ákvæði sem eru hvorki í lögum né reglugerð sem taka á veigamiklum atriðum er varða framkvæmd laganna og varðar aðra en þá sem sækja um undanþágu frá banni en telja sig málið varða.

Lagt er til að með lögum sé báðum aðilum tryggð sanngjörn málsmeðferð og ákvarðanir stjórnvalds séu byggðar á faglegum grunni. Með umsókn til veiðimálastjóra, en henni ber að fylgja álitsgerð dýralæknis fisksjúkdóma og Veiðimálastofnunar, eru stjórnvaldi tryggðar faglegar úttektir óháðra aðila auk greinargerðar þess sem sækir um leyfi til framkvæmdanna. Þeir sem telja hagsmunum sínum ógnað geta gert athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir. Sætti aðilar máls sig ekki við úrskurð veiðimálastjóra um höfnun umsóknar eða undanþágu frá banni með eða án skilyrða úrskurðar landbrh. í málinu sem æðsta stjórnvald.

Í frumvarpi þessu er einnig lagt til að skerpt verði á þeim ákvæðum er varða hafbeit svo að tryggt verði í framtíðinni að við veitingu rekstrarleyfa verði nægilegt tillit tekið til þeirra sjónarmiða er varða erfðamengun.

Gert er ráð fyrir við veitingu rekstrarleyfa í þeim tilvikum þar sem fyrirhuguð beiting hafbeitistöðva er í nálægð við laxveiðiár með náttúrulegum stofnum að fram fari mat á hættu á erfðablöndun.

Þá er lagt til það nýmæli að veiðimálastjóri geti veitt undanþágu til flutnings á seiðum í hafbeitarstöð áður en endanlegt rekstrarleyfi er gefið hafi stöðin fengið heimild til starfa samkvæmt ákvæðum annarra laga. Er þá átt við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Vík ég nú að þriðja meginmáli þessa frv. sem varðar Fiskræktarsjóð en hann var á sínum tíma settur á laggirnar með það að markmiði að efla fiskrækt í landinu m.a. með fiskvegagerð og seiðasleppingum. Síðar var bætt við lögin ákvæði sem heimila styrki til annarra verkefna sem stuðla að aukningu og viðhaldi íslenskra laxfiska. Mikilvægi sjóðsins hefur aukist eftir því sem áhrif manna og náttúru landsins verða meiri.

Nú er svo komið að Ísland er eina landið við Norður-Atlantshaf sem hefur ekki orðið fyrir stórfelldu hruni í laxastofninum. Miklu fé er nú varið í öðrum heimkynnum laxins til viðhalds hans og verndunar svo að auðlindin tapist ekki fyrir fullt og allt. Ýmsar ástæður eru fyrir þessu hruni, sumar þekktar aðrar ókunnar. Áhyggjur manna af að brátt fari á sömu leið með íslenska stofna eiga að vera hvatning til þess að gera allt sem mögulegt er til þess að efla aðgerðir sem bætt geta lífsskilyrði laxastofna okkar. Af þessum sökum er nauðsynlegt að efla Fiskræktarsjóð. Það er unnt að gera með því að breyta því ákvæði laganna sem kveður á um að aðeins skuli greiða til sjóðsins af raforkusölu til almennings. Telja verður að auknar tekjur til Fiskræktarsjóðs samrýmist þeim hugmyndum sem Landsvirkjun hefur sett fram í umhverfisstefnu sinni en þar kemur fram að Landsvirkjun mun í framtíðinni þurfa að starfa enn nánar með þeim sem stunda rannsóknir á veiði og gefa leiðbeiningar um veiðimál.

Allar rannsóknir á lífríki vatna, sem ríkið styrkir með framlögum á fjárlögum, eru grunnur að skynsamlegri nýtingu fallvatna. Fiskræktarsjóður eflir með markmiðum sínum einnig þann grunn þekkingar sem við þurfum á að halda til viðhalds þeim auðlindum sem eru í vötnum landsins. Sérstaða sjóðsins er sú að í hann hafa greitt þeir sem hafa tekjur af því lífríki sem eru í vötnum landsins og fallorkunni sem í þeim er.

Með frv. þessu er lagt til að vatnsaflsstöðvarnar greiði einnig í sjóðinn af óskírum tekjum sínum vegna sölu á raforku til nýrra stórnotenda samkvæmt sérsamningum sem gerðir verða í framtíðinni. Greiðslur í Fiskræktarsjóð árið 1997 af óskírum tekjum vegna sölu raforku til almennings árið 1996 voru 7,7 millj. kr. Með því sem hér er lagt til munu tekjur sjóðsins í framtíðinni hækka þegar auknar tekjur koma til af orkusölu fyrirtækjanna af nýjum samningum við stóriðjufyrirtækin.

Eins og fram kemur í umsögn fjmrn. verður ekki séð að frv. hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum.

Hæstv. forseti. Að öðru leyti vísa ég til greinargerðarinnar og athugasemda með frv. Hvað varðar meðferð málsins vil ég leggja mikla áherslu á nauðsyn þess að lögfesta frv. á þessu þingi og að lokum legg ég til að frv. verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. landbn.