Kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 25. mars 1998, kl. 22:18:07 (5187)

1998-03-25 22:18:07# 122. lþ. 94.7 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 122. lþ.

[22:18]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að taka undir síðustu orð hv. ræðumanns hér áðan um það vonda sem að þessu snýr og það er að skipta sér yfir höfuð af kjaradeilum. Hins vegar hef ég áhyggjur af því hve margir þingmenn hafa komið hér upp í dag og lýst áhyggjum sínum yfir því að ekki skyldu hafa orðið breytingar á mönnunarákvæðum fiskiskipanna. Ég verð að segja að það hljómar eins og ef maður af götunni kæmi hér inn og segði: ,,Hér ættu ekki að vera nema tíu þingmenn. Það þarf ekki meira til.`` Ég er hræddur um að sá aðili geri sér ekki alveg glögga grein fyrir starfi þingsins frekar en þingmaðurinn gerir sér grein fyrir starfi sjómannsins. Vandamálið á mörgum fiskiskipum er það að tíð slys verða vegna þess að þau eru ekki nógu vel mönnuð. Dettur mönnum kannski í hug að slysatíðni um borð í fiskiskipum sé vegna þess að menn séu að þvælast þar hver fyrir öðrum? Nei, ég held að við ættum að halda þannig á málinu og vonast til þess að útgerðarmenn og sjómenn finni flöt á því sjálfir hvernig best verður á þeim málum haldið burt séð frá allri launapólitík sem því fylgir. Ég bið því þá menn um að hafa sig hæga sem eru að tala um að rétt sé og eðlilegt að fækka á skipum án tillits til þess hvernig vinnan fer fram, hversu margir eru um borð í dag, hvernig skipið er búið og til hvaða veiða er haldið. Að síðustu skulum við líka hafa það að leiðarljósi og spyrja okkur sjálf: Hvers vegna er slysatíðni jafnmikil til sjós og raun ber vitni? Hún er ekki vegna þess að þar séu ofmönnuð fiskiskip.