Lax- og silungsveiði

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 18:06:45 (5130)

1998-03-24 18:06:45# 122. lþ. 93.17 fundur 578. mál: #A lax- og silungsveiði# (stjórnsýsluverkefni, Fiskræktarsjóður o.fl.) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[18:06]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Eitt af þremur yfirlýstum markmiðum þessa frv. sem hæstv. landbrh. hefur mælt fyrir er að efla Fiskræktarsjóð. Í 27. gr. frv. segir svohljóðandi:

,,Þrjú prómill af óskírum tekjum vatnsaflsstöðva í landinu vegna sölu á raforku samkvæmt sérsamningum til nýrra stórnotenda.``

Í þessu felst að upphæðin sem af þessu kemur á að renna í Fiskræktarsjóð til að sinna þeim verkefnum sem hann á að standa að. Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að mig brestur einfaldlega málskilning til þess að skilja hvað í þessu felst. Hvað felst í því að það eigi að taka 3 prómill af óskírum tekjum vatnsaflsstöðva í landinu?

Mig langar líka að spyrja hæstv. landbrh. að því hvað þetta feli í sér í tekjum. Það segir á bls. 8 í greinargerðinni, með leyfi forseta:

,,Sé tekið mið af greiðslum í Fiskræktarsjóð árið 1997 af óskírum tekjum vegna sölu raforku til almennings árið 1996 voru tekjur sjóðsins 7,7 millj. kr.``

Hvernig ber að skilja þetta? Ber að skilja þetta svo að verði þetta að lögum muni tekjur sjóðsins aukast um 7,7 millj.? Ég hef lagt mitt litla höfuð í bleyti og skil þetta ekki.

Mig langar líka til þess að spyrja hæstv. ráðherra: Þýðir þetta ekki alveg örugglega það að verði frv. samþykkt er í raunninni verið að skattleggja stóriðju í landinu um þá upphæð sem þarna á að renna í Fiskræktarsjóð?