Kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 25. mars 1998, kl. 21:30:08 (5181)

1998-03-25 21:30:08# 122. lþ. 94.7 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, GÁ
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 122. lþ.

[21:30]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Hér þarf ekki að hafa mörg orð. Það er harmsefni þegar Alþingi verður að grípa inn í kjaradeilur. Lýðræðið er að bíða mikið afhroð þegar aðilar á vinnumarkaði koma sér ekki saman um nýjan kjarasamning og slíkt strandar aftur og aftur eins og nú hefur gerst. Stóryrði falla og klögumálin ganga á víxl og í raun er erfitt fyrir hinn almenna mann í þjóðfélaginu að átta sig á deilunni, slíkir sérfræðingar í þrætulist koma hér þannig fram.

Ég tel að bæði útgerðarmenn og sjómenn verði að líta í eigin barm og íhuga hvort ekki sé rétt að skipta um forustumenn í öllum samtökum sem að málinu koma, a.m.k. þá sem í Karphúsinu sitja. Auðvitað hefði átt að skipta um samninganefnd. Framkoma þeirra manna sem hafa farið fyrir deiluaðilum hefur minnt á spaugstofu í mínum huga. Það hefur verið gengið fram með þeim hætti. (SJS: Ljótt er að heyra.)

Þeir sem semja fyrir stéttir sem búa við lakari kjör ná saman um sín málefni og undrar maður sig stundum á því hvað þeir geta samið um lágt kaup. (SJS: Það er ..... efni.) Það er rétt, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að það er íhugunarefni og um leið sér maður náttúrlega í hvers slags ógöngur sú deila sem við ræðum er komin í. (Gripið fram í.) Oft er það þegar deilur harðna og stranda að þá þarf nýja menn til að skynja nýja leið og ná deilunni upp úr hjólfarinu.

Hvað þau frv. varðar sem hér liggja fyrir þá óttast ég auðvitað nokkur atriði, að ákvæði þeirra kunni að skerða möguleika ekki síst smærri útgerða kvótalítilla báta þar sem duglegir einstaklingar hafa verið að komast inn í útgerðina. Á ég þar við veiðiskyldu o.s.frv. og að framsalsréttur verði skertur. Þetta kann því að skaða sjómennina í leiðinni og verða kannski endalokin á litlum útgerðum, því miður.

Auðvitað eiga lögreglan og dómstólar að taka á þeim fáu aðilum sem brjóta kjarasamninga sjómanna. Fáeinir aðilar í útgerð, sem slíkt ástunda, eiga að sæta refsingu og eiga að verða sviptir þeim rétti að koma nálægt auðlind sjávarins. Hinir mörgu eiga ekki að líða fyrir þá fáu skúrka. Að vísu liggur það fyrir að sjómenn veigra sér við að kæra og hitt hygg ég að sé líka ljóst að Landssamband ísl. útvegsmanna hefur því miður tekið slælega á þeim brotlegu. Þar tel ég að forustumenn útgerðarmanna hefðu átt að bregðast hart við og styðja löglegar og réttar kröfur sjómanna. Þetta er mín sannfæring og ég vil að hún komi hér fram.

En ég vil lýsa því yfir að ég bind vonir við ýmis atriði sem í frv. eru, þá ekki síst að Kvótaþingið eigi eftir að breyta miklu. Það mun gera öll viðskipti opinber og um leið öllum kleift að kaupa og ljóst hverjir eru að selja frá sér. Kvótaþing gæti orðið til þess að lækka kvótaverð í framtíðinni, sem að mínu mati hefur verið allt of hátt. Ég vona að Kvótaþing stuðli að meiri sátt í landinu um málefni sjávarútvegsins.

Ég er þeirrar skoðunar að þessi kjaradeila sé í mikilli sjálfheldu og engin lausn sé í sjónmáli. Þess vegna styð ég stefnu ríkisstjórnarinnar í þessu máli og þau frv. sem hér liggja frammi. Auðvitað mun hv. sjútvn. grandskoða frv. og glöggva sig á efni deilunnar. En mín von, og það skulu vera mín lokaorð hér við þessa umræðu, er sú að aðilar málsins nái áttum á næstu tveimur árum og geri út um sín deilumál og þau þurfi ekki að koma hér til lausnar inni á Alþingi Íslendinga.