Kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 25. mars 1998, kl. 17:02:35 (5167)

1998-03-25 17:02:35# 122. lþ. 94.7 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 122. lþ.

[17:02]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Segja má að sú umræða sem stendur yfir og hefur staðið í dag hafi í rauninni byrjað fyrir mörgum árum og aðdragandi hennar er mjög langur, margra ára gamall. Segja má að deilur á milli sjómannasamtaka og útgerðaraðila hafi farið fram hjá þjóðinni og að þessar stríðandi fylkingar hafi ekki getað komið sér saman um það hvernig skuli semja um kjör og skiptingu kökunnar. Þess vegna ætti ekki að koma á óvart að þessi umræða skuli standa í heilan dag.

Það má ljóst vera að eitt skilyrði af hálfu sjómannasamtakanna fyrir lausn á hinni langvinnu kjaradeilu séu þrjú lagafrv. samin af svonefndri þriggja manna nefnd. Talsmenn sjómanna hafa lagt ofuráherslu á þá lagasetningu. Það hefur komið ítrekað skýrt fram í ræðum þeirra, í yfirlýsingum í fjölmiðlum og þannig má áfram telja. Þess vegna er í alla staði eðlilegt að þau komi fram á þessari stundu á Alþingi til umræðu því að það er eins og ég ítreka og ég nefndi áðan, forsenda af hálfu forsvarsmanna sjómannasamtakanna.

Miðlunartillaga sáttasemjara var samþykkt af samtökum sjómanna en felld af útvegsmönnum. Sú tillaga er meginstofn í fjórða frv. sem er til umfjöllunar, tillaga sem sjómenn hafa samþykkt í röðum sínum. Við hana er reyndar bætt tveimur atriðum og ég tel sú yfirlýsing skipta miklu sem hæstv. sjútvrh. gaf í upphafi ræðunnar þar sem atriði sem varðar 2. gr. og felur í raun í sér að hlutaskiptin skuli vera óbreytt. Með öðrum orðum að sá misskilningur sem áður hefur komið fram um skerðingu í garð sjómanna er leiðréttur. Ég tel það grundvallaratriði og það liggur fyrir með yfirlýsingu hæstv. sjútvrh. Að stofni til er efni frv. fjögurra því að langmestu leyti í þeim anda sem samtök sjómanna hafa beitt sér fyrir. Bróðurparturinn er að kröfu sjómanna forsenda fyrir sáttum í deilunni eins og fram hefur komið frá talsmönnum þeirra. Með þessar forsendur í huga má segja að nánast sé útilokað að afgreiða allan pakkann ef svo má að orði komast án þinglegrar meðferðar og þess vegna koma málinu til umræðu.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna. Hér hefur verið farið mjög ítarlega yfir einstaka þætti, bæði í framsöguræðu hæstv. sjútvrh. sem og í ræðum einstakra hv. þm. Ég vil þó aðeins nefna örfá atriði og nefni þar fyrst frv. til laga um Kvótaþing.

Nú er það svo eins og öllum er kunnugt að forsenda og lykill fyrir því fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum við núna er framsal þannig að greinin sjálf geti leitað hagræðingar, þannig að kostur útgerðarinnar verði sem hagkvæmastur, þannig að verðmætin náist sem mest og kakan þannig sem stærst áður en til skiptanna kemur. En það fer ekki milli mála að um þetta frjálsa framsal hefur verið deilt og verður ugglaust deilt um ókomna tíð en það er rétt að leggja þunga áherslu á að í megindráttum hafa þessir þættir gengið afskaplega eðlilega og vel fyrir sig.

Á hinn bóginn má í rauninni líta á það sem kalla mætti undantekningartilvikin þar sem menn hafa í raun reynt að fara á svig við allar eðlilegar leikreglur í þessum þætti og það eru þær undantekningar sem má segja að hafi kallað fram spennu og mönnum hefur reyndar hætt dálítið til að alhæfa út frá þessum undantekningartilvikum. En ég ítreka að ég trúi að það sé skoðun flestra að í það heila tekið hafi leikreglurnar gengið upp. En vegna þeirrar spennu hefur sú krafa komið ekki síst frá sjómannasamtökunum að komið verði á Kvótaþingi til að herða kröfurnar og ná utan um framsalið þannig að þessi undantekningartilvik heyri fortíðinni til. Það er með öðrum orðum sett fram til þess að draga úr spennu, til þess að létta á þeirri spennu sem upp er komin.

Ljóst er að þar eru veittar ákveðnar undanþágur. Ég ætla ekki að rekja efni frv. Það hefur þegar verið gert út á hvað það gengur en þar er gert ráð fyrir eðlilegum viðskiptum í gegnum svonefnt Kvótaþing. Undanþágur eru veittar eins og segir í 1. gr. þegar um er að ræða m.a. jöfn skipti á tegundum og skipti innan sömu útgerðar.

