Kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 25. mars 1998, kl. 22:41:05 (5199)

1998-03-25 22:41:05# 122. lþ. 94.7 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, SJS
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 122. lþ.

[22:41]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það eru aðeins fáein orð sem ég vil bæta við þessa umræðu. Það er óhjákvæmilegt fyrst að vekja athygli á því að hæstv. félmrh. sem hér hefur verið í orðaskiptum upp á síðkastið er ótrúlega glaðbeittur, svo ekki sé nú sagt sperrtur, miðað við það að tilefni umræðna á þessum degi eru lög á frjálsan samningsrétt og verkfallsrétt einnar mikilvægustu starfsstéttar í landinu. Það er eins og óvenjulega vel liggi á hæstv. félmrh. Það er reyndar kannski ekki svo mikið sagt út af fyrir sig vegna þess að það eru misjafnir dagar hjá honum eins og fleirum. En mér finnst það nokkuð sérkennilegt að hæstv. félmrh. landsins og yfirmaður vinnumarkaðsmála skuli vera svona glaðbeittur einmitt á þeim degi sem lögþvingun af þessu tagi gengur yfir hinn frjálsa samnings- og verkfallsrétt. Það mætti ætla, eða hvað, að það væri bara næstum að segja fagnaðarefni fyrir hæstv. ráðherra, sem hælist hér um af breytingum á vinnulöggjöfinni sem hæstv. ráðherra lamdi í gegn í andstöðu við allt og alla og telur væntanlega það sem gerst hefur vera (Gripið fram í.) til sannindamerkis um ágæti þeirrar framkvæmdar. Þess sér nú ekki stað, a.m.k. ekki í þessu tilviki, herra forseti.

Síðan eru það orðin rök hjá hæstv. ráðherra að af því að sjómenn uni þessu skár en útvegsmenn þá sé þetta í lagi. Ég verð að segja alveg eins og er að þótt ég hafi tekið málstað sjómanna að verulegu leyti í þessari deilu átta ég mig ekki alveg á þeirri röksemdafærslu að í prinsippinu breyti það einhverju þegar verið er að afnema þennan rétt. Er það það sem hæstv. ráðherra er að segja, að það sé öðruvísi að snerta við honum á aðra hliðina en hina?

Í öðru lagi, herra forseti, hafa verið fluttar mjög athyglisverðar ræður í dag af hálfu hv. stjórnarsinna. Ég hef fylgst nokkuð grannt með þeim og ég held að ég hafi náð að heyra þær að mestu leyti. Þær hafa verið athyglisverðar vegna þess að hér hafa talað a.m.k. einir átta stjórnarþingmenn og þeir hafa allir í meira eða minna mæli talað gegn ákvæðum þessara frv. og þvegið hendur sínar af því að ætla samt að styðja þau. Hér hefur farið fram hver kattarþvotturinn á fætur öðrum þar sem hv. þingmenn stjórnarliðsins hafa streymt í ræðupúltið og beðist afsökunar á því að þeir ætla, þrátt fyrir að vera á móti frv., að greiða þeim atkvæði. Þetta hefur satt best að segja verið heldur ömurlegur málflutningur. (Gripið fram í: Skammarlegur.) Heldur skammarlegur málflutningur. Það minnir mann eiginlega helst á frásagnir af Kópavogsfundinum þegar menn skrifuðu undir grátandi en skrifuðu undir samt. (Gripið fram í.) Hv. þingmenn stjórnarliðsins hafa komið hér nánast í tárum og iðrast og lýst yfir andúð sinn á meira og minna öllum ákvæðum frv. en sagt síðan í lokin: Ég ætla náttúrlega að greiða þeim atkvæði. (Gripið fram í: Farðu með kvæðið.) Þetta var dapurlegt, herra forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal komst einna átakanlegast að orði en auk hans mæltu á svipaða vísu hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson, hv. þm. Árni Johnsen, sem gekk svo langt að telja að þetta væri atlaga að einkaframtakinu og það lægi við að betra væri að þjóðnýta útgerðina í landinu en að afgreiða þessi frv., en hann ætlar samt að styðja þau, enda flutt af flokksbróður hans hæstv. sjútvrh. og samþingmanni á Suðurlandi. Reyndar hafa ræður þingmanna Suðurlands verið alveg sérstaklega athyglisverðar og sá grunur læðist að manni að harður slagur standi yfir um sálirnar í einhverjum útgerðarmönnum í því kjördæmi þessa dagana. En auk þess töluðu í svipaða veru hv. þm. Árni R. Árnason, Tómas Ingi Olrich, Árni M. Mathiesen, Kristján Pálsson og síðast en ekki síst hv. þm. Guðni Ágústsson, starfandi forseti. Meira og minna var þetta allt í þessum dúr og ég segi alveg eins og er, herra forseti, ég hef heyrt rismeiri málflutning en þann sem fram fór í dag.

