Kjaramál fiskimanna

Föstudaginn 27. mars 1998, kl. 18:50:48 (5217)

1998-03-27 18:50:48# 122. lþ. 96.1 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 122. lþ.

[18:50]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ef hv. þm. ætlar að fara að taka mig í alvöru upp í afstöðu minni til stórmála af því tagi sem hér ræðir um þarf kannski meiri tíma en tvær mínútur í andsvari. Svarið við fyrri spurningunni er að ég vísa þar í nefndarálit 3. minni hluta sjútvn., Kristins H. Gunnarssonar. Ég mun fylgja því áliti og við í þingflokki Alþb. og óháðra, þ.e. að sitja hjá við atkvæðagreiðslu um Kvótaþingið með vísan til þess rökstuðnings sem þar er. En ég lýsti mig hins vegar efnislega jákvæðan í garð þeirrar tilraunar sem þingið í raun væri, bæði við 1. umr. og einnig í orðum mínum hér áðan.

Varðandi afstöðu mína til framsals þá geri ég skýran greinarmun á varanlegu framsali afnotaréttarins og leigunni hins vegar. Það var leigan sem ég var að tala um og það er leigan sem ég tel að eigi að færa út úr kerfinu, hún sé sjúkdómurinn í því og hafi alltaf verið og hefði aldrei átt að koma til sögunnar. Kvótakerfið stenst hins vegar ekki nema í því sé einhver framsalsmöguleiki og einhver þróunar- og hreyfanleikamöguleiki á veiðiréttindum. Það er okkur öllum ljóst. Svo lengi sem við búum við það kerfi þá verða að vera einhver úrræði fyrir slíkt. Ég hef aldrei skrifað upp á þetta kvótakerfi með núverandi framsalsreglum eins og það er. Ég hef aldrei verið stuðningsmaður þess í óbreyttu formi, hef alla tíð lagt til á því breytingar. Ég hef talið glæfralegt að bjóða upp á þá þróun að t.d. stærstu skipin sem kynnu tímabundið að hafa mjög góða afkomu eða í krafti fjármagns, ættu kost á því t.d. að kaupa upp allan bátaflotann. Ég tel það vitlaust, þjóðhagslega, byggðapólitískt og út frá forsendum lífríkisins þannig að mínar hugmyndir og okkar fleiri hafa verið þær að búa til sérstakt lag í útgerðinni fyrir smábáta og bátaflotann sem miðað yrði við þarfir og eðli sóknarinnar á grunnslóðinni. Það væri girðingin sem lægi á milli og veiðiréttur færðist ekki almennt þar upp. En framsal að siðaðra manna hætti gagnvart stærri fiskiskipunum sem nýttu miðin utar verður að vera ef aflamarkskerfi er við lýði á annað borð.