Kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 25. mars 1998, kl. 16:11:57 (5164)

1998-03-25 16:11:57# 122. lþ. 94.7 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 122. lþ.

[16:11]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér eru fjögur frv. til umræðu í einu, hvorki meira né minna. Þeim er ætlað að binda enda á verkfall sjómanna, ef svo mætti segja.

Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að byrja umfjöllun mína með reynslusögu af fundi sem ég var á í gær. Þar komum við, konur úr stjórnarandstöðuflokkunum, saman til að hlusta á konur. Þar hlustuðum við á skoðanir þeirra á stöðu sinni í þjóðfélaginu og til landsmála almennt. Jafnréttismál kynjanna bar eðlilega mikið á góma og hið illræmda launamisrétti kynjanna. Í því sambandi furðuðu fundarkonur sig á því að um leið og ein hæstlaunaða stétt landsins færi í verkfall þá yrði allt vitlaust og lög sett á stéttina. Þessir sjómenn eru hundóánægðir með sín kjör, þrátt fyrir himinhá laun, eins og konurnar orðuðu það.

Hver var samanburðurinn? Jú, það voru laun kvenna í þessu landi. Einnig var talað um hve skrýtið það væri að svo fáar konur væru sjómenn. Jafnvel þó þær reyndu að komast á sjó þá fengju þær ekki pláss.

Ég tek þetta fram hér, herra forseti, ekki til þess að býsnast yfir launum sjómanna, heldur til þess að minna á samhengi umræðunnar í þessari kjaradeilu og hina gífurlegu mismunun sem á sér stað í þessu þjóðfélagi, launamismunun. Sjómönnum finnst sín kjör ekki nógu góð þegar kjarasamningar þeirra eru brotnir æ ofan í æ, m.a. vegna kvótabrasks og viðskipta með fisk milli skyldra aðila. Launin teljast heldur ekki nógu góð vegna þess að viðmiðunarhópar þeirra eru ekki aðrir verkamenn, verkakonur eða fólkið í frystihúsum landsins, sem einnig vinnur við sjávarútveg.

[16:15]

Nei, viðmiðunarhópar sjómanna eru útgerðarmenn, útgerðarmenn sem fá gjafakvóta þjóðarinnar á silfurfati og þurfa aðstoð ríkisvaldsins til að greiða laun sjómanna samanber sjómannaafsláttinn en geta samt ekki eins og aðrir atvinnurekendur samið við sína starfsmenn um kaup og kjör.

Virðulegi forseti. Allt frá því að framsal á veiðiheimildum var almennt heimilað árið 1990 hafa kjaramál sjómanna verið í uppnámi og oftsinnis komið til verkfalla. Oftar en ekki hafa verið sett lög á þessar kjaradeilur af því að starfsumhverfið er slíkt að réttlætiskennd sjómanna er misboðið og það sem meira er, gildandi kjarasamningar eru virtir að vettugi, þ.e. sjómenn hafa þurft að taka þátt í kvótabraski án þess að teljast eigendur keypts kvóta og misst við það laun og þeir hafa ekki fengið markaðsverð fyrir aflann eins og kveðið er á um í þeirra samningum.

Grundvöllur þessarar óánægju er sá að mínu mati að fiskveiðistjórnarkerfið er útfært þannig að stefnt er að hámarksframleiðni, sem vissulega er gott, án þess að taka mið af grundvallarforsendum réttlætis og félagslegra sjónarmiða.

Ég hef kynnt mér, herra forseti, grundvallarlöggjöf Bandaríkjanna um fiskveiðistjórnun, svokallaða Magnuson-Stevenson Act sem ég vil líta á sem nokkurs konar grunnlög um kvótamál í Bandaríkjunum. Ég hef velt því fyrir mér, herra forseti, hvort hér þurfi ekki að setja ákveðin ákvæði inn í stjórnarskrá um að það verði að stjórna fiskveiðunum þannig að þjóðin í landinu geti verið sátt við stjórnina. Í þessum áðurnefndu bandarísku lögum er m.a. kveðið á um það að taka verði mið af hagkvæmnissjónarmiðum en auk þess verði að hafa í huga hagsmuni sjómanna, hagsmuni fiskvinnslufólks, ekki síst kvenna sem vinna við þau störf og hagsmuni sjávarbyggða auk hagsmuna útgerðarmanna.

Það er mín skoðun, herra forseti, að það ástand sem varir í samskiptum sjómanna og útgerðarmanna muni ekki verða viðunandi fyrr en lagaumhverfið breytist til muna og nokkuð meira en lagt er til í þeim fjórum frumvörpum sem hér eru til umræðu. Ég mun fá tækifæri til þess að fara í smáatriðum ofan í efni þessara frumvarpa í hv. sjútvn. og mun því ekki ræða efnislega um fylgifrumvörpin þrjú. Mér sýnist þó í fljótu bragði að í frv. um Kvótaþing og í frv. um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sé verið að taka á viðkvæmum deilumálum sjómanna og útgerðarmanna um fiskverð og kvótasölu og fagna því að sjómenn hafa samþykkt þá útfærslu sem þar kemur fram.