[22:45]

Vissulega má deila um ýmis ákvæði þessara frv. og það má rökræða um áhrif þeirra en við hljótum að treysta því að þingmenn fari almennt eftir sannfæringu sinni og samþykki ekki það sem stríðir gegn samvisku þeirra, eða hvað? Eigum við ekki að vona það, herra forseti?

Fyrir mitt leyti get ég stutt efni allra þríhöfðafrv. sökum þess að ég tel þau viðleitni til að taka á vandamálum. Þó þau kunni í reyndinni að hafa neikvæð áhrif að einhverju leyti og komi ekki jafnt við alla, þá verður auðvitað að velja það sem við ætlum meiri hagsmuni.

Í þessum efnum verður ekki bæði sleppt og haldið. Það þýðir ekki að tala sig hásan um kvótabrask, eins og sumir af ræðumönnum hér hafa gert á undanförnum missirum, en hrökkva síðan frá með ömurlegum kattarþvotti þegar reyna á að taka á því sama kvótabraski vegna þess að það kunni að koma við einhverja. (ÖS: Nefndu þá.) Þetta er ekki rismikill málflutningur, herra forseti. Ég veit að hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem er í góðu skapi í kvöld og kallar mikið fram í, er mér sammála. (ÖS: Alveg.) Ég sé það á honum. Hv. þm. hefur fyrir löngu áttað sig á því að það er ekki hægt að bæði sleppa og halda þó bæði sé hægt að vera óháður í hlutverki ritstjóra á dagblaði og jafnframt þingmaður. Það er allt annað mál. Það er ekki að sleppa og halda.

Ég tel, herra forseti, að í þessu máli standi það eftir að barátta stjórnarandstöðunnar og sjómanna á þessum vetri hafi skilað nokkrum árangri. Ég er að sjálfsögðu ekki sáttur við niðurstöðuna vegna þess að í fyrsta lagi tókst ekki að koma á kjarasamningi og í öðru lagi vegna þeirra þvingunarákvæða sem eru í einu af þessum fjórum frumvörpum, frv. sem ég kalla ofbeldisfrv. Samt tel ég að barátta stjórnarandstöðunnar hér í þinginu og harðfylgi sjómanna í þeirra baráttu hafi þrátt fyrir allt skilað nokkrum árangri. Menn hafa náð að afstýra mun verri hlutum en þeim sem þó stendur til að koma á með þessum frv.

Að lokum, herra forseti, vil ég taka undir það sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson sagði í andsvari við einni af ræðum þingmanna stjórnarliðsins. Mér hefur líka blöskrað að heyra menn koma, hvern á fætur öðrum í þessari umræðu, og gráta yfir því að ekki hafi náðst meiri árangur í að heimila að unnt væri að fækka í áhöfn skipa í flotanum niður úr öllu valdi. Ég held að menn ættu að staldra við og hugleiða til hvers það gæti leitt að ganga of langt í þeim efnum. Að gera samanburð á mönnun skipa hjá öðrum þjóðum er ekki að öllu leyti eðlilegur málflutningur. Það skortir ýmislegt á að þau erlendu skip séu samanburðarhæf. Ekki er hægt að bera saman við þann skipakost sem þar á í hlut né afköst eða til hvers ætlast er af sjómönnunum í hverju einu tilviki. Maður skyldi hafa það í huga að íslensk skip afkasta miklu meiru en sambærileg skip nokkurs staðar annars staðar í heiminum. Er þá nokkuð skrýtið að mannskap þurfi um borð? Enn er tæknin a.m.k. ekki komin á það stig að skipin veiði sjálf, gangi sjálf frá aflanum o.s.frv.

Auðvitað þurfa menn einnig að horfa til vinnuumhverfis, öryggismála og fleiri þátta. Allt eins mætti spyrja sig að því, eins og gerði hér í dag, hvort það sé ekki nokkuð langt gengið þegar allt niður í sex manns eru á 500 tonna rækjutogara á veiðum norður í ballarhafi um hávetur. Það er ekki stór áhöfn á svo miklu skipi. Er það ekki jafnmikið áhyggjuefni og hitt að ekki hafi tekist að fækka meira á öðrum skipum flotans. Þannig að ég tel að eitt það mikilsverðasta sem þó hafi áunnist hafi einmitt verið að koma í veg fyrir geðþóttaheimild í lögum sem tæki af ákvæði kjarasamninga um mönnunarreglur. Það hefði ekki verið geðslegt að bjóða upp á dansinn sem þá hefði getað hafist.

Þessu vildi ég koma á framfæri, herra forseti, við lok umræðunnar, þó sérstakt erindi mitt hingað væri, ég viðurkenni það, að vekja athygli á löngum röðum stórbrotins málflutnings stjórnarþingmanna í dag.