Vistun ungra afbrotamanna

Mánudaginn 30. mars 1998, kl. 15:55:44 (5243)

1998-03-30 15:55:44# 122. lþ. 98.92 fundur 286#B vistun ungra afbrotamanna# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 122. lþ.

[15:55]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Þetta er þörf og nauðsynleg umræða og fyrir hana ber að þakka. Yfirskrift hennar er Ungmenni og fangelsi. Ég geri ekki stóran greinarmun á því þegar rætt er um ungmenni, unga meinta sakamenn hvort heldur þeir eru sakhæfir, undir eða yfir sjálfræðisaldri eða hvort um er að ræða eldri meinta sakamenn sem hafa af einhverjum ástæðum lent á skjön við lögin í fyrsta og eina skiptið. Ég horfi á þennan hóp manna sem tiltekinn hóp, andstæðu við þann hóp sem er allt of vel þekktur og við höfum kallað einu nafni síbrotamenn.

Um þann hóp sem við ræðum þurfa að gilda ákveðin lykilhugtök: Sveigjanleiki, manneskulegt viðmót og samhæfing opinberra aðila þegar kemur að stjórn þessara mála. Því miður er það þannig í þessum efnum sem og í fíkniefnamálunum almennt að þessi mál skarast inn í fjölmörg ráðuneyti og samstarf og samhæfing eru af skornum skammti, því er nú verr og miður.

Staðreyndin er sú að þeir einstaklingar sem hér eiga í hlut eru eins margir og mennirnir eru. Það er spurt um félagslegan bakgrunn, brotavilja einstaklinga, möguleika til endurhæfingar, heilbrigðisástand. Því er um margflókin mál að ræða sem gerir það að verkum að skoða þarf mál hvers einasta einstaklings og meta hvernig samfélagið getur best sinnt þeirri grunnþjónustu sinni til að gera viðkomandi einstakling betri og um leið tryggja það að samfélagið eigi þess kost að lifa án ótta við hann eða gerðir hans.

Ég segi það fyrir fullt og fast, virðulegi forseti, af því að ég þekki þau mál eilítið frá störfum mínum áður og fyrr með Verndar-fólki góðu, að okkar íslensku fangelsi í dag eru ekki mönnum bjóðandi. Þau eru af ýmsum gerðum. Litla-Hraun er auðvitað stofninn og kjarninn í fangelsismálum okkar, langstærsta einstaka fangelsið. Þar ægir saman fólki af öllum tegundum og gerðum og fangaverðir og starfsmenn fangelsisins eiga alla mína samúð í þeim efnum. Við eigum líka svonefnt vinnufangelsi á Kvíabryggju sem mér finnst vera alger andstæða og hefur að mörgu leyti tekist vel upp með að endurhæfa og gera þá einstaklinga betri sem þangað hafa farið. Við höfum líka þriðju tegundina, sem er hneisa fyrir íslenskt samfélag, Skólavörðustíg 9 sem ætti að loka ekki seinna en í dag. Það er fyrir neðan allar hellur að hýsa þar einstaklinga. Það er því víða verk að vinna og ég vænti þess, virðulegi forseti, að þessi umræða geti á einhvern hátt orðið til þess að menn fari að horfa á þessi mál í samhengi, við skoðum þau lykilhugtök sem á þarf að taka, þ.e. samhæfingu, sveigjanleika og mannúð, sem eru lykilatriðin í nálgun þessara stóru viðfangsefna.