Kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 25. mars 1998, kl. 14:43:13 (5150)

1998-03-25 14:43:13# 122. lþ. 94.7 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 122. lþ.

[14:43]

Kristinn H. Gunnarsson(andsvar):

Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að bregðast þegar við þeim röksemdum sem hæstv. sjútvrh. færði fram fyrir inngripi ríkisstjórnarinnar í viðræður deiluaðila um gerð nýs kjarasamnings. Ríkisstjórnin rökstyður inngrip sitt með þeim rökum að verkfallið hafi áhrif, að það hafi áhrif á fiskvinnsluna þar sem bátar róa ekki dögum saman.

Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að benda á að með þessum rökum hefur ríkisstjórnin lýst þeirri skoðun sinni að sjómannastéttin eigi ekki meðan þessi ríkisstjórn situr og reyndar lengur að hafa leyfi til að grípa til verkfalla. Það er skír og klár afstaða ríkisstjórnarinnar að sjómenn megi ekki undir neinum kringumstæðum hafa það vopn í hendi sinni sem verkalýðshreyfingunni er dýrmætast, þ.e. að geta beitt verkfalli í kjaradeilu. Það er nauðsynlegt, herra forseti, að draga hér skýrt fram þannig að fyrir liggi þessi afstaða ríkisstjórnarinnar sem var undirstrikuð með röksemd hæstv. sjútvrh., að þar sem verkfall hefur áhrif á fiskvinnslu þá þykir rétt að banna verkfall.

Ég get ekki séð fyrir mér, herra forseti, að ríkisstjórnin telji rétt að leyfa verkfall í nokkru tilviki eftir þessa skilgreiningu.