Lögreglulög

Mánudaginn 30. mars 1998, kl. 16:47:45 (5253)

1998-03-30 16:47:45# 122. lþ. 98.11 fundur 442. mál: #A lögreglulög# (samstarf lögregluliða, valnefnd Lögregluskólans o.fl.) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 122. lþ.

[16:47]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera að sérstöku umræðuefni þær dylgjur sem hv. þm. hafði í frammi um að hæfustu menn hefðu ekki verið skipaðir í embætti enda voru orð hans í þeim efnum með öllu órökstudd. Ég ætla fyrst og fremst að víkja að því sem hv. þm. nefndi að að mati hans væri fyrri mgr. 4. gr. frv. ekki í samræmi við nýju lögin um starfsmenn ríkisins. En hvernig víkur þeim málum við?

Það er meginreglan í hinni nýju skipan að ráðherrar skipa yfirmenn stofnana og þeir skipa alla embættismenn. Það er grundvallarreglan í hinni nýju skipan að ráðherrar skipa alla embættismenn. Lögreglumenn eru allir embættismenn og tekin var um það sérstök ákvörðun að lögreglumenn væru allir embættismenn ríkisins en ekki almennir starfsmenn. Það er því nokkurt brot á þessari meginreglu, sem Alþingi hefur ákveðið að ráðherra skipi ekki alla embættismenn, að færa þetta skipunarvald yfir til ríkislögreglustjóra. Ég tel það hins vegar vera mjög mikilvægt að færa þessar almennu ráðningar úr ráðuneytinu yfir til ríkislögreglustjóra enda er það þannig að í öllum meginatriðum fer ráðuneytið að tillögum viðkomandi embætta þegar um mannaráðningar eða skipun í þessi embætti er að ræða. Það er í fullu samræmi við þau nýju lög sem við höfum sett í þessu efni að ráðherra skipi æðstu embættismennina í viðkomandi embættum og menn mega ekki gleyma því í þessu sambandi að lögreglumenn eru allir embættismenn en ekki almennir starfsmenn.