Kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 25. mars 1998, kl. 22:34:32 (5193)

1998-03-25 22:34:32# 122. lþ. 94.7 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 122. lþ.

[22:34]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er gott til þess að vita að hæstv. félmrh. skuli draga í land því að svo var að skilja á fyrri yfirlýsingu hans að vegna vinnulöggjafarinnar hefðu menn náð einhverjum bestu kjarasamningum í manna minnum. Útkoman sýnir sig, sagði hæstv. félmrh. Það er nefnilega lóðið. Útkoman sýnir sig ekki.

Ég vil vekja athygli á því, sem ég hef reyndar gert áður í þingsal, að ríkisstjórnin, hæstv. fjmrh. og forstöðumenn í stofnunum gera allt sem þeir geta til að koma á launaleynd og það eru herskarar lögfræðinga nú á vegum stéttarfélaganna að reyna að koma í veg fyrir að hæstv. fjmrh. Friðrik Sophussyni takist að koma á almennri launaleynd í opinberum stofnunum. Útkoman sýnir sig því ekki. Þetta er mál sem á eftir að koma til kasta þingsins vegna þess að sannarlega er verið að brjóta lög. Stéttarfélögin eiga eftir að láta reyna betur á þessi mál en síðan mun þetta að sjálfsögðu koma til kasta þingsins. En ég vil mótmæla því sem kom fram hjá hæstv. félmrh. að hin góða útkoma sýndi sig. Það gerir hún ekki, því miður.