Kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 25. mars 1998, kl. 14:18:15 (5149)

1998-03-25 14:18:15# 122. lþ. 94.7 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 122. lþ.

[14:18]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrst fyrir frv. sem liggur fyrir á þskj. 1023, um kjaramál fiskimanna.

Hinn 3. febrúar sl. hófst verkfall á fiskskipaflotanum en samningar sjómanna og útvegsmanna höfðu verið lausir frá því í árslok 1996 eða í rúmlega 13 mánuði. Er þetta í þriðja sinn á fjórum árum sem kjaradeilur sjómanna og útvegsmanna hafa leitt til þess að stærsti hluti fiskiskipaflotans stöðvast. Fyrri deilur, sem stóðu í byrjun árs 1994 og vorið 1995, hafa líkt og deilan nú, fyrst og fremst snúist um tengsl viðskipta með aflamark og viðskipta með afla. Sjómenn telja að í mörgum tilvikum hafi þessi tengsl óeðlileg áhrif á skiptakjör og ákvörðun fiskverðs til hlutaskipta í viðskiptum utan fiskmarkaða.

Í janúarmánuði síðastliðnum beitti ég mér fyrir óformlegum viðræðum á milli deiluaðila undir forustu Ásmundar Stefánssonar framkvæmdastjóra. Þessar viðræður hófust upp úr miðjum janúar en til þeirra var stofnað í nánu samráði við ríkissáttasemjara og deiluaðila. Í viðræðunum var farið ítarlega yfir ýmsar hugmyndir til lausnar deilunni en viðræðurnar urðu ekki til þess að deilan leystist.

Þann 9. febrúar sl. var lagt fram frumvarp á Alþingi um stöðvun verkfalla á fiskiskipaflotanum. Samkvæmt frumvarpinu var m.a. gert ráð fyrir að sjávarútvegsráðherra skipaði þriggja manna nefnd til að kanna verðmyndun á fiski og þá þætti sem áhrif hafa á hana. Þá skyldi nefndin gera tillögur er beindust einkum að því að koma í veg fyrir að viðskipti með sjávarafla milli tengdra aðila og viðskipti með aflaheimildir hefðu óeðlileg áhrif á skiptakjör sjómanna og undirbúa löggjöf í þeim efnum.

Þann 10. febrúar rituðu fulltrúar samninganefnda Sjómannasambands Íslands, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Alþýðusambands Vestfjarða ríkissáttasemjara bréf þar sem óskað var eftir að verkfalli aðila yrði frestað frá kl. 23.00 þann 11. febrúar til kl. 23.00 þann 15. mars. Segir í bréfinu að óskin um frestun verkfalls sé sett fram á þeirri forsendu að skipuð verði nefnd í samræmi við 1. gr. fyrrnefnds frumvarps er hafi það verkefni að kanna verðmyndun á fiski og þá þætti sem hafa áhrif á hana. Nefndin skuli skila tillögum er beinast að því að koma í veg fyrir að viðskipti með sjávarafla milli tengdra aðila og viðskipti með aflaheimildir hafi áhrif á skiptakjör sjómanna. Nefndin skili tillögum sínum í síðasta lagi 10. mars 1998. Fulltrúar allra aðila deilunnar undirrituðu yfirlýsingu hjá ríkissáttasemjara þann 11. febrúar þar sem fallist var á þá tillögu sem sett var fram í bréfinu frá 10. febrúar.

Með vísan til framangreinds bréfs sjómanna ákvað ég að skipa nefnd til að gera tillögur um þargreind atriði og var hún skipuð 11. febrúar. Jafnfram ritaði ég Alþingi bréf sama dag þar sem óskað var eftir að frumvarp það sem lagt var fram á Alþingi þann 9. febrúar yrði afturkallað.

Nefndin skilaði tillögum sínum þann 4. mars sl. Tillögur nefndarinnar voru þríþættar. Í fyrsta lagði lagði nefndin til að sett yrði á stofn Verðlagsstofa skiptaverðs. Í öðru lagi lagði nefndin til að komið yrði á fót opnum tilboðsmarkaði fyrir aflamark --- Kvótaþingi. Í þriðja lagi að veiðiskylda fiskiskipa yrði aukin frá því sem nú er.