Varðandi þá spurningu sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson lagði fyrir hæstv. sjútvrh. um það hvort ætlunin sé að lögfesta þessi frv. óbreytt eða ekki, þá vil ég taka það fram að það hlýtur formlega að vera réttur þingsins að hafa frelsi til að gera þær athugasemdir við frv. sem nauðsynlegar þykja því að almennt er því ekki tekið vel af okkur þingmönnum ef inn í þingið kemur frv. og sagt er: ,,Það má ekki breyta einum staf.`` Þingið setur lög landsins hvort sem þau eiga við um sjávarútveginn eða annað og þingnefndin hlýtur því að fara yfir málið í heild vitandi reyndar að sjómenn hafa samþykkt frumvörpin í þeirri mynd sem þau eru nú. Ég tel þó mikilvægt að frumvörpunum verði ekki breytt núna í trássi við vilja sjómanna vegna þess að hér er verið að setja lög enn einu sinni á kjarasamninga þeirra sem auðvitað er með öllu óþolandi.

Þriðja fylgifrv. er um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Þar er eitt ákvæði sem ég fagna sérstaklega, nefnilega að veiðiskylda er aukin upp í 50% á ári frá 50% annað hvert ár. Ég tel reyndar að veiðiskyldan hefði getað aukist meira án þess að nauðsynlegur sveigjanleiki kerfisins sé heftur um of. Það er grundvallaratriði að mínu mati að þau miklu verðmæti sem aflamarkið er fari til þeirra sem veiða í reynd en ekki til þeirra sem voru svo heppnir að stunda fiskveiðar á árunum 1980--1983 þegar þessu kerfi var komið á eins og reyndin er nú.

Fjórða frv. um kjaramál fiskimanna er auðvitað meginmálið hér þar sem hin frumvörpin eru aðeins nauðsynlegar breytingar á lagaumhverfi en ekki nægjanlegar og ekki kjarasamningur. Í þessu fjórða frv. er tekið beint á kjaramálum sjómanna með því í fyrsta lagi að banna kjaradeilur sjómanna til 15. febrúar árið 2000.

Í öðru lagi á að lögfesta miðlunartillögu ríkissáttasemjara en þar er m.a. kveðið á um 13% hækkun kaupliða við gildistöku og 3,65% til viðbótar 1. janúar 1999. Þessa miðlunartillögu hafa sjómenn samþykkt en útvegsmenn ekki.

Hitt nýmæli þessa frv. er þó 2. gr. þar sem kveðið er á um að fækkun í áhöfn eigi ekki að hafa aukin útgjöld í för með sér fyrir útgerðarmenn. Það er að mínu mati ekkert skrýtið að sjómenn tækju ákvæði 1. mgr. 2. gr. þessa frv. mjög illa þegar þeim var kynnt þessi grein þar sem það er alveg ljóst að hér er um verulega kjaraskerðingu að ræða fyrir skipstjóra, vélstjóra og háseta frá því sem nú er. Þetta kemur m.a. fram í gögnum sem við þingmenn fengum í morgun frá Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. Þetta var á fundi þingmanna Reykjaness með félögum úr Vísi frá Suðurnesjum. Af þessum gögnum má ljóst vera að þetta ákvæði mundi skerða kjör sjómanna verulega. Það er því ánægjuefni að sjútvrh. hefur samþykkt fyrir sitt leyti að þessu ákvæði verður breytt eftir tillögum sjútvn. Það er reyndar forsenda þess að mínu mati að við stjórnarandstöðuþingmenn mótmæltum því ekki að þetta frv. yrði tekið til umræðu, a.m.k. segi ég það fyrir mig sjálfa.

Virðulegi forseti. Ég leyfði mér í upphafi ræðu minnar að bera saman kjör sjómanna og kjör láglaunakvenna til að benda á þær gífurlegu launaandstæður sem til staðar eru í landinu. Ein konan á áðurnefndum fundi sagði: ,,Ef ég bara hefði mánaðarlaun sjómannsins í árslaun þá væri ég ánægð.`` Þetta er því miður raunveruleikinn.

Með þessu er ég alls ekki að draga úr mikilvægi sjómannastéttarinnar og sjávarútvegsins í heild. Því miður er það enn svo að við Íslendingar erum allt of háðir þessari einu auðlind og löngu er tímabært að styrkja fleiri atvinnugreinar til þess að styrkja atvinnulífið og kjörin í þessu landi fyrir alla, konur jafnt sem karla. En eins og er er mjög mikilvægt að reka okkar sjávarútveg á hagkvæman hátt án þess að skipta þjóðinni upp eftir því hvort hún er með eða móti fiskveiðistjórnarkerfinu. Til þess þarf breytt kerfi um stjórn fiskveiða þar sem byggðum landsins er tryggður kvóti svo og sjómönnum og fiskvinnslustöðvum. Það kerfi sem nú er við lýði býður upp á átök sem vekja óþarfa andúð landsmanna sem ekki stunda sjávarútveg á útvegsmönnum og jafnvel sjómönnum. Þetta kerfi er svo ómanneskjulegt að sjálfsögð mannréttindi heillar stéttar, þ.e. verkfallsréttur sjómanna, eru tekinn af þeim ár eftir ár. Það ástand er framlengt með því frv. um kjaramál fiskimanna sem hér er til umræðu og því er ég mótfallin.

Það er skylda okkar alþingismanna að búa sjávarútveginum það lagalega umhverfi að útgerðarmenn og sjómenn geti samið eins og siðmenntað fólk og það hlýtur að vera verkefnið sem við blasir nú, a.m.k. fyrir næstu kosningar.