Kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 25. mars 1998, kl. 21:01:05 (5176)

1998-03-25 21:01:05# 122. lþ. 94.7 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 122. lþ.

[21:01]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Árni Johnsen kom víða við og af mörgu er að taka. Hann taldi ófært að þau endurmenntunarnámskeið sem væri getið um í frv. til laga um kjaramál fiskimanna skyldu menn sækja til Reykjavíkur. Þetta er misskilningur vegna þess að talað er um að það skuli nánar getið um hvar námskeiðin skuli haldin og hvernig eins og segir hér, með leyfi forseta:

,,Til viðbótar námskeiðum samkvæmt tilgreindum lista geti önnur námsekið staðið yfirmönnum til boða samkvæmt nánara samkomulagi milli útgerðar og yfirmanna``. Hér er líka getið um endurmenntun vélstjóra: ,,Hlutverk nefndarinnar er að taka ákvörðun um hvaða námskeið skuli boðið upp á, hvar og hvenær þau eru haldin``.

Það fer mjög í taugarnar á mér og pirrar mig þegar ágætir þingmenn dreifbýlisins koma hér og telja að það sé allt af hinu illa ef Reykjavík er nefnd í þessu sambandi. Hins vegar er ekkert vit í því að dreifa dýrum kennslutækjum út um allt land. Námskeiðin eru þess eðlis að það er eðlilegt að undir þau sé vel byggt, veitt sé mikið fjármagn í það vegna þess að ein brú í skipi kostar nokkur hundruð milljónir og það er ekki nema eðlilegt að talsvert sé lagt í það að kennslutæki séu þannig úr garði gerð að þau geti mætt þeim kröfum sem gerðar eru núna, t.d. til skipstjórnarmanna. Sama á við um vélstjórana og síðan kemur náttúrlega að þeim sem verða fyrir mestum slysum, það eru hinir vinnandi menn á dekki, og þar er talað um Slysavarnaskólann. En það þarf þó nokkuð meira til að leggja. Það stendur til nú að kaupa nýtt skip fyrir Slysavarnaskóla sjómanna og þá mun það væntanlega sigla til hinna ýmsu hafna eins og Sæbjörgin hefur gert.