Vistun ungra afbrotamanna

Mánudaginn 30. mars 1998, kl. 16:02:45 (5245)

1998-03-30 16:02:45# 122. lþ. 98.92 fundur 286#B vistun ungra afbrotamanna# (umræður utan dagskrár), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 122. lþ.

[16:02]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Þessi umræða skapar ekki tíma til þess að fara ofan í kjölinn á grundvallaratriðum í refsipólitík og viðhorfum gagnvart refsingu en hún hefur verið um margt gagnleg.

Hv. 12. þm. Reykn. sagði að með öllu hefðu verið vettlingatök á fengelsismálum á undanförnum árum. Vel má vera að svo sé. En ég hygg nú að í annan tíma hafi ekki verið gert meira í umbótum í fangelsismálum en á síðustu árum. Búið er að byggja nýtt fangelsi á Litla-Hrauni. Í fyrsta skipti er búið að skapa aðstæður til þess að deildaskipta fangelsum. Það er búið að byggja nýja aðstöðu fyrir tómstundastarf fanga á Litla-Hrauni og fyrir vinnuaðstöðu og það er búið að bæta aðstöðu til náms. Ég er ekki með þessu að segja að búið sé að leysa allan vanda í kerfinu en í annan tíma hefur ekki verið gert meira og því miður hef ég stundum saknað þess þegar fjárveitingar í þessum málaflokki hafa verið til umfjöllunar hér, þá hafa ekki verið settar á langar ræður af hálfu hv. þingmanna eða áhugi verið mikill. (Gripið fram í.) Eigi að síður hefur þetta gerst á undanförnum árum.

Ég er þeirrar skoðunar að mjög mikilvægt sé að menn hugi ekki einungis að refsingunni eða hegningunni varðandi þau viðhorf sem ríkja að baki fangelsisvistun og í vaxandi mæli hafa menn sinnt því hlutverki að nota frelsissviptinguna til þess að aðstoða fanga með ýmsum hætti til þess að nálgast þjóðfélagið á nýjan leik. Það eru starfandi sálfræðingar við fangelsin. Það er starfandi fangaprestur. Vernd sinnir sérstakri fyrirgreiðslu og viðtölum við fanga. SÁÁ og AA-samtökin hafa sinnt meðferðarúrræðum og átt fundi með föngum. Rauði kross Íslands stendur fyrir sérstökum vinnuheimsóknum til fanga sem ekki fá heimsóknir frá ættingjum sínum og boðið er upp á námsaðstoð. Margt af þessu getum við eflt og bætt en menn mega ekki gleyma því að þetta er fyrir hendi.

Varðandi það sérstaka umræðuefni sem við höfum verið að fjalla um í dag, þ.e. unga afbrotamenn, þá tel ég að margar þeirra hugmynda sem fram hafa komið að undanförnu séu virkilega þess virði að þær séu skoðaðar og menn freisti þess að hrinda þeim í framkvæmd. Gerðar hafa verið tilraunir til þess að koma ungum afbrotamönnum í vistun á meðferðarheimilum og ugglaust má finna leiðir til þess að gera meira í því efni. Ég bind því vonir við það starf sem nú er áformað að setja af stað og tekur auðvitað eins og hér hefur verið bent á til fleiri ráðuneyta en dómsmrn. eins.