Kjaramál fiskimanna

Föstudaginn 27. mars 1998, kl. 18:27:26 (5215)

1998-03-27 18:27:26# 122. lþ. 96.1 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, SJS
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 122. lþ.

[18:27]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hlýt að hefja mál mitt á því að ítreka það enn og aftur að það eru mikil vonbrigði að við skulum þurfa að standa hér á Alþingi og ræða lagasetningu á kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna eina ferðina enn. Ég held að það megi ekki týnast út úr umræðunni, herra forseti, sem hefur farið dálítið út í tæknileg atriði þessara mála og jafnvel vangaveltur um fiskveiðistjórnun almennt og álitamál um hvort taka megi meira af þorski upp úr sjónum o.s.frv., að við erum að ræða mjög alvarlega íhlutun í frjálsan verkfalls- og samningsrétt fjölmennrar starfsstéttar í landinu. Það getur aldrei verið gleði- eða fagnaðarefni. Þess þá heldur er það að menn virðast hafa unnvörpum verri samvisku en almennt mætti búast við af því sem þeir eru svo að samþykkja í leiðinni.

Ég verð að segja, herra forseti, að margt er mjög sérkennilegt í bæði aðdraganda þessa máls og málflutningi á Alþingi þessum málum tengdum.

Rétt er að minna á það, herra forseti, að við erum að ræða stjórnarfrv. Við erum ekki að ræða frv. sem hafa bara þá stöðu að þau séu flutt af einum eða tveimur sérvitringum á þingi. Nei, þetta eru fjögur stjórnarfrv., flutt af hæstv. sjútvrh. Og það sem meira er, að þessi stjórnarfrv. hafa sérstaka stöðu vegna yfirlýsinga og loforða sem tengjast meðferð þeirra og gefin voru út fyrir fram. Þau eru því ekki bara venjuleg stjórnarfrv. í þeim skilningi heldur var því heitið að mætti það verða hluti af lausn kjaradeilunnar og til að sjómenn aflýstu aðgerðum þá yrðu þau ekki bara lögð fram heldur afgreidd á þinginu.

[18:30]

Herra forseti. Maður hlýtur að spyrja í ljósi umræðna hér bæði við 1. umr., þar sem ekki færri en einir tíu stjórnarþingmenn komu og báðust afsökunar á því að þeir mundu nú samt sem áður sennilega grátandi greiða þessum málum atkvæði, heldur líka vegna þess að þegar málin koma úr nefnd eru þar fyrirvarar út og suður, meiri hlutinn í sjútvn. sundurtættur. Það vantaði einn hér og annan þar á nefndarálitinu og breytingartillögurnar og þegar upp er staðið eru víst aðeins tveir af þingmönnum stjórnarliðsins án fyrirvara að einhverju leyti við þessi mál. Þetta, herra forseti, gefur allt mjög góð tilefni til að spyrja ... (GMS: Hverjir eru þeir?) Það mun vera hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, formaður þingflokks Framsfl., sjálfur svipuhaldarinn svo að maður grípi nú til breskrar samlíkingar, menn kannast við það hvaða verkfæri þingflokksformenn í því landi eru stundum kenndir, og hitt mun vera varaformaður sjútvn., hv. þm. Árni Ragnar Árnason, sem embættisins vegna hefur sennilega orðið að afsala sér því að geta verið með fyrirvara eins og allir hinir.

Herra forseti. Þetta gefur allt saman tilefni til að spyrja: Í hvaða umboði var það loforð gefið sjómönnum að afgreiða frumvörpin og gera þau að lögum? Var ekki alveg skýrt að þar væri talað fyrir hönd öruggs meiri hluta á Alþingi? Það hlýtur bara að vera, herra forseti. Ég trúi því ekki að menn séu í alvöru að hrista hausinn úti í sal og meini að þetta hafi ekki verið þannig eins og það hlýtur að vera að þegar lofað er lagasetningu, þá sé það gert í umboði fyrirliggjandi meiri hluta. Annars eru málin enn sérkennilegri en fram hefur komið. (KHG: Þetta er verri frammistaða en hjá Sameinuðu þjóðunum.)

Herra forseti. Þetta er allt hið sérkennilegasta mál. Það verður að segja það alveg eins og er.