Hins vegar hafa áhyggjuraddir heyrst og þær eðlilegar þar sem menn benda m.a. á að útgerð sem jafnframt á vinnslu þurfi ekki að fara í gegnum Kvótaþingið og einyrkjar svonefndir, þeir sem eingöngu eru með útgerð, standi þar ekki jafnfætis þeim sem eru jafnframt með vinnslu. Þess vegna hafa þær spurningar komið upp og réttilega hvort það standist í rauninni samkeppnislög eða hvort jafnræðisreglu sé gætt gagnvart ólíkum útgerðarformum, þ.e. þeir sem eru eingöngu með útgerð annars vegar og hins vegar þeir sem eru með útgerð og vinnslu. Það er atriði sem er ástæða til þess að skoða og trúi ég að það muni verða gert í hv. sjútvn. þegar málið kemur inn á borð til þeirrar ágætu nefndar.

Ég vil rétt að lokum segja um þennan þátt að menn leggja á það þunga áherslu að Kvótaþing komi til þess að draga úr spennu, til þess að gera viðskiptin sýnilegri, eðlilegri og draga þar með úr tortryggni.

Hvað varðar veiðiskylduna í öðru frv., sem kemur þá í frv. til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, er verið að þrengja verulega veiðiskylduna. Í stað þess að vera 50% annað hvert ár þá skuli hún vera 50% árlega. Þetta er komið inn af sömu ástæðu og ég rakti um Kvótaþingið. Enn tengist það framsalinu og þeirri tortryggni sem hefur komið upp varðandi framsalið og enn minni ég á að þar eru það undantekningarnar sem hafa meira verið blásnar upp og hrókaræður haldnar um en í flestum tilvikum hafa þessi viðskipti gengið eðlilega fyrir sig.

Menn hafa tengt umræðunni svonefnt kvótabrask þó að það sé varasamt að nota slíkt orð því að það er oft mjög erfitt að skilgreina hvað menn eiga við með því og sú umræða vill hlaupa út og suður. En ég tel rétt að benda á það eins og hér hefur reyndar verið gert að útgerðir einstakra landshluta eru misjafnlega settar. Einkum á Suður- og Vesturlandi er töluvert um svonefnda leiguliða sem hafa getað stundað útgerð sína vegna þess að þeir hafa haft möguleika á því að leigja aflaheimildir. Menn óttast það og benda réttilega á að með þessari þrengingu kunni að verða saumað illilega að þessum einyrkjum og sumir óttast jafnvel að slík útgerð kunni í einhverjum tilvikum að leggjast af. Það hlýtur að vera áhyggjuefni út frá byggðasjónarmiði og út frá jafnræðisreglu.

Eins og hefur verið bent á í umræðunni eru einstök atriði varðandi veiðiskylduna sem hv. sjútvn þarf að taka vel til skoðunar. Það eru viðbrögð vegna eðlilegra frátafa, vegna svonefndra ,,force majeure``-ákvæða og trúi ég að það muni einnig verða gert í nefndinni.

Hvað varðar verðmyndunarþáttinn er rétt að minna enn einu sinni á það að frá því að útgerð á Íslandi var stunduð á árabátum hafa menn verið að deila um verðmyndunina um skiptingu kökunnar. Menn byrjuðu þá deilu í fjörukambi meðan útgerð var stunduð eingöngu með árabátum og sú deila hefur haldist alveg frá þeim tíma og mun haldast meðan menn gera út á Íslandi. Ítrekað hefur verið reynt að taka á því máli í gegnum tíðina. Menn hafa sett á úrskurðarnefndir, verðlagsráð og alls konar ráð og nefndir til þess að taka á þessum málum en það hefur einfaldlega ekki gengið af ýmsum ástæðum og ætla ég ekki að lengja umræðuna með því að freista þess að telja upp þær ástæður.

Með einu þessara frv., frv. til laga um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, er rétt einu sinni verið að freista þess að koma böndum á þá tortryggni sem hefur einkum gætt meðal sjómannasamtakanna varðandi verðmyndunina, annars vegar með úrskurðarnefnd og hins vegar með Verðlagsstofu skiptaverðs. Um það má heyra að fulltrúar sjómanna eru sáttir og er í rauninni ekki annað um það að segja en að menn trúi því að verði frv. að lögum, að þá leiði þetta fyrirkomulag til þess að draga muni úr spennu varðandi þennan þátt og þau mál komist í eðlilegt horf þó ugglaust verði ávallt áfram til deilur um þennan mikilvæga þátt, um skiptingu kökunnar og verðmyndunina.

