Kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 25. mars 1998, kl. 18:41:01 (5171)

1998-03-25 18:41:01# 122. lþ. 94.7 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 122. lþ.

[18:41]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Það er dapurlegt hlutskipti að þurfa að setja lög á deilu sjómanna og útgerðarmanna. Það er hins vegar engu að síður nauðsynlegt. Þau frumvörp sem hér er verið að ræða og eiga að leysa deiluna eru tvíeggjað sverð og áhrif þeirra eru engan veginn ljós. Það sem ég hef mestar áhyggjur af er frv. um Kvótaþingið og frv. um veiðiskylduna. Þótt margt sé við kvótakerfið sem má gagnrýna er í mínum huga engum vafa undirorpið að það hefur leitt til meiri hagkvæmni í sjávarútvegi á Íslandi en annars staðar gerist og gert það að verkum að okkar sjávarútvegur er sá eini við norðanvert Atlantshaf sem ber sig og reyndar meira en það, hann stendur undir okkar þjóðarbúi. Það er sveigjanleikinn í slíku kerfi, hið frjálsa framsal sem er fyrst og fremst grundvöllurinn að afkomu þessarar greinar í dag og þeim bata sem þar hefur á orðið á undanförnum árum. Ég hef þess vegna áhyggjur af því ef framsalið verður takmarkað, að það muni koma niður á rekstrarhagkvæmni útgerðanna. Ég hef sérstaklega áhyggjur af því að það muni koma niður á hinum minni útgerðum, einstaklingsútgerðunum og fjölskylduútgerðunum, sem hafa verið að kaupa og aðallega leigja til sín aflaheimildir annars staðar frá og hætt við því að slíkar breytingar muni leiða til þess að möguleikar þeirra til að stunda útgerðina minnki.

Það er hins vegar afar erfitt að vera á móti Kvótaþingi, erfitt að vera á móti því að viðskiptin fari um gagnsæjan markað þar sem ljóst er að um engin undirmál er að ræða, enda hefur eitt helsta deilumálið verið það að ekki sé réttilega staðið að því að leigja heimildir og gagnstætt því sem kveðið er á um í samningum eru sjómenn látnir taka þátt í kaupunum. Ég get af þeim sökum engan veginn verið á móti Kvótaþingi, en ég hef aftur á móti áhyggjur af að það geti haft neikvæð áhrif fyrir einhverjar útgerðir. En ég verð að treysta því að frelsið sem í þessu er fólgið muni einnig leiða til þess að útgerðarmenn finni leiðir til að fjármagna kvótaleigu og kvótakaup þannig að einstaklingsútgerðir muni áfram vera til í okkar sjávarútvegi og eiga möguleika á að keppa um veiðileyfin og kvótann við hin stóru almenningshlutafélög.

Ég hef öllu meiri efasemdir um að takmarka kvótaframsalið eða réttara sagt að auka veiðiskylduna í það sem lagt er til í frv. Ég er hræddur um að þegar til lengri tíma er litið muni það hafa áhrif til hækkunar á leigu kvóta vegna minna framboðs og hafa þau sömu áhrif, sem ég hef áður nefnt, á hinar minni útgerðir, einstaklingsútgerðir og bátaútgerðina sérstaklega, en það má segja að bátaútgerðin sé mest á stöðum eins og Hornafirði, Vestmannaeyjum, Suðurnesjum, Snæfellsnesi og sunnanverðum Vestfjörðum.

[18:45]

Ég hef áhyggjur af því að þessar útgerðir muni lenda í vanda af þessum sökum. En einhvern veginn verður að leysa deiluna og það er orðið ljóst og það fyrir allnokkru að deilan mundi ekki leysast nema á grundvelli þessara laga. Bátaútgerðin og einstaklingsútgerðin standa ekkert betur eftir langt verkfall og við verðum einungis að vona að innan þessa nýja ramma nái útgerðarmennirnir, vonandi í góðri samvinnu við sjómenn, að þróa atvinnustarfsemi sína þannig að hún haldi áfram að skila því sem hún hefur hingað til skilað í þjóðarbúið, haldi áfram að veita þá atvinnu bæði á sjó og landi sem hún hefur gert hingað til. Í trausti þess að svo verði, að deilan leysist og að við fáum nokkurn frið til að sinna þessari atvinnustarfsemi mun ég styðja þau frv. sem hafa verið lögð fram. Ég ætlast hins vegar til að farið verði rækilega yfir þau í nefndinni og ef upp komi einhver vandamál sem augljóslega mættu betur fara, sýni báðir samningsaðilarnir sem verið er að reyna að leysa deiluna fyrir, skilning á því og taki þátt í að reyna að leysa málið frekar en að setja sig upp á móti augljósum og nauðsynlegum breytingum á frv.

Ég endurtek, herra forseti, að ég vonast til að þetta verði til gæfu fyrir okkur þótt óneitanlega búi uggur í mínu brjósti.