Um þann kattarþvott, þær iðrunar- og grátræður sem hafa síðan verið fluttar af hálfu hv. stjórnarliða sem ætla samt að samþykkja frumvörpin, ætla ég svo sem ekki að hafa fleiri orð. Þær aflausnarbeiðnir tala fyrir sig sjálfar og ekki meira um það. Aðeins til viðbótar þó að í bráðabirgðaákvæðum sem komin eru inn í breytingartillögur eru afar sérkennileg ákvæði um einhvers konar skýrslugerð eða vöktun ráðherra og þings á því sem menn eru að gera. Menn lýsa því nánast yfir að menn séu með svo blendnar tilfinningar í garð þeirra breytinga á lögum sem verið er að gera að því er lýst yfir fyrir fram að það verði að fylgjast mjög grannt með því að ekki fari allt til fjandans þannig að unnt sé þá að grípa í taumana. Það eiga að vera skýrslugjafir og mikil eftirlitsstörf sem hæstv. sjútvrh. á að hafa veg og vanda af og leggja síðan fyrir Alþingi í formi skýrslna strax á næsta ári. (KPál: Þetta er gott.) Jú, þetta er mjög gott, hv. þm. Kristján Pálsson, alveg til fyrirmyndar og er til marks um hversu sannfærðir menn eru um að þeir séu að gera rétt, er það ekki, þegar menn lýsa því yfir að þeir hafi svo miklar efasemdir um þær breytingar sem verið er að gera á lögunum að það sé nauðsynlegt að setja á alveg sérstaka vöktun. (GMS: Miðstýringarmennirnir vilja það.) Reyndar ætti ekki að þurfa að lýsa því yfir, herra forseti, almennt að stjórnvöld, yfirvöld sjávarútvegsmála geti fylgst með því sem er að gerast í greininni og ekki þarf heldur að taka það fram að Alþingi geti gert breytingar ef því sýnist svo þannig að þetta er það sem meistari Þorbergur hefði kallað ,,selvfölgeligheder`` fyrr á öldinni. Hins vegar er það til marks um visst andrúmsloft í kringum afgreiðslu þessara mála að það skuli þurfa að taka þetta fram í hverju málinu á fætur öðru. Það er stundum gert þegar verið er að taka upp algert nýmæli í lögum, setja nýja heildarlöggjöf á einhverju sviði o.s.frv. að hafa þar sólarlagsákvæði. En það er fremur óvenjulegt að sjá þegar verið er að gera einstakar efnisbreytingar á lögum af þessu tagi að það séu hnýttar slaufur á þá pakka.

Herra forseti. Eins og kom áðan fram hefur umræðan lent svolítið út á almennt spor og það er svo sem ekkert skrýtið í sjálfu sér vegna þess að auðvitað hafa þessi frumvörp áhrif og það er ekkert nema eðlilegt að menn vilji ræða þau. Ég vil leggja það inn í þá umræðu sem hér var hafin m.a. af hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni og Hjálmari Árnasyni sem töluðu síðastir að ég held að meginsjúkdómur í þessu kerfi eins og það er núna sé bundinn við leiguna og að svo hafi alla tíð verið. Ég held að það sé mesti veikleiki svo ekki sé sagt sjúkdómur í þessu kerfi. Það versta er að það fyrirbæri er að mínu mati með öllu óþarft og hefði aldrei átt að koma til sögunnar vegna þess að það var og er miklu heilbrigðara að þróunin gerðist í gegnum varanlega tilfærslu afnotaréttarins sem ætti að fara fram að siðaðra manna lögum á opinberu kaupþingi og síðan með heimildum til að skipta á jafngildum veiðiheimildum og rúmum heimildum til að geyma ónýttar veiðiheimildir og færa þær milli ára eða taka fram fyrir sig er miklu meira en nægjanlegur sveigjanleiki í kerfinu til þess að það geti lagað sig að breyttum aðstæðum. Leiguvaríantinn í þessu, ef svo má að orði komast, herra forseti, hefði aldrei átt að koma til sögunnar. Það er undirrót ófriðarins. Þegar menn tala um að vandamálin í samskiptum sjómanna og útvegsmanna séu tengd löggjöfinni sem þeir eiga að starfa eftir er heilmikið til í því og þau vandamál eiga fyrst og fremst uppsprettu sína í leigunni og öllu sem henni tengist.

