Kjaramál fiskimanna

Föstudaginn 27. mars 1998, kl. 16:42:13 (5204)

1998-03-27 16:42:13# 122. lþ. 96.1 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, Frsm. minni hluta LB
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 122. lþ.

[16:42]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hluta sjútvn. á þskj. 1065 sem er 603. mál. Ásamt mér standa að nál. hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson. Hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir sem er áheyrnarfulltrúi í nefndinni er samþykk áliti þessu.

Virðulegi forseti. Minni hluti sjávarútvegsnefndar mótmælir því harðlega að enn einu sinni skuli sett lög á kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna. Þetta er gert þrátt fyrir að báðir aðilar hafi mótmælt því að löggjafinn grípi inn í deiluna og þess í stað viljað reyna til þrautar að ná að semja um og leysa deilur sínar sjálfir.

Með þessari lagasetningu er ekki verið að lögfesta kjarasamning sjómanna. Þess í stað er verið að lögfesta kjör þeirra til 15. febrúar árið 2000. Jafnframt því sem kjör þeirra eru lögfest eru báðir aðilar deilunnar, sjómenn og útvegsmenn, sviptir rétti sínum til að beita þeim vopnum sem fyrir löngu hafa verið viðurkennd sem hluti af mannréttindum því að sjómenn geta ekki beitt verkfallsvopni sínu til að ná fram bættum kjörum. Auk þess eru útvegsmenn sviptir þeim rétti sínum að beita verkbanni.

Það sem vekur sérstaka eftirtekt er að frumvarp um lög á verkfall sjómanna kemur fram einungis tíu dögum eftir að það hófst og fram hefur komið við umfjöllun félagsmálanefndar Alþingis, en þangað var málið sent til umsagnar, að svo mikið hafi legið á lagasetningunni að ekki hafi unnist tóm til þess að kanna hvort lagasetning af þessu tagi fái samrýmst ýmsum alþjóðasáttmálum og samþykktum sem Ísland er aðili að, eins og samþykktum ILO. Lögfræðingur sjómannasamtakanna hélt því fram á fundi félagsmálanefndar að lagasetningin fengi ekki staðist umræddar samþykktir en Landssambandi íslenskra útvegsmanna hefur ekki enn gefist tóm til að kanna málið sem ber því vott hvílíkur hraði hefur verið á meðferð málsins í þinginu. Slík vinnubrögð átelur minni hlutinn harðlega og telur vera fyrir neðan virðingu Alþingis að þar séu stunduð vinnubrögð af þessum toga.

Með vísan til þess að minni hlutinn telur að ekki sé fullreynt að samningum verði náð og þeirra grundvallarviðhorfa hans að ekki eigi að grípa til lagasetningar á kjaradeilur og svipta sjómenn verkfallsrétti eina ferðina enn mun minni hlutinn greiða atkvæði gegn frumvarpi til laga um kjaramál fiskimanna.

Virðulegi forseti. Ég hef nú mælt fyrir minnihlutaáliti sjútvn. og mun kannski gera frekar grein fyrir viðhorfi mínu síðar í þessari umræðu. En ég vil taka það fram að bæði fulltrúar sjómanna og fulltrúar útvegsmanna sem komu á fund sjútvn. hörmuðu það að þessi gjörð væri framin, þ.e. að setja lög á þessa kjaradeilu. Báðir aðilar lögðu á það mikla áherslu að þeir fengju frið og tóm til þess að ná samningum sjálfir og því ítreka ég það fyrir hönd minni hlutans að við hörmum að meiri hlutinn á Alþingi skuli grípa til þessara aðgerða og við lýsum alfarið ábyrgð á hendur honum.