Kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 25. mars 1998, kl. 22:23:29 (5190)

1998-03-25 22:23:29# 122. lþ. 94.7 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 122. lþ.

[22:23]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Hv. 8. þm. Reykv. beindi til mín spurningum sem mér er ljúft að svara. Hann spurði hvaða áhrif vinnulöggjöf sú sem samþykkt var vorið 1996 hefði haft á þessa kjaradeilu. Ég skal aðeins fara yfir það.

Sú vinnulöggjöf hefur reynst vel. Kjarasamningar hafa yfirleitt tekist vel í þessari lotu síðan lögin voru sett. Ég held að við búum að því að hafa gert bestu heildarkjarasamninga sem gerðir hafa verið. Þeir eru gilda lengur en áður hefur tíðkast. Í þeim er stórhækkun lægstu launa. Þeir setja ekki verðbólgu á skrið og kaupmáttur á samkvæmt spá Þjóðhagsstofnunar að aukast um hvorki meira né minna en 25% frá 1995--2000. Ríkisstjórnin liðkaði auk þess fyrir með skattalækkunum upp á 4%.

Það er að vísu ein sorgleg undantekning, og þess vegna erum við hér í kvöld, á því að samningsaðilar komi sér saman. Þegar öll von var úti um að samningsaðilar næðu samningi með aðstoð sáttasemjara þá bar hann fram miðlunartillögu nákvæmlega samkvæmt þeirri forskrift sem er í vinnulöggjöfinni. Öll skilyrði sem þar eru sett voru uppfyllt áður en miðlunartillagan var lögð fram. Þau eru þessi, ef ég rifja það upp, herra forseti, og les úr 28. gr. laganna:

,,Skilyrði þess að sáttasemjara sé heimilt að leggja fram miðlunartillögu, eina eða fleiri, samkvæmt þessari grein eru eftirfarandi:

a. að viðræður hafi átt sér stað um framlagðar kröfur, þar á meðal sérmál, eða að leitað hafi verið árangurslaust eftir viðræðum í samræmi við viðræðuáætlun,

b. að tíma, sem ætlaður er til viðræðna milli aðila án milligöngu sáttasemjara samkvæmt viðræðuáætlun, sé lokið án þess að samningar hafi tekist,

c. að sáttasemjari hafi leitað sátta milli allra samningsaðila sem eiga í hlut og telji ekki horfur á samkomulagi þeirra í milli,

d. að samningar hafi verið lausir um tíma þannig að samningsaðilum hafi gefist kostur á að þrýsta á um kröfur sínar,

e. að aðilum vinnudeilu hafi gefist kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum við hugmyndir sáttasemjara sem þeim hafa verið kynntar beint eða opinberlega um að leggja fram sameiginlega miðlunartillögu.``

Þetta gerði sáttasemjari og ég vil láta það koma fram í þessari umræðu að ég tel að sáttasemjari og hans menn hafi unnið sín störf af samviskusemi og gert sitt ýtrasta til þess að ná árangri við að koma á kjarasamningi.

Sáttasemjari lagði fram miðlunartillögu samkvæmt þeirri vinnulöggjöf sem í gildi er og hér er verið að lögfesta miðlunartillögu sem sjómenn voru búnir að samþykkja. Aðilar geta á samningstímanum, hv. 8. þm. Reykv., komið sér saman um breytingar á kjarasamningi ef þeim býður svo við að horfa og þetta bindur þá ekki í báða skó að þessu leytinu til en þeir þurfa að koma sér saman. (Gripið fram í.) Nei. Ekki samkvæmt niðurlagi 3. gr. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Þó er aðilum heimilt að semja um slíkar breytingar en eigi má knýja þær fram með vinnustöðvun.``

Ef menn geta komið sér saman þá er það gott og því ber að fagna en lengd friðartímans helgast af öðrum samningum sem flestir aðrir samningsaðilar hafa gert og sjómenn voru búnir að fallast á með miklum meiri hluta atkvæða í atkvæðagreiðslu um þessa miðlunartillögu sem við erum að lögfesta. Útvegsmenn eru því miður mjög óánægðir og þeir felldu þessa miðlunartillögu. Þess vegna þarf að koma til þessarar lagasetningar. Það er auðvitað neyðarúrræði að leysa kjaradeilur með lögum en ábyrg stjórnvöld geta þó ekki brugðist öðruvísi við. Stjórnvöld bera fram lagafrumvörp sem eiga að skapa lagaumhverfi sem stuðlar að bættum samskiptaháttum.

Það er fjarstæða að halda að heimsendir verði 16. febrúar árið 2000. Viðræðuáætlun skal gerð í síðasta lagi tíu vikum áður en gildandi kjarasamningur er laus þannig að í síðasta lagi skulu þeir hafa gert viðræðuáætlun og vera farnir að tala saman tíu vikum fyrir 15. febrúar árið 2000. Ef samningsaðilar hafa ekki gert viðræðuáætlun tíu vikum áður en gildandi kjarasamningur er laus þá skal sáttasemjari gefa út viðræðuáætlun fyrir þá samningsaðila í síðasta lagi átta vikum áður en gildandi kjarasamningur er laus og skal sáttasemjari þá taka mið af öðrum viðræðuáætlunum sem þegar hafa verið gerðar. Síðan geta samningsaðilar samkvæmt 24. gr. laganna hvenær sem er eftir útgáfu viðræðuáætlunar óskað milligöngu sáttasemjara eða aðstoðar hans og skal hann þá þegar beita sér fyrir því að samningaumleitanir fari fram í samræmi við viðræðuáætlun.

Herra forseti. Þetta vildi ég að kæmi fram.