Kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 25. mars 1998, kl. 21:36:22 (5182)

1998-03-25 21:36:22# 122. lþ. 94.7 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, PHB
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 122. lþ.

[21:36]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ill nauðsyn krefst þess að við tökum á þeirri kjaradeilu sem nú er í gangi. Það hefur verið spurning hversu hratt átti að taka á þessu, þ.e. hversu lengi átti að leyfa deiluaðilum að reyna að ná lausn. En nú hefur sú ákvörðun verið tekin að ríkisvaldið gangi núna til aðgerða enda eru miklir hagsmunir í húfi. Það kunna jafnvel hundruð milljóna á dag að fara forgörðum fyrir þjóðarbúið á meðan deilan er óleyst og flotinn er bundinn í höfn.

Hins vegar er mjög slæmt að ganga á samningsréttinn og það á aldrei að gera nema þegar mjög illa gengur og ekki útséð um að samningar náist. Í þessari deilu hefur verið óvenju mikil heift og mikið um persónuleg illindi og jafnvel þannig að það er orðið mikilvægara að fá sálfræðinga til að aðstoða menn en hagfræðinga og aðra með menntun í viðskiptafræðum. Ég er sannfærður um að enginn hv. þm. muni greiða neinu þessara frv. atkvæði með glöðu geði.

Herra forseti. Hvers vegna eru deilurnar svona illvígar? Hvers vegna eru svona illvíg átök á milli sjómanna og útgerðarmanna? Það er vegna þess að sumir sjómenn fá laun miðuð við 100 kr. á kíló af þorski. Aðrir sjómenn fá laun miðuð við 70 kr. fyrir kíló af þorski og enn aðrir fá laun miðuð við jafnvel niður í 40 kr. fyrir kíló af þorski. Og þetta eru menn sem vinna hlið við hlið á sambærilegum skipum sem landa jafnvel í sömu höfn. Þetta veldur deilunni.

Hvers vegna er þetta svo? Hvers vegna fá sjómennirnir svo mismunandi verð? Það er vegna þess að sumir vinna hjá útgerð sem hefur fengið kvótann gefins. Hún hefur ekki þurft að kaupa þennan kvóta. Aðrir vinna hjá útgerð sem hefur þurft að kaupa kvótann og þeir sjómenn sem vinna hjá útgerð sem ekki á kvóta neyðast til að taka þátt í kvótakaupunum vegna þess að annars hafa þeir ekki vinnu, annars leggja þeir ekki úr höfn og þeir eru í rauninni að borga auðlindagjaldið ásamt útgerðinni.

Vandamálið er nefnilega ekkert annað en eignarhaldið á auðlindinni. Það er vandamálið sem við eigum við að glíma og þessi vandi mun verða viðvarandi. Þetta verður ekkert búið með þessari lagasetningu, þetta mun halda áfram. Eftir nokkur ár mun það verða svo að sjómenn munu taka þátt í greiðslu fyrir veiðiheimildir vegna þess að eigendur þeirra útgerða sem eiga kvóta munu gera arðsemiskröfu til þess kvóta. Þeir munu gera arðsemiskröfu til þess fjár sem bundið er í kvótanum og ella væri hægt að selja, leggja inn á bankareikning eða kaupa fyrir það spariskírteini. Arðsemiskrafa til þessa fjár mun því myndast þannig að útgerðarfyrirtækin sem eiga mikinn kvóta munu þurfa að skila eigendum sínum miklum arði af þessari eign og það mun verða nákvæmlega sami arðurinn og þau fyrirtæki sem ekki eiga kvóta og þurfa að leigja hann til sín, þurfa að standa undir. Því mun myndast krafa um að greiða arð af auðlindinni og sú krafa mun koma fram hjá sjómönnum líka, beint eða óbeint. Í framtíðinni munu sjómenn þurfa að borga kvóta, allir saman. En það verður væntanlega eitthvað lægra en það háa verð sem er á kvótanum í dag.

Herra forseti. Það frjálsa og lipra framsal sem er á kvótanum nú er uppspretta þeirra verðmæta sem menn eru að deila um. Það er uppspretta þess hve kvótakerfið er arðbært. Ef ekki væri frjálst framsal á kvótanum og gömul skip yrðu að veiða aflann hvað sem það kostaði því hann væri bundinn við skip og ekki mætti framselja, þá yrði útgerðin afar óhagkvæm. Þá þyrfti miklu meiri mannskap til að ná í aflann og við hefðum ekki þennan arð sem allir eru að bítast um.

Nú tala sjómenn um kvótabrask og krefjast þess að það verði afnumið og þeir horfa til þess að framsalið verði afnumið. En um leið eru þeir að krefjast þess að arðsemin, hagnaðurinn af kerfinu verði afnuminn. Það er kannski það sem menn vilja. Menn vilja kannski ekki hafa neinn hagnað af kerfinu. Kannski stefnir allt í það. (Gripið fram í: Eða bara tap.) Já, jafnvel tap eins og var hérna áður en takmarkanir á veiðiheimildum voru teknar upp og framsalið var leyft, þá var nefnilega tap á útgerðinni. Þá var vandamálið það að koma skipunum út vegna taprekstrar. (SJS: Rétti upp hönd þeir sem vilja tap.) Já, rétti upp hönd þeir sem vilja tap, herra forseti. Mér sýnist að spurningin sé orðin um það því að takmörkun á framsali svo sem hér er lögð til að kröfu sjómanna þýðir minni hagnað. (SvG: Hver er forseti hér?)