Siðferðilega er það svo, herra forseti, að það er fénýting veiðiréttarins í gegnum leigu án þess að nýta hann, jafnvel ár eftir ár, sem er auðvitað sú hlið á þessu öllu saman sem er langsamlega erfiðast að verja og er í raun og veru ekki hægt því að það var aldrei meiningin með kerfinu sem var upphaflega sett á fót til að takmarka sókn í fiskstofnana að fara að búa til einingu sem unnt væri að fénýta með leigu án þess að nýta sjálfur jafnvel árum saman. Það var aldrei ætlunin, augljóslega ekki. Auðvitað ekki heldur að búa til óhæfilegan gróða einstakra aðila sem væru að afhenda eða selja öðrum réttindi sín varanlega enda væri hægt að taka á því máli með skattalegum aðgerðum ef vilji væri fyrir hendi.

Ég hefði þess vegna viljað frekar en að fara þá leið sem hér er lögð til þó að hún sé viðleitni til að taka á þeim vandamálum sem tengjast leigunni eða framsali aflamarksins innan fiskveiðiárs með kvótaþingi, ég hefði viljað sjá menn móta þá stefnu að menn ætluðu út úr því kerfi, út úr því fari jafnvel þó að það tæki einhver ár að bakka út úr því og afnema í áföngum þær heimildir eða taka þær út úr kerfinu. Það væri hægt að hugsa sér að gera reyndar eins og með margar fleiri breytingar í þessu, með ákveðinni aðlögun sem er yfirleitt sanngjarnt að sé fyrir hendi vegna þess að menn hafa lagað sig að þeim leikreglum sem gilda og menn hafa tekið ákvarðanir, farið í fjárfestingar og jafnvel tekið áhættu sem er ekki sanngjarnt að raska síðan högum manna gagnvart með mjög snöggum breytingum. Að því leyti til hefði að sjálfsögðu þurft og ætti að reyna að finna eðlilegan og sanngjarnan aðlögunarfarveg yfir í það nýja fyrirkomulag sem menn mundu setja sér.

Talandi um áhyggjur af einyrkjum og stöðu einstakra byggðarlaga sem var mjög uppi í umræðum áðan, og geri ég ekki lítið úr því, þá spyr ég sömu menn: Hvar hafa þeir verið gagnvart því sem þegar hefur gerst í kerfinu? Eða er það ekki þannig að það hafi gengið bærilega á bátaflotann undanfarin ár? Er það eitthvað nýtt? Þarf endilega þessar breytingar til? Ég held ekki. Ég veit ekki betur en það séu að verða heil lög horfin út úr íslenska bátaflotanum og bátar af millistærðum og minni millistærð eru nánast horfnir, bátar t.d. undir 500 tonnum eru að verða niður undir helmingur af því sem þeir voru fyrir 10--15 árum. Hafa menn engar áhyggjur af því? Er það fyrst nú sem er ástæða til að staldra við og spyrja sig spurninga? Ég býð alla þá velkomna sem eru tilbúnir að ganga í þann hóp að gera þó seint sé einhverjar ráðstafanir til þess að þessi hlutföll raskist ekki enn frekar en orðið er en það hefur ekki verið vilji fyrir því. Endurtekið hafa verið felldar á Alþingi tillögur um að setja einhverjar girðingar inn í lögin, t.d. þannig að togaraflotinn keypti ekki upp bátaflotann. Hvar voru allir þeir hugsjónamenn sem hafa núna þessar miklu áhyggjur þegar verið var að afgreiða þær breytingar hér eða flokksbræður þeirra? Þeir bera ábyrgð á því að slíkar hugmyndir hafa verið felldar á Alþingi aftur og aftur með þeim afleiðingum sem allir sjá að það er orðin heilmikil röskun, a.m.k. frá þeim hlutföllum sem áður voru og ég held að hafi verið í þokkalegu jafnvægi milli báta, minni báta og svo aftur stærri skipa. Staðreyndin er reyndar sú að Íslendingar eru eina þjóðin sem eru að reyna að keyra á einu opnu fiskveiðikerfi fyrir allar stærðir skipa frá minnstu trillum á aflamarki upp í stærstu úthafsveiðitogara. Ég þekki enga aðra þjóð sem hefur þorað að taka þá áhættu að láta þróunina í útgerðarmynstri hjá sér ganga þannig til að það væri óheft framsal réttarins innan alls flotans upp úr og niður og ég held sjálfur að það sé stórhættulegt og hafi alla tíð verið.