Tillögur nefndarinnar voru kynntar deiluaðilum samdægurs. Í framhaldi af því hófust viðræður milli aðila um nýja kjarasamninga sem m.a. byggðu á þeirri forsendu að tillögur nefndarinnar yrðu lögfestar. Því miður skiluðu þær viðræður engum árangri og fór svo að verkfall á fiskiskipaflotanum hófst að nýju 15. mars. Í framhaldi af því lagði ríkissáttasemjari fram miðlunartillögu 16. mars. Miðlunartillagan byggði á þeirri forsendu að frumvarpsdrög nefndarinnar, sem skipuð var 11. febrúar, yrðu að lögum á yfirstandandi þingi. Tillagan var borin undir atkvæði í félögum sjómanna og útvegsmanna og lauk atkvæðagreiðslunni 18. mars. Niðurstaðan varð sú að sjómenn samþykktu miðlunartillöguna en útvegsmenn felldu.

Eftir að miðlunartillagan hafði verði felld boðaði ríkissáttasemjari deiluaðila að nýju til viðræðna. Þær viðræður skiluðu engum árangri og slitnaði upp úr þeim 23. mars. Í framhaldi af því kallaði ég fulltrúa í samninganefndum sjómanna og útvegsmanna á minn fund. Í þeim viðræðum kom fram að mikið bar á milli aðila og engin lausn á deilunni virtist vera í sjónmáli. Því var fyrirsjáanlegt að yrði ekkert að gert mundi yfirstandandi verkfall standa í margar vikur ef ekki mánuði.

Ljóst er að almenn stöðvun veiða og vinnslu um lengri tíma hefði mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þjóðarbúið. Þau áhrif yrðu þó mun meiri og alvarlegri fyrir einstaklinga sem starfa við fiskvinnslu og fyrirtæki og bæjarfélög sem byggja á sjávarútvegi. Vinnsla á fiski er að stöðvast en það mundi leiða til þess að fjöldi fiskvinnslufólks mundi missa atvinnu. Hér er því um mikla almannahagsmuni að tefla og því nauðsynlegt að bregðast við til að koma í veg fyrir þann mikla efnahagsskaða sem stöðvun fiskiskipaflotans um lengri tíma mundi ella valda.

Með frumvarpi þessu er lagt til að efnisákvæði miðlunartillögu ríkissáttasemjara verði lögfest. Gildandi kjarasamningar, með þeim breytingum sem af miðlunartillögunni munu leiða, yrðu lögfestir til 15. febrúar árið 2000 nema aðilar semji um annað. Jafnframt er lagt til að sett verði í lög tvö efnisákvæði er ekki var að finna í miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Annað atriðið snýr að kauptryggingu sjómanna sem stunda veiðar á fjarlægum miðum svo sem á Flæmingjagrunni eða í Barentshafi. Síðara atriðið snýr að hlutaskiptum þegar fækkað er í áhöfn en samkvæmt síðastgildandi kjarasamningum getur fækkun í áhöfn valdið hækkun á heildarlaunakostnaði útgerðar.

Eins og áður hefur komið fram hefur athugun leitt í ljós að efnisákvæði þetta leiðir til víðtækari kjaraáhrifa en að var stefnt og verður því þess vegna beint til hv. sjútvn. að hún breyti þessu ákvæði þannig að það taki einungis til rækjuveiða.

Ég mun þessu næst gera grein fyrir því frv. sem hér liggur fyrir um stofnun Kvótaþings. Samkvæmt frv. er lagt til að komið verði á opnum tilboðsmarkaði fyrir aflamark, Kvótaþingi. Er frv. samhljóða þeim drögum að frv. sem samið var af nefnd þeirri sem skipuð var þann 11. febrúar til að fjalla um atriði tengd kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna.

Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að sjávarútvegsráðherra skipi þrjá menn í stjórn Kvótaþings. Stjórnin þingsins getur tekið ákvörðun um að fela öðrum rekstur einstakra þátta í starfsemi Kvótaþings eða reksturinn í heild. Í því sambandi kæmi vel til álita að fela Verðbréfaþingi Íslands að annast starfsemi Kvótaþings enda er um mjög hliðstæða starfsemi að ræða.

Stjórn Kvótaþings verður falið að setja reglur um ýmsa þætti í starfsemi þingsins, m.a. um skráningu kaup- og sölutilboða, útreikning viðskiptaverðs, greiðslumiðlun, miðlun upplýsinga og trúnaðarskyldu. Slíkar reglur þurfa að tryggja að viðskipti fari fram á öruggan hátt og á sem skemmstum tíma. Slíkt er t.d. mikilvægt fyrir þá, sem eru að ljúka veiðum af aflamarki tiltekinnar tegundar og þurfa af þeim sökum að leita eftir viðskiptum á þinginu.

