Kjaramál fiskimanna

Föstudaginn 27. mars 1998, kl. 17:22:42 (5211)

1998-03-27 17:22:42# 122. lþ. 96.1 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, Frsm. 2. minni hluta SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 122. lþ.

[17:22]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. 2. minni hluta sjútvn. um frv. til laga um Kvótaþing, en ásamt mér skipa 2. minni hluta hv. þm. Lúðvík Bergvinsson.

Herra forseti. Annar minni hluti sjávarútvegsnefndar átelur harðlega að ríkisstjórnin skuli, í krafti meiri hluta síns á Alþingi, lögbinda kjör sjómanna næstu tvö árin.

Þegar sjómenn greiddu atkvæði um miðlunartillögu sáttasemjara var forsenda samþykkis þeirra að frumvarpaþrenna embættismannanefndar ríkisstjórnarinnar yrði lögfest efnislega óbreytt, enda hafði sjávarútvegsráðherra heitið þeim að það yrði gert.

Stjórnarandstaðan hefur lagt áherslu á að sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnin standi við loforð sín gagnvart sjómönnum. Með vísan til þeirra efnisbreytinga sem felast í breytingartillögum meiri hluta sjávarútvegsnefndar er á hinn bóginn ljóst að ríkisstjórnin ætlar að svíkja gefin loforð.

Ég vísa, herra forseti, til þeirra efnisatriða sem rakin eru í nál. minni hluta sjútvn. um frv. um stjórn fiskveiða sem hér er einnig til umfjöllunar.

Herra forseti. Það hefur komið fram í máli manna að lögfesting Kvótaþings sé álitamál. Í umræðum um þessi mál hefur margoft komið fram í þinginu að hverju sinni sem menn breyta starfsumhverfi sjávarútvegsins er um álitamál að ræða. Menn eru einlægt að breyta forsendum fyrir rekstri, mismunandi mikið. Einn tapar og annar græðir eins og gengur, og eðlilega hljóta menn hverju sinni að hafa nokkrar áhyggjur af því hvernig mál koma út. Það er ekki bundið bara við það mál sem við fjöllum um núna, eða þau mál sem hér eru til umfjöllunar.

Það liggur hins vegar fyrir, herra forseti, að það var ríkisstjórnin sem valdi þá leið sem hér er farin. Í samningaviðræðunum höfðu sjómennirnir haft uppi aðrar áherslur. Meginkrafa þeirra hefur verið sú að staðið væri við kjarasamninga og lög og þeir hafa beðið um að starfsumhverfi þeirra væri breytt til að svo mætti verða. Krafa þeirra var sú að farið yrði í að breyta umhverfinu þannig að verðmyndun á afla á veiddum fiski yrði höfuðviðfangsefnið. Við því var ekki orðið en boðið upp á þann kost að farið verði í hinn endann, verðlagningu á veiðiheimildum. Sú staða sem upp er komin og afleiðingar afskipta ríkisstjórnarinnar af málefnum sjómanna eru algerlega á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Með vísan til þessa mun 2. minni hluti sjútvn. sitja hjá við afgreiðslu þessara mála í heild sinni.