Kjaramál fiskimanna

Föstudaginn 27. mars 1998, kl. 20:40:30 (5228)

1998-03-27 20:40:30# 122. lþ. 96.1 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 122. lþ.

[20:40]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér er verið að lögfesta að sjómenn sem vilja heyja réttinda- og kjarabaráttu með því að leggja niður vinnu muni sæta fjársektum ef ekki harðari og þyngri refsingum samkvæmt öðrum lögum, eins og segir í því ákvæði sem við erum hér að greiða atkvæði um.

Sjómenn hafa mótmælt því harðlega að vera sviptir verkfallsrétti með lögum en svo vön er þjóðin orðin því að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hlýði fjármagni og stórfyrirtækjum í einu öllu að þegar í einhverju er komið til móts við aðra, í þessu tilviki sjómenn með lagafernunni sem hér er til afgreiðslu, þá þykir það undrum sæta.

En vonandi mun þjóðin aldrei venja sig við stjórnarhætti af því tagi sem við erum hér að verða vitni að, banni við verkföllum og lagasetningu sem í reynd enginn er ánægður með.