Lax- og silungsveiði

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 18:08:38 (5131)

1998-03-24 18:08:38# 122. lþ. 93.17 fundur 578. mál: #A lax- og silungsveiði# (stjórnsýsluverkefni, Fiskræktarsjóður o.fl.) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[18:08]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda að markmið þessarar breytingar í 27. gr. frv. er að styrkja fjárhag Fiskræktarsjóðs. Ég verð hins vegar að gera þá játningu fyrir hv. þm. og þingheimi að ég kann ekki að skýra nákvæmlega út hvað óskírar tekjur merkir, þ.e. hvað í því felst, hver sá tekjustofn raunverulega er. En það er nokkuð sem hefur verið í lögunum þannig að það er ekki breyting og fjallar um það hver hinn raunverulegi tekjustofn er og ætti ekki að vefjast fyrir þeim sem annast innheimtuna og sjá um framkvæmdina.

Með því að bæta inn í þetta tekjum af raforkusölu samkvæmt sérsamningum til nýrra stórnotenda er einkum átt við stóriðjuna, að það séu samningar sem orkusalar gera, sem í dag er fyrst og fremst Landsvirkjun en gæti hugsanlega í framtíðinni orðið einhverjir aðrir, með breytingu á lögum um orkuframleiðslu, þ.e. þeir sem selja stóriðjuaðilum eða stórnotendum raforku, vatnsaflsstöðvar, eiga að greiða af öllum nýjum samningum.

Varðandi það hvaða tekjur þetta geta orðið til viðbótar þá eru þær tekjur sem sjóðurinn hafði áður af raforkusölu til almennings þessar 7,7 millj. sem hv. þm. vitnaði til. Tekjurnar af þeim samningum sem eru hugsanlega í farvatninu, nú veit ég ekki nákvæmlega um það hvað verður af þeim eða hvaða samningar kunna að verða gerðir, gætu aukist um kannski 1--1,5 millj. kr. á ári. Nákvæmari tölur er ekki hægt að gefa upp þar sem menn vita ekki hvaða samningar kunna að verða gerðir. Það er sem sagt ekki verið að taka inn greiðslur af allri raforkusölu til stóriðju, þ.e. þeim samningum sem eru fyrir hendi í dag heldur af nýjum samningum.