Kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 25. mars 1998, kl. 14:50:59 (5155)

1998-03-25 14:50:59# 122. lþ. 94.7 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 122. lþ.

[14:50]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Það var alveg ljóst að atkvæðagreiðslan um miðlunartillögu ríkissáttasemjara snerist ekki um frv. Frv. voru hins vegar forsenda fyrir þeirri tillögu og þau hafa nú verið lögð fram óbreytt eins og nefndin gekk frá þeim og koma þannig til meðferðar hjá hv. sjútvn. og það er ósk ríkisstjórnarinnar að nefndin afgreiði frv. þannig. Það getur vel verið að við skoðun á frv. komi einhverjir tæknilegir gallar í ljós sem við höfum ekki séð. Ég get ekki fullyrt um það en það er ósk okkar að frv. verði afgreidd eins og þau liggja fyrir en auðvitað er ekki hægt að binda hendur nefndarinnar ef einhverjir slíkir gallar koma fram og þeir geta auðvitað lotið að hagsmunum beggja aðila í deilunni. Ég er ekki með neinar hugmyndir uppi í því efni en þessi ósk er að þessu leyti mjög skýr.