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar og hef lengi verið og hef oft lagt til að setja girðingar í þetta og það ætti t.d. að taka bátaflotann, smábáta- og bátaflotann og veiðina á grunnslóðinni algerlega út undan og hafa hana í sérkerfi, einu samræmdu kerfi þannig að menn gætu farið út úr þeim óskapnaði sem þeir eru fastir í þar. Er þá vilji fyrir því í tengslum við þær umræður sem eru uppi að skoða slíka hluti í einhverri alvöru? Ég lýsi eftir því. Eru þeir menn sem hafa núna miklar áhyggjur af röskun sem kunni að verða í gegnum Kvótaþingið tilbúnir til þess að fara í það þó seint sé? Það væri betur að svo væri. En hjartnæmar ræður og miklar áhyggjur eru léttar í vasa ef ekkert annað er á bak við það en orðin. Það gæti þá farið með það eins og sjávarútvegsstefnu Framsfl. á Reykjanesi að hún væri fyrst og fremst góð og gáfuleg rétt fyrir kosningar meðan verið væri að smala á hana atkvæðum en síðan heyrist lítið af henni eftir það. (Gripið fram í: Hvernig var hún?) Eða hetjuskapur þingmanna Sjálfstfl. á Vestfjörðum sem var ekki lítill fyrir síðustu kosningar en hefur orðið svolítið svona moðreykjarlegt í kringum það allt saman upp á síðkastið.

Nei, herra forseti. Ef menn vilja fara út í að ræða þetta á annað borð á þessum nótum er alveg sjálfsagt mál að gera það. Ég skal ekki taka mikinn tíma í það vegna aðstæðna en ég býð upp á að við tökum okkur eins og einn eldhúsdag í sjávarútvegsmálin við tækifæri. Þá skulum við endilega fara yfir þessar miklu og að sumu leyti nýtilkomnu áhyggjur manna af því að í gegnum þessi mál verði mikil röskun. En sú röskun getur auðvitað orðið á ýmsa vegu, herra forseti, og það er kannski hugsanlegt að hún komi að einhverju leyti við ýmsa sem hafa ekki verið miklir þolendur í þessu ferli hingað til.

Varðandi frumvörpin fjögur, herra forseti, lýsti ég í aðalatriðum afstöðu minni til þeirra við 1. umr. og þær breytingar sem þarna eru á ferðinni eru ekki slíkar að það gefi tilefni til að bæta þar miklu við. Eins og við öll í stjórnarandstöðunni er ég eindreginn andstæðingur ofbeldisfrv. sem ég kalla svo, þ.e. frv. um lög á kjaramál sjómanna. Það er hörmuleg niðurstaða og vond fyrir alla aðila, Alþingi, deiluaðilana og alla að menn skuli standa frammi fyrir slíkum hlutum og það er ekki réttlætanlegt að mínu mati að grípa til aðgerða eins og þeirra sem það frv. felur í sér.

Varðandi frv. um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða felur það fyrst og fremst í sér veiðiskylduákvæði sem hefur verið mikið til umræðu og er eitt aðalefnið í þessu sambandi auk þess sem þar er vísað í lögin sem setja á um Kvótaþing. Að vísu er þar á ferðinni breyting sem gengur til baka að nokkru leyti og hverfur frá því að gera veiðiskylduna árlega eins og ætlunin var og var tillaga þríhöfðanefndarinnar. Ég sagði að vísu við 1. umr. að ég teldi útfærsluna á því gallaða en ekki var þar með sagt að það ætti að bakka frá því. Það var að sjálfsögðu enginn vandi að breyta útfærslunni tæknilega þannig að ekki væri áhætta tekin gagnvart því að einhver meiri háttar slys yrðu í framkvæmdinni því að það er auðvitað ekki ætlunin að koma mönnum illa verði þeir fyrir bilunum eða frátöfum af óviðráðanlegum ástæðum. Að sjálfsögðu var hægt að útfæra ákvæði sem tæki á slíkum tilvikum. Það þurfti ekki að hverfa frá því að auka veiðiskylduna.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé í grunninn rétt að nálgast þetta a.m.k. jafnframt út frá veiðiskyldu og það er ekki sami hlutur að öllu leyti að takmarka framsalsréttinn árlega frá skipinu eins og að leggja á veiðiskyldu því að veiðiskylduna uppfylla menn ekki nema með því að sýna fram á getu skipsins að það sé útgerðarhæft og hafi veiðigetuna. Auðvitað mætti hugsa sér að menn lentu inn á það spor að vera að einhverju leyti að lifa á leigu þó að skipin væru ekki lengur færi um að sinna veiðiskyldunni þó svo einhver hluti réttarins mundi verða ónýttur.