Herra forseti. Eitt atriði í þessum samningum hélt ég að væri einhver misskilningur, bara einhver della og það var þetta furðulega ákvæði að þegar fækkað er í áhöfn þá vex kostnaður útgerðar. Ég hélt fyrst að ég heyrði ekki rétt og ég hélt að einhver hefði gert svona smámistök einhvern tíma sem yrðu leiðrétt í hvelli þegar skynsamir menn settust niður. Þetta er svo mikil della að maður skilur það ekki. Nú kemur í ljós að það má ekki. Og hvers er vegna það? Vegna þess að búið er að framkvæma það. Í tillögunum sem lagðar voru fram fyrir hið háa Alþingi er gert ráð fyrir að þetta verði afnumið, líka afturvirkt. Það er náttúrlega alveg út í hött. Ég ætla að leggja til við hv. sjútvn. þegar hún fjallar um þetta í fyrramálið að hún skoði þá leið að takmarka þetta ekki bara við rækju heldur segja að ef fækkað er í áhöfn skipa frá og með deginum í dag þá skuli það alla vega ekki kosta útgerðina meira. Að sjálfsögðu ætti útgerðin að fá eitthvað líka fyrir það. Að sjálfsögðu ættu menn að skipta þessum hagnaði á milli útgerðar og áhafnar vegna þess að fækkun í áhöfn er yfirleitt vegna fjárfestingar, vegna einhvers átaks útgerðarmannsins. Hann þarf að fjárfesta í nýjum tækjum, í nýjum búnaði eða slíku og það er fráleitt að hann þurfi að borga fyrir það. Ef sjómannasamtökin skilja þetta ekki og ætla sér að standa föst á þeirri kröfu að útgerðin tapi á því að fækka í áhöfn, tapi á því að auka framleiðni skipsins, þá stöndum við frammi fyrir stórkostlegri stöðnun í sjávarútvegi hér á landi. Ég er alveg sannfærður um að ef sjómenn hugsa málið til enda þá muni þeir sjálfir krefjast þess að útgerðin hagnist eitthvað pínulítið á því að auka framleiðni skipsins.

Herra forseti. Þau frv. sem við hér tölum um eru takmörkun á frjálsu framsali umfram það sem hefur verið og þar með er hagnaðurinn minnkaður. Vel getur verið að það sé lausnin þannig að menn hætti bráðum að slást um arðinn af þessari auðlind, arðinn af auðlind þjóðarinnar. Þessi frv. munu hafa illar afleiðingar fyrir margar útgerðir. Ég er ekki viss um að menn hafi séð og sjái enn fyrir, sérstaklega á þeim stutta tíma sem er til umræðu um þessi mál, þær afleiðingar sem þessi frv. hafa, sérstaklega á minni útgerðir eins og margir hv. þm. hafa bent á á undan mér. Ég ætla ekki að fara lengra út í það.

[21:45]

Herra forseti. Ég ætla að geta um annað atriði. Hér á að setja á stofn tvær nýjar ríkisstofnanir. Það á sem sagt að blása út ríkisbáknið pínulítið eins og alltaf er gert við allar aðgerðir. Þrír menn á Kvótaþinginu eiga að kosta 16 millj. og fjórir menn í Verðlagsstofu skiptaverðs eiga að kosta 25--30 millj. Og að sjálfsögðu verður þetta í Reykjavík. Þessir sjö starfsmenn verða náttúrlega tíu þegar upp er staðið. Þeir þurfa rakara og þeir þurfa bakara, eins og þekkt er, þannig að með margfeldisáhrifum verða þetta um tuttugu manns sem munu þurfa að flytja frá landsbyggðinni til Reykjavíkur. Ég ætla bara að benda hv. landsbyggðarþingmönnum á þetta. (Gripið fram í: Við höfum tekið eftir þessu.)

Herra forseti. Verðlagsstofa skiptaverðs er alveg með ólíkindum. Ég ætla að lesa nokkrar greinar, með leyfi hæstv. forseta:

Í 5. gr. segir. ,,Við athugun einstakra mála getur Verðlagsstofa skiptaverðs krafið sjómenn, útgerðir, kaupendur afla, flutningsaðila, fiskmarkaði, umboðsmenn og aðra þá sem milligöngu hafa um sölu á afla um allar nauðsynlegar upplýsingar. Upplýsinga er hægt að krefjast munnlega eða skriflega og skulu þær gefnar innan hæfilegs frests sem Verðlagsstofa setur.`` Og í 3. mgr. 5. gr. segir: ,,Verðlagsstofa skiptaverðs getur einnig lagt skyldur á þá aðila sem um ræðir í 1. mgr. að upplýsa stofuna reglulega um atriði er máli skipta við framkvæmd laga þessara.``

Ef ég sæti í Verðlagsstofu skiptaverðs vildi ég að sjálfsögðu sjá launaseðla allra sjómanna í landinu, og fá þá senda reglulega einu sinni í mánuði, takk. Það er það sem þeir geta krafist.

Þetta er alveg ótrúlegt. Þetta er svo mikið sovét og svo mikið skriffinnskuveldi að ég vil kalla þetta ríkisvæðingu sjávarútvegsins. Og það er kannski það sem stefnir í. (Gripið fram í.) Ríkisvæðing sjávarútvegsins. (SJS: Hver flytur frv.?)

Herra forseti. Hv. þm. spyr hver flytji frv. Hæstv. ríkisstjórn flytur það af illri nauðsyn, vegna þess að það er allt komið í hnút hjá þeim aðilum sem fjalla um þessi mál. (Gripið fram í: Er ekki sama ...?) Hér er mjög ill nauðsyn og það er þjóðarhagur sem krefst þess að menn taki á þessu máli. Ég mun því styðja þessi frv. öll vegna þess óleysanlega hnúts sem viðræðurnar eru komnar í en ég er ekki ánægður með frv.