Ég ítreka það sem kom fram í upphafi umræðunnar í máli hæstv. sjútvrh. um 2. gr. þar sem hæstv. ráðherra lýsti því yfir hver hugsunin væri þar á bak við.

Þetta tel ég, herra forseti, að séu megindrættirnir í þessum fjórum frv. og ætla mér ekki að fara frekar út í saumana á þeim enda hefur það verið gert mjög ítarlega í ræðum manna hér.

Þó er alveg ljóst, herra forseti, að efni þessara fjögurra frv. draga mjög svo taum sjómanna enda hygg ég að sjómannasamtökin séu að mestu leyti sátt um efni þeirra og bróðurparturinn af þessum frv. er reynar þess efnis að sjómannasamtökin hafa krafist þess af hv. Alþingi að þau frv. verði gerð að lögum.

[17:15]

Hins vegar ber að líta á það að frumvörpin munu leiða til aukins kostnaðar fyrir útgerð. Það fer ekkert á milli mála og þarf ekkert mjög flókna útreikninga til þess að sjá það. Þá er líka vert að hafa í huga hvaða áhrif það hefur á þróun útgerðar hérlendis, ekki síst varðandi þróun fiskiskipaflota okkar, endurnýjunar tæknibúnaðar og þar fram eftir götunum. Hins vegar má segja að 90--99% af þessum pakka sé sjómönnum hagstæður en á kostnað útgerðar og er þess vegna ekki að undra að útvegsmenn skuli heldur vera ósáttir við drjúgan hluta af þessu.

Þá að lokum, herra forseti. Hér hefur þingið gripið inn í þessa deilu. Eins og ítrekað hefur komið fram í ræðum manna þá hygg ég að allir hv. alþingismenn séu sammála því meginsjónarmiði að óeðlilegt sé að Alþingi grípi inn í vinnudeilur. Það er meginregla. En saga þingsins segir okkur að ítrekað hefur það gerst og hygg ég að allir hefðbundnir flokkar hafi gert sig, ef svo má segja, seka um slíkt. Það gera menn auðvitað ekki nema nauðir reki til, þegar í verulegt óefni er komið og þjóðarhagsmunir taldir vera í húfi. Þetta hefur sem sagt margsinnis verið gert eins og saga þingsins segir.

Líka er vert að ítreka það að hér hefur átt sér stað deila sem hefur staðið í langan tíma og augljóst að deiluaðilar virðast ekki hafa getað komið sér saman. Það má segja, herra forseti, að það sé í rauninni sorglegt fyrir þjóðina að hlusta á aðdróttanir og harkalegar yfirlýsingar deiluaðila í fjölmiðlum og brigsl á báða bóga. Það er sorglegt að talsmenn þessara tveggja hópa, annars vegar útvegsmanna og hins vegar sjómannastéttarinnar, sem hefur verið trúað fyrir þessari auðlind þjóðarinnar, skuli ekki hafa getað náð saman. Og miðað við þau gífuryrði sem heyrst hafa í fjölmiðlum hlýtur maður að spyrja sjálfan sig hvort málið sé komið á slíkt persónulegt stig að það sé farið að verða hindrun fyrir eðlilegan gang viðræðna. Það er sorglegt að heyra þetta og hlýtur að vekja menn til mikillar umhugsunar.

Hins vegar er rétt að ítreka það að hér er um þjóðarhagsmuni að ræða. Þetta er ekki einkamál sjómanna og útgerðar. Hér er það landvinnslan ekki síður og efnhagslífið allt saman sem er í húfi og einstök byggðarlög. Það er nú einu sinni svo að efnahagslíf okkar er að langsamlega mestu leyti háð sjávarútvegi og þeim verðmætum sem dregin eru úr sjó. Það hefur mismikil áhrif á einstök byggðarlög en vissulega er landvinnslan sem grunnur að atvinnu margra byggðarlaga, ekki síst úti á landi, í hættu, hvað þá ný fyrirtæki sem hafa verið að hasla sér völl á síðustu mánuðum í þessari grein og standa nú frammi fyrir hráefnisskorti.

Meginatriðið í þessu, og ég hygg að flestir séu sammála um það, er að koma flotanum af stað og hefur með þessum frv., trúi ég, verið gengið mjög langt í samningaátt. En það er rétt, herra forseti, að benda einnig á að lokum að þó þessi frv. verði að lögum þá útilokar ekkert að talsmenn útvegsmanna og sjómanna geti haldið áfram að lagfæra sín mál og reyna að komast að samkomulagi sem hlýtur að vera meginmarkmiðið. Það er ekkert sem útilokar það að þessir aðilar geti haldið áfram að ræða saman og það held ég að allir hljóti að vona að muni gerast þannig að langþráður friður geti skapast um þessa eina mikilvægustu atvinnugrein í efnahagslífi okkar.