Fiskistofa yrði eini milliliður tilboðsgjafa og Kvótaþings. Aflamark er opinber réttindi og því er nauðsynlegt að Fiskistofa, sem annast alla skráningu varðandi aflaheimildir einstakra skipa, gangi úr skugga um að tilboðsgjafar fullnægi skilyrðum laga um kaup eða sölu á aflamarki. Um leið og sölutilboð berst Fiskistofu verður það aflamark, sem um ræðir, flutt á biðreikning frá þeim tíma. Þegar Fiskistofa hefur gengið úr skugga um að skilyrðum fyrir tilboði sé fullnægt sendir stofan það áfram til Kvótaþings til skráningar í tilboðsskrá. Þegar viðskipti hafa farið fram sendir þingið Fiskistofu upplýsingar um viðskiptin en þá mun stofan án tafar annast flutning aflamarks milli skipa í samræmi við þau.

Þegar tilboð hefur borist Kvótaþingi frá Fiskistofu, yrði það hlutverk þingsins að ganga úr skugga um að það fullnægi settum skilyrðum og að trygging sé nægileg fyrir kauptilboði og greiðslu þóknunar. Þar sem hér er um staðgreiðsluviðskipti að ræða þarf Kvótaþing að koma upp greiðslumiðlunarkerfi milli kaupenda og seljenda eða að semja um slíkt kerfi við aðra.

Samkvæmt frumvarpinu munu viðskipti fara fram á Kvótaþingi a.m.k. einu sinni á hverjum virkum degi. Viðskiptin fara þannig fram að fyrst eru fundin þau kaup- og sölutilboð fyrir hverja tegund, sem eru hæf til að mætast hvað verð snertir. Viðskiptin fyrir þessi tilboð fara því næst fram á reiknuðu viðskiptaverði, sem yrði eitt og hið sama fyrir alla. Gert er ráð fyrir að stjórn þingsins setji nánari reglur um pörun tilboða en slíkar reglur eru þekktar víða um heim í hliðstæðum viðskiptum.

Samkvæmt greinargerð sem Þjóðhagsstofnun hefur unnið um starfsemi Kvótaþings miðað við frv. þetta er líklegt að áhrifin af starfsemi þingsins yrðu tvíþætt. Annars vegar verður ekki eins auðvelt og áður að draga kostnað við öflun aflamarks frá aflaverðmæti fyrir útreikning á hlut áhafnar fiskiskips með óbeinum hætti eins og gerist t.d. í tonn á móti tonni viðskiptum því viðskiptin verða sýnileg og gerast með peningalegum greiðslum. Hins vegar breytist kostnaður vegna viðskiptanna. Hér er átt við kostnað í víðum skilningi, þ.e. ekki einvörðungu umboðslaun og þess háttar heldur einnig öflun upplýsinga og áhættu í viðskiptum. Hvað fyrrnefndu áhrifin varðar er líklegt, að mati Þjóðhagsstofnunar, að laun sjómanna hjá þeim útgerðum sem hafa stundað tonn á móti tonni viðskipti muni að jafnaði hækka með Kvótaþingi. Það verður því ekki eins fýsilegt og áður fyrir útgerðir að kaupa kvóta, eftirspurn eftir aflamarki minnkar og kvótaverð lækkar. Þetta verða a.m.k. áhrifin til skemmri tíma. Áhrifin til lengri tíma eru óvissari og ráðast til að mynda af samningum sjómanna og útvegsmanna. Svo vikið sé að síðari áhrifunum verður að telja líklegt að viðskiptakostnaður lækki með því að koma á einu skipulögðu þingi sem er óháð og nýtur trausts markaðsaðila. Þá segir í greinargerð Þjóðhagsstofnunar að reynslan sýni að stofnun formlegra markaða eins og Kvótaþings leiði oftast til aukinna viðskipta. Áhrifin á sjálft kvótaverðið eru hins vegar óviss, því þau koma bæði fram í auknu framboði og eftirspurn. Líklegt er að nokkrar verðsveiflur verði á Kvótaþingi, a.m.k. ef marka má aðra svipaða markaði.

