Kjaramál fiskimanna

Föstudaginn 27. mars 1998, kl. 19:10:41 (5219)

1998-03-27 19:10:41# 122. lþ. 96.1 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, 604. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 12/1998, 605. mál: #A Verðlagsstofa skiptaverðs# frv. 13/1998, 606. mál: #A Kvótaþing# frv. 11/1998, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 122. lþ.

[19:10]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er ekki ætlun mín að halda langa ræðu þó að vissulega sé um stórmál að ræða. En hvers vegna eru þau stórmál, þessi fjögur þingmál sem hér eru til umræðu?

Jú, í fyrsta lagi er enn einu sinni verið að setja lög á kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna þó að báðir málsaðilar hafi mótmælt því harðlega að fá ekki að leysa deilu sína með samningum. Eins og fram kemur í nefndaráliti minni hluta sjútvn. þá mun ég og við kvennalistakonur greiða atkvæði gegn frv. um kjaramál fiskimanna.

Í öðru lagi er það stórmál að með brtt. meiri hlutans við frv. um stjórn fiskveiða er verið að brjóta loforð sem sjómannastéttinni var gefið, þ.e. að ákvæðinu um 50% veiðskyldu er breytt í ákvæði um 50% framsalsheftingu. Á þessu tvennu eru verulegur efnismunur sem alls ekki er hægt að túlka sem tæknilega breytingu. Ég mun sitja hjá við atkvæðagreiðslu við það frv. eins og aðrir stjórnarandstöðuþingmenn.

Í þriðja lagi er um stórmál að ræða vegna þess að auk þess að setja lög á kjarasamninga sjómanna og brjóta loforð sem gefin voru sjómönnum þá eru hér tvö frv. til umræðu, frv. til laga um Kvótaþing og um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna. Þessir frv. eru fyrst og fremst plástrar á sjúkt kerfi, plástrar sem væntanlega munu stuðla að því að staðið verði betur við kjarasamninga sjómanna. En um leið munu þeir hafa ófyrirséðar afleiðingar, ekki síst frv. um Kvótaþing. Þó ég styðji það að sjálfsögðu að staðið sé við kjarasamninga sjómanna sem annarra þá hef ég verulegar efasemdir um þær breytingar á lagaumhverfi sjávarútvegsins sem hér eru lagðar til. Væntanlega verður betur tryggt að sjómenn fái eðlilegt verð fyrir fiskinn og þá um leið fyrir sína vinnu og að þeir verði síður þvingaðir til að taka þátt í kvótakaupum útgerðarmanna, t.d. með þátttöku í svokölluðum tonn á móti tonni viðskiptum. Það er vissulega vel. En um leið er líklegt að þessi tvö frv., einkum frv. um Kvótaþing, muni leiða til þess að smáútgerðir leggist af eða sameinist stærri heildum.

[19:15]

Þetta gæti haft alvarleg áhrif í mörgum byggðarlögum landsins og þá er ég einkum með í huga Vestfirði allt suður með til Hornafjarðar. Á þetta bentu flestir hagsmunaaðilar sem komu á fund sjútvn. og það var ekki síst óvissan um áhrif Kvótaþingsins sem virðist leggjast illa í fólk og þá ekki síst fiskvinnslufólk.

Virðulegi forseti. Stjórnarandstaðan í sjútvn. tekur mismunandi afstöðu til þessara tveggja síðastnefndu frv. Jafnaðarmenn leggja áherslu á að stjórnvöld beri ábyrgð á þeim leiðum sem eru farnar til að sætta sjómenn og því munu þeir sitja hjá. Undir þetta get ég tekið heils hugar svo og get ég tekið undir afstöðu alþýðubandalagsmanna til Kvótaþingsins sem þeir treysta sér ekki til að styðja, ekki síst vegna þeirrar óvissu sem virðist ríkja um áhrif þess.

Ég gæti einnig stutt frv. um Verðlagsstofu sjávarútvegsins efnislega að flestu leyti þó að það sé einnig ljóst að enn ein eftirlitsstofnun muni kosta fé og sé því kannski ekkert sérstakt fagnaðarefni. Ég kýs þó að sitja hjá við það frv. einnig því að ríkisstjórnin verður ein að bera ábyrgð á lagasetningunni sem er eins og ég sagði áðan ekkert annað en plástur á verulega gallað kerfi.

Kvótakerfið er mjög umdeilt en það getur verið hagkvæmt ef framsal er ekki heft um of. Þetta kerfi er hins vegar ómanneskjulegt. Það býður upp á lítið atvinnuöryggi fyrir sjómenn og fólk í sjávarplássum og það er gersamlega óþolandi að mínu mati að heilu byggðarlögin geti misst lífsviðurværi sitt vegna þess að kvóti er seldur burt eða leigður frá viðkomandi skipi.

Í þessum frumvörpum eru lagðar hömlur á framsal en ég tel að það hefði mátt ganga lengra í þeim efnum í framsalsheftingu eða að auka veiðiskyldu og þar með að auka atvinnuöryggi sjómanna án þess að missa nauðsynlegan sveigjanleika kerfisins og þá um leið hagkvæmni þess. Þetta kerfi er að mínu mati, herra forseti, orðið eins og lifandi ófreskja sem þarf að hefta með þessum fjórum lagabálkum sem eru til umræðu. Ófreskju þessa þarf að hefta til þess að a.m.k. sumir sjómenn geti lifað betur með henni. Því miður mun ófreskjan við þessa heftingu ráðast til atlögu á öðrum sviðum með ófyrirséðum afleiðingum.

Virðulegi forseti. Ég hef skýrt meginafstöðu mína til þessara mikilvægu stórmála sem hér er hraðað í gegnum þingið í offorsi enn einu sinni. Það er skoðun mín að þessi frumvörp verði í raun til þess að óánægjan með kvótakerfið blossar upp á nýjum vígstöðvum og því sé brýnna en nokkru sinni fyrr að stokka fiskveiðistjórnarkerfið alveg upp á nýtt. Ég er sannfærð um að það verður eitt af stórmálum fyrir næstu kosningar og þá skiptir öllu að koma á fiskveiðistjórnarkerfi sem er í senn hagkvæmt og réttlátt, réttlátt bæði gagnvart sjómönnum, útgerðarmönnum, fiskvinnslufólki, sjávarbyggðum og þjóðinni allri sem á þessa mikilvægustu auðlind okkar Íslendinga. Um slíkt fiskveiðistjórnarkerfi þarf að ríkja sátt milli sjómanna og útgerðarmanna og milli sjávarútvegsins og þjóðarinnar, sátt sem endurspeglast m.a. í því að útgerðarmenn og sjómenn geti gert kjarasamninga eins og aðrar stéttir.

Það er ekki góð líðan að upplifa það að þingið sé að lögfesta fjóra lagabálka, lagabálka sem mjög fáir þingmenn, ef nokkrir, eru fyllilega ánægðir eða sáttir við, lagabálka sem eru keyrðir í gegnum þingið þrátt fyrir mikla óvissu um áhrif þeirra vegna þess að mikilvægara þykir að flotinn komist á sjó því að þjóðarverðmæti eru að sjálfsögðu í húfi eins og alltaf í verkföllum.

Að lokum fagna ég þeim ákvæðum til bráðabirgða sem fest eru við flest frv. með brtt. frá meiri hluta sjútvn., nefnilega að fyrir lok fiskveiðiársins 1998--1999 verði kannað hvaða áhrif þessi lög hafi haft á íslenskan sjávarútveg, sérstaklega stöðu og möguleika einstaklingsútgerðarinnar og skýrsla um niðurstöðu könnunarinnar verði lögð fyrir Alþingi. Þetta ætti að mínu mati að auka líkurnar á því að gripið verði í taumana ef allir óvissuþættir fara á versta veg.

Herra forseti. Það eru blendnar tilfinningar meðal þingmanna til þessarar lagasetningar, þingmanna stjórnarliða ekki síðar en stjórnarandstöðunnar. Það er neyðin ef neyð skyldi kalla að losna við verkfall sjómanna sem rekur stjórnina til að samþykkja þessi frumvörp fremur en yfirveguð vissa um að verið sé að stíga heillavænlegt skref. Þetta blendna andrúmsloft minnir mig mjög á það sem ég hef lesið um í Alþingistíðindum frá árinu 1983 þegar kvótakerfið var samþykkt. Þá voru tilfinningar reyndar mjög blendnar en þar var það viss eftirvænting sem var í lofti meðal margra þingmanna þó að vissulega væri mikil óvissa.

Lagasetningin er í heild plástur sem er nauðsynlegur til þess að sjómenn geti verið sáttir við kerfið en plásturinn er ekki betri en svo að líklegt má telja að önnur sár myndist annars staðar. Það er verulegt áhyggjuefni ef þessar spár ganga eftir og þessar lagabreytingar leiði til þess að útgerð á stórum svæðum landsins, allt frá Vestfjörðum til Hornafjarðar, leggist niður eða samræmist stærri heildum sem losna úr tengslum við viðkomandi byggðir. Því hefur verið spáð hér á landi en einnig í erlendum rannsóknum á sjávarbyggðum í norðri að það muni fækka á næstu árum í mörgum sjávarplássum sem byggja eingöngu á sjávarútvegi. Erlendu rannsóknirnar benda til að það muni gerast óháð því hvaða fiskveiðistjórnarkerfi verði við lýði. Því er mjög mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að komast út úr því mynstri að heilu plássin lifi á einni atvinnugrein. Lykilatriðið fyrir byggðir landsins er fjölbreyttari atvinnustarfsemi auk skynsamlegrar stefnu í fiskveiðistjórnun.

Að lokum tek ég fram að ég tel mjög óréttlátt hve fáar konur njóta þeirra kjara sem sjávarútvegurinn býður upp á, bæði til sjómanna og útgerðarmanna, og tel því mikilvægt og tímabært að ný stefna í fiskveiðistjórnun geri konum jafnt sem körlum kleift að njóta afrakstursins af þessari auðlind, bæði sem fiskvinnslukonur, sjómenn eða sjókonur og útgerðarmenn, svo og sem almennir þegnar í landinu. Nýtt lagaumhverfi verður að koma til en það getur að sjálfsögðu orðið margs konar, með eða án kvótakerfis. En það eru einnig til leiðir til að lagfæra kvótakerfið eins margoft hefur verið rætt hér á Alþingi. T.d. kæmi til greina að allur fiskur færi á markað eða að taka upp veiðileyfagjald í stað gjafakvóta. Þetta væru leiðir sem mundu leiða til þess að sjómenn yrðu sáttari við kerfið að því leyti að þeir fengju þá rétt fiskverð fyrir fiskinn og þjóðin fengi þá einnig notið afrakstursins umfram þá fáu útgerðarmenn sem fá nú gjafakvótann.

Þjóðin hefur þegar tekið við sér að mínu mati. Ég held að það sé mjög mikil þjóðarvakning meðal fólks um það að þetta kerfi er óréttlátt og vil ég þar ekki síst vísa í stofnun almannasamtaka sem starfa núna víðs vegar á landinu gegn því að kvótinn verði einkaeign fárra útvaldra. Þjóðin hefur áttað sig á að það er löngu tímabært að lagfæra í grundvallaratriðum núverandi kerfi sem hefur skapað meiri mismunun í landinu en nokkur kynslóð hefur upplifað fyrr. Á meðan milljarðamæringar verða æ fleiri situr fiskverkakonan eftir með lúsarlaun ef hún hefur þá yfir höfuð atvinnu. Á meðan skólakerfið og heilbrigðiskerfið er svelt til vansa fyrir unga sem aldna greiða sterkar útgerðir varla skatta og fá auk þess kvótann gefins og fá aðstoð við að borga laun sjómanna í gegnum sjómannaafslátt. Það getur ekki ríkt sátt um slíkt kerfi og það sem nú er verið að gera er á yfirborðinu fyrst og fremst að tryggja að staðið verði við kjarasamninga sjómanna með ófyrirséðum hliðarafleiðingum. Hér er ekki tekið á ósanngirni kerfisins. Hér er ekki verið að leysa kjaradeilur. Nei, þeim er eingöngu frestað til 15. febrúar ársins 2000. Þá verður vonandi komin önnur ríkisstjórn með aðra stefnu sem gerir þessum aðilum kleift að semja um kjaramál sín eins og siðmenntuðu fólki í öðrum atvinnugreinum.