Kjaramál fiskimanna

Föstudaginn 27. mars 1998, kl. 21:05:57 (5230)

1998-03-27 21:05:57# 122. lþ. 97.1 fundur 603. mál: #A kjaramál fiskimanna# frv. 10/1998, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 122. lþ.

[21:05]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þegar þessi frv. koma nú til lokaafgreiðslu er rétt að undirstrika andstöðu okkar við þá lögþvingun sem hér á að fara fram. Lagasetningu sem tekur af grundvallarmannréttindi, samningsrétt og verkfallsrétt, og sviptir fjölmenna stétt í landinu þeim réttindum fram á næstu öld. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur haldið illa á þessu máli og margt við undirbúning mála, málsmeðferð og í málflutningi hefur svo vægt sé til orða tekið minnt á skrípaleik. Alvarlegast er þó það, herra forseti, að deiluaðilum skyldi ekki takast að ljúka kjarasamningi sín í milli án utanaðkomandi íhlutunar og í friði. Það veit ekki á gott hvað varðar samskipti þessara aðila í framtíðinni. Ég ítreka vonbrigði mín með þessa niðurstöðu og greiði atkvæði gegn frv.