[14:30]

Viðskipti með tonn á móti tonni hafa hvatt vinnslufyrirtæki til að framselja aflamark sitt til útgerða sem ráða yfir litlum aflaheimildum. Afnám þessara möguleika mun væntanlega leiða til þess að vinnslan nýti sínar aflaheimildir sjálf. Ekki er víst að staða kvótalítilla útgerða muni versna svo mjög þar sem verð á aflamarki mun lækka í kjölfarið að öllum líkindum og það verður minni fyrirhöfn og viðskiptakostnaður við að afla veiðiheimilda en áður. Kvótaþing getur því skapað hvata til aukinnar sérhæfingar og hagkvæmni að því leyti.

Ljóst er að ef frumvarp um stofnun Kvótaþings verður að lögum verða talsverðar breytingar á starfsumhverfi þeirra sem stunda útgerð frá því sem nú er. Viðskipti með aflamark hafa yfirleitt gengið nokkuð greiðlega fyrir sig enda er slíkt nauðsynlegt, sérstaklega í þeim tilvikum þegar lítið er eftir af aflamarki. Verði frumvarp um Kvótaþing að lögum þarf því að tryggja að framkvæmd við rekstur þingsins verði sem allra greiðust þannig að tryggt sé að flutningur aflamarks muni áfram ganga hratt og örugglega fyrir sig. Útgerðarfyrirtæki þyrftu að sjálfsögðu að laga sig að þessu breytta fyrirkomulagi og e.t.v. að skipuleggja flutning aflamarks með meiri fyrirvara en gert hefur verið.

Starfsemi Kvótaþings, eins og hér er lýst, mun hafa áhrif á sjávarútveginn í heild og tekjuskiptinguna á milli sjómanna, útgerðar og fiskvinnslu. Áhrifin fyrir einstakar áhafnir eða einstök fyrirtæki geta orðið misjöfn og leiða til ólíkra viðbragða. Meginatriðið er að margt bendir til þess að hagkvæmni í sjávarútvegi í heild geti aukist, ef vel tekst til með Kvótaþingið, og það getur stuðlað að bættum samskiptum útgerða og sjómanna til lengri framtíðar.

Herra forseti. Ég mun næst gera grein fyrir frv. til laga um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.

Með frumvarpi þessu er lagt til að lögfest verði ákvæði um Verðlagsstofu skiptaverðs og að ákvæðum núverandi laga um úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna verði breytt til samræmis við það.

Er frv. samhljóða þeim drögum að frv. sem samið var af nefnd þeirri sem skipuð var þann 11. febr. til að fjalla um atriði tengd kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna.

Verðlagsstofa skiptaverðs mun starfa í nánum tengslum við úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna. Hlutverk stofunnar verði að stuðla að réttu og eðlilegu uppgjöri á aflahlut sjómanna. Stofunni verði falið að afla ítarlegra gagna um fiskverð og vinna úr þeim upplýsingum. Slíkt hlutverk er nú í höndum úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna, sbr. 2. gr. laga nr. 84/1995, en nefndin hefur ekki haft bolmagn til að sinna því verkefni sem skyldi. Útvegsmönnum verður skylt að senda Verðlagsstofunni alla fiskverðssamninga milli áhafna og útvegsmanna og Fiskistofu verður skylt að láta stofunni í té allar nauðsynlegar upplýsingar. Sama á við um Fiskifélag Íslands og aðra aðila sem vinna í umboði Fiskistofu. Þá verður mjög víðtæk upplýsingaskylda gagnvart Verðlagsstofu vegna athugunar einstakra mála.

Nokkurrar tortryggni hefur gætt hjá forustumönnum samtaka sjómanna varðandi það hvort raunverulegt söluverð afla sé í öllum tilvikum lagt til grundvallar hlutaskiptum á þann hátt sem lög og kjarasamningar kveða á um. Verðlagsstofu verður falið að fylgjast með þessu, m.a. með úrtakskönnunum. Með því er unnt að slá á tortryggni án þess að fórna neinu varðandi leynd viðskiptaupplýsinga. Þagnarskyldu Verðlagsstofu er því einungis aflétt að upp komi misræmi og er henni þá gert að greina útgerð og áhöfn frá málavöxtum.

Meginhlutverk Verðlagsstofu skiptaverðs verður að fjalla um skiptaverð í einstökum tilvikum. Víki fiskverð við uppgjör á aflahlut sjómanna í verulegum atriðum frá því sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla á viðkomandi landsvæði, að teknu tilliti til stærðar og gæða, verður Verðlagsstofu rétt og skylt að skjóta málinu til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna.

Athugun stofunnar á tilteknu tilviki getur ýmist verið að frumkvæði hennar sjálfrar eftir athugun á opinberum verðupplýsingum og samningum eða samkvæmt ábendingum. Verðlagsstofa aflar allra opinberra gagna um fiskverð vikomandi skips og samninga útgerðar þess og áhafnar. Hún snýr sér síðan til útgerðar og krefst allra frekari upplýsinga sem hún metur nauðsynlegar og leitar umsagnar útgerðar og áhafnar um málið. Að þessu búnu tekur Verðlagsstofa ákvörðun um hvort máli verði skotið til úrskurðarnefndarinnar. Telji stofan ástæðu til málskots leggur hún málið fullbúið til ákvörðunar ásamt öllum upplýsingum fyrir úrskurðarnefndina. Telji Verðlagsstofa ekki ástæðu til málskots fær úrskurðarnefndin aldrei vitneskju um frumathugunina.

Málsmeðferð fyrir úrskurðarnefndina fylgir í meginatriðum ákvæðum núgildandi laga. Málið fer fyrst fyrir fulltrúa heildarsamtaka hagsmunaaðila sem hafa skamman tíma til lausnar á því en náist ekki samkomulag fer málið til fullskipaðrar nefndar. Úrskurðarnefndin mun eftir sem áður geta fjallað um mál sem heildarsamtök hagsmunaaðila skjóta til hennar vegna þess að ekki næst samkomulag um fiskverðssamning milli áhafnar og útgerðar. Í þeim tilvikum mun úrskurðarnefndin fela Verðlagsstofu gagnasöfnun.

Gert er ráð fyrir að úrskurðir nefndarinnar verði aðeins framvirkir líkt og nú er, þ.e. frá því að máli er skotið til nefndarinnar eða frá því að nefndin kemst að niðurstöðu. Komist nefndin að því að lágmarksverðsreglan hafi verið brotin kveður hún upp úrskurð um að um tiltekinn tíma, allt að þremur mánuðum, skuli fylgt verði sem algengast er í hliðstæðum viðskiptum að teknu tilliti til aðstæðna allra. Útgerðin tekur með öðrum orðum þá áhættu að vera úrskurðuð til að fylgja því verði sem algengast er í hliðstæðum viðskiptum ef hún fer niður fyrir lágmarksverð í uppgjöri við áhöfn. Ekki er unnt að leggja þá skyldu á útgerðarmenn að stunda útgerð með óbreyttu sniði á gildistíma úrskurðar. Hins vegar er ljóst að útgerðir geta rýrt gildi úrskurðar með því að leggja skipi eða gjörbreyta um útgerðarhætti. Í þeim tilvikum er lagt til að gera útgerð skylt að greiða áhöfn bætur fyrir það sem eftir lifir af gildistíma úrskurðar ef stöðvun á rekstri skips eða breyting á útgerðarháttum er ekki til komin vegna óviðráðanlegra aðstæðna.

Þá mæli ég, herra forseti, að lokum fyrir frv. til laga um breyting á lögum um stjórn fiskveiða.

Með þessu frumvarpi er lagt til að gerðar verði breytingar á reglum 12. gr. fiskveiðistjórnarlaga um framsal aflamarks til samræmis við tillögur í frumvarpi til laga um Kvótaþing.

Jafnframt er lagt til að veiðiskylda verði aukin þannig að skip þurfi að veiða 50% af samanlögðu aflamarki sínu á hverju fiskveiðiári en missi ella leyfi til veiða í atvinnuskyni og aflahlutdeild, en samkvæmt gildandi lögum þurfa skip að veiða 50% aflamarks annað hvert fiskveiðiár.

Er frv. samhljóða þeim drögum að frv. sem samið var af nefnd þeirri er skipuð var þann 11. febr. sl. til að fjalla um atriði tengd kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna.

Samkvæmt gildandi lögum um stjórn fiskveiða er almennt skilyrði fyrir flutningi aflamarks að það skip sem flutt er til hafi aflahlutdeild af þeirri tegund sem flutt er. Fiskistofa hefur heimild til að víkja frá þessu skilyrði og eru frávikin í reynd svo mörg að reglan er aðeins virk varðandi tiltölulega fáar tegundir, t.d. humar og innfjarðarrækju. Er lagt til að hið almenna skilyrði verði í ljósi þessarar framkvæmdar fellt niður en ráðherra þess í stað heimilt að ákveða með reglugerð að það gildi um tilteknar tegundir.

Samkvæmt frv. um Kvótaþing er gert ráð fyrir að meginreglan verði að viðskipti á Kvótaþingi séu forsenda flutnings aflamarks milli skipa sem ekki eru í eigu sömu útgerðar. Efnisákvæði þar um eru í frumvarpi til laga um Kvótaþing sem gerð hefur verið grein fyrir. Í 2. mgr. 1. gr. þess frv. er kveðið á um að flutningur aflamarks milli skipa í eigu sömu útgerðar, jöfn skipti á aflamarki og millifærsla af þeim tegundum sem mjög lítið er flutt af, geti eftir sem áður farið fram utan Kvótaþings. Öðlast flutningur þessi ekki gildi fyrr en Fiskistofa hefur staðfest hann.

Varðandi jöfn skipti á aflamarki þá er lagt til að miða skuli verðmætahlutföll við meðaltalsviðskiptaverð á Kvótaþingi í síðastliðinni viku. Hafi ekki átt sér stað viðskipti í þeirri viku yrði að líta til verðs í síðustu viku sem viðskipti áttu sér stað.

Viðskipti með aflamark af ákveðnum tegundum eru svo lítil að óraunhæft virðist að gera viðskipti á Kvótaþingi að skyldu. Hér má fyrst og fremst nefna viðskipti með aflaheimildir af einstökum stofnum innfjarðarrækju. Er lagt til að ráðherra geti að fengnum tillögum stjórnar Kvótaþings með reglugerð undanþegið slíkar tegundir viðskiptaskyldu á Kvótaþingi.

Samkvæmt núgildandi lögum er gerður munur á flutningi aflamarks milli skipa sem gerð eru út frá sömu verstöð og öðrum flutningi og er krafist umsagnar sveitarstjórnar og sjómannafélags í viðkomandi verstöð í síðarnefnda tilvikinu. Á Kvótaþingi vita kaupendur og seljendur ekki hvor af öðrum og því er ekki hægt að setja skilyrði fyrir flutningi aflamarks eftir því hver kaupandinn er. Því er lagt til að þetta ákvæði verði fellt niður.

Í 5. mgr. 2. gr. er lagt til að leyfi skips til veiða í atvinnuskyni og aflahlutdeild þess falli niður ef það veiðir ekki a.m.k. 50% af samanlögðu aflamarki sínu á hverju fiskveiðiári. Samkvæmt núgildandi ákvæði þarf að veiða a.m.k. 50% aflamarks annað hvert ár. Að öðru leyti eru skilyrði þessarar málsgreinar óbreytt frá gildandi lögum. Þó er lagt til að óheimilt verði að veita skipi sem ekki veiðir 50% af aflamarki sínu eitthvert fiskveiðiár veiðileyfi á næstu þremur fiskveiðiárum þótt skilyrðum sé að öðru leyti fullnægt, m.a. varðandi úreldingu í þess stað. Er þetta gert til að koma í veg fyrir að unnt sé að komast hjá ákvæðinu með því að flytja veiðileyfi af skipi í lok fiskveiðiárs og síðan til baka í upphafi þess næsta.

Aukin veiðiskylda mun stuðla að því að aflahlutdeild verði eingöngu á skipum sem stunda reglubundnar fiskveiðar. Mun breytingin stuðla að því að aflahlutdeild verði færð til þeirra skipa sem veiðarnar stunda og því draga úr umfangi óeðlilegra aflamarksflutninga, en tengsl þeirra við fiskverð til uppgjörs á aflahlut sjómanna hafa verið í brennidepli í kjaradeilum sjómanna og útvegsmanna á undanförnum árum. Mikilvægt er að þessi aukna veiðiskylda dragi ekki úr sveigjanleika fiskveiðistjórnarkerfisins. Verði það gert mun draga úr möguleikum einstakra útgerða til að hagræða í rekstri. Þá mun það draga úr möguleikum nýrra aðila til að hasla sér völl í útgerð en þeir byrja margir með því að festa kaup á skipum með litlar aflaheimildir og þurfa því að reiða sig á nægjanlegt framboð aflamarks.

Herra forseti. Ég hef þá í öllum meginatriðum gert grein fyrir efnisákvæðum þeirra fjögurra frv. sem hér liggja fyrir og eru sameiginlega til umræðu. Ég legg til að frumvörpunum verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og til meðferðar hv. sjútvn.