[18:45]

Varðandi Verðlagsstofu þá styð ég það frv. eins og ég sagði við 1. umr. Nafnið er að vísu dálítið skondið. Það minnir mann eiginlega á skömmuntarskrifstofu ríkisins eða eitthvað slíkt sem hefði getað verið til upp úr kreppunni eða á eftirstríðsárunum. Þetta hljómar pínulítið þannig svo ekki sé nú sagt sovéskt. Þetta er heilmikil stofnun sem þarna verður sett upp og ég held að ekkert annað sé að gera úr því menn ætla að reyna að hafa þarna úrskurðarfarveg en að reyna að gera hann þá þannig úr garði að eitthvert gagn sé í honum og hann haldi eitthvað og það sé þá til staðar stofnun eða eitthvert fyrirbæri, hvað sem það heitir, sem getur farið ofan í saumana á hlutunum, getur starfað sjálfstætt, veitt aðhald og krafið upplýsinga o.s.frv. Ég held því að það sé fullkomlega tilraunarinnar virði í ljósi þess hvernig þessi mál hafa gengið til hingað til að prófa þessa leið.

Og að allra síðustu um fjórða frv. um Kvótaþingið, herra forseti. Það er ljóst að þar er á ferðinni mjög umdeilt fyrirkomulag. Margir óttast afleiðingar þess og það er út af fyrir sig ekki nema eðlilegt að menn spyrji: Voru til aðrar betri aðferðir til að reyna að ná fram sömu markmiðum og þar er lagt upp með? Ég hef lýst því hverja ég hefði talið heppilegustu stefnuna í þessum efnum. Það var að hverfa frá leigunni alfarið, taka hana út úr kerfinu þótt í einhverjum áföngum væri. Ég er algerlega sannfærður um að það væri sú einstök aðgerð sem væri gæfulegust til þess að skapa í framtíðinni einhvern frið um þessi mál. Sú mikla og útbreidda óánægja sem er með kerfið, eins og sagt er úti í þjóðfélaginu, er að langmestu leyti sprottin af hlutum sem tengjast þessum leigurétti og öllu sem honum fylgir. Ég tel þessa tilraun til að rjúfa það samband sem verið hefur á milli tilfærslna á veiðiréttinum og aflaverðs og þar með hina meintu þvinguðu þátttöku sjómanna í kostnaðinum, góðra gjalda verða. Ég held að heppilegast hefði verið, herra forseti, og gáfulegast af hæstv. ríkisstjórn og stjórnarliðinu að afgreiða þessi frv. algjörlega óbreytt en segja frekar: Komi hins vegar í ljós tæknilegir eða efnislegir vankantar á framkvæmdinni þá verður auðvitað leitað samkomulags við aðila um að lagfæra þá. Ég er alveg sannfærður um að það hefði verið lafhægt að ganga frá bókunum eða samkomulagi sem deiluaðilar hefðu þá verið aðilar að, fyrir slíkan farveg og er alsiða í kjarasamningum eins og menn þekkja. Andrúmsloftið er að vísu ekkert sérstaklega gott þar á milli eins og kunnugt er en þetta hefði mátt reyna a.m.k. og hefði verið skynsamlegasti farvegurinn. Ríkisstjórnin eða stjórnarliðið hefur valið þá leið að fara að krukka í sum þessara mála og það veldur því að við munum ekki styðja þau öll eins og við hefðum ella gert ef þetta hefði borið að eins og upphaflega var lofað og sú afstaða er rakin nánar í nefndarálitum minni hlutanna.

Herra forseti. Ég ætla ekki að taka lengri tíma í umræður um þetta með tilliti til aðstæðna eins og ég endurtek. Ég held að mikill málfundur um þetta mál í viðbót hafi kannski ekki mikið upp á sig og valdi þá fyrst og fremst því að enn dregst um sinn að flotinn komist þrátt fyrir allt úr höfn sem er kannski eiginlega það eina sem hægt er að gleðjast yfir eða verður að lokum í sambandi við